08.04.2022

Föstudagsmolar forstjóra 8. apríl 2022 - Gestahöfundur er Guðrún Jóna Bragadóttir forstöðunæringarfræðingur

Kæra samstarfsfólk, ótrúlegt en satt það styttist í sumardaginn fyrsta. Þessum vetri er loksins að ljúka. Mig hlakkar svo mikið til sumarsins og langar að nýta tækifærið og fjalla meðal annars um tilhlökkunina. Þessa dýrmætu tilfinningu sem getur bætt líðan okkar og styrkt á svo margan hátt.

Covid setti margt úr skorðum og takmarkaði eðlilegt líf okkar flestra sl 2 ár. En það gaf okkur, þrátt fyrir allt, dýrmæta reynslu og ríka ástæðu til að hlakka til.  Já einmitt hlakka til þegar þessum ósköpum lyki. Ég held við höfum öll dvalið við dagdrauma um allt sem við hlökkuðum til að gera þegar Covid væri búið.  Það hjálpaði mér mikið í vetur að leyfa mér að hlakka til vorsins þegar daginn byrjar að lengja, sólin skín og hlýnar í lofti.  Ég hlakka alltaf til þess að heyra i Lóunni, vorboðanum ljúfa sem yljar mér um hjartaræturnar. Þessi fallegi fugl sem minnir mig á að nú er vetri að ljúka. Já það er góð tilfinning að hlakka til sólríkra sumardaga, bjartra sumarnátta, finna hlýjan andvarann og komast í gott sumarfrí.

Ég hlakkaði til þegar kynntar voru nýjar niðurstöður landskönnunar á mataræði íslendinga frá Embætti landlæknis og Rannsóknastofu í næringarfræði.  Ég ætla mér ekki að tíunda þær niðurstöður hér en þær sýna m.a. að aðeins 1% þátttakenda borðar ráðlagðan dagskammt af grænmeti, 4% af ávöxtum og 2% borðar samanlagt 5 skammta af grænmeti og ávöxtum á dag.  Það er ástæða til að staldra við þessar niðurstöður og velta fyrir sér af hverju íslendingar borði svona lítið af grænmeti og ávöxtum.  Það eru eflaust ýmsar ástæður fyrir því og vafalítið spila verðlag og gæði miklu máli.  Sjálf hlakka ég alltaf til þegar jarðarberin verða tilbúin í garðinum hjá mér og þegar berjalyngið norður í Aðaldal verður blátt af berjum.  Ég hlakka til að týna rabbararann í garðinum mínum og sólberin af sólberjarunnanum.  Þegar ég bjó í noregi hlakkaði ég mikið til að týna hindberin og jarðarberin út i garði og ég gleymi aldrei hvað þau brögðuðust vel.  Ég hlakkaði til að týna epli og perur af epla og perutrjánum.   Ég man hvað við systur hlökkuðum mikið til þegar pabbi byrjaði að týna upp smælkið úr kartöflubeðunum á mínum uppvaxtarárum.  Ég man tilhlökkunina þegar búðirnar fylltust af nýuppteknu íslensku blómkáli, rófum og gulrótum á góðu verði.  Og þegar ég og Sigga móðursystir mín keyptum ódýra græna tómata í miklu magni og sultuðum niður.  Ég gæti haldið lengi svona áfram.  Ég held að í dag skorti marga þessa upplifun tilhlökkunar og tengslin við ræktun á grænmeti og ávöxtum. 

Matsalur Reykjalundar er ein af mikilvægu kennslustofum stofnunarinnar. Skjólstæðingur sem innritast í endurhæfingu á Reykjalund í 4 til 6 vikur og borðar alltaf hádegisverð  fær 20 til 30 verklegar kennslustundir í að borða holla, næringarríka og fjölbreytta máltíð. Við höfum tækifæri til að veita fólki þá dásamlegu reynslu að hlakka til að mæta í matsalinn og borða  bragðgóðan og spennandi hádegisverð. Maturinn er mikilvægur hluti af endurhæfingu allra okkar skjólstæðinga á Reykjalundi og við þurfum að sýna mikinn metnað í þeim efnum.

Já það er dýrmæt tilfinning að hlakka til.  En það er líka mikilvægt að minna sig á þá staðreynd að það eru einstaklingar í kringum okkur sem líður ekki vel og finnst þau ekki hafa neitt til að hlakka til.  Það eru auðvitað ýmsar ástæður fyrir því að fólki líður ekki vel og hlakkar ekki til neins.  En einmitt þeim sem þannig líður  þurfa mest á hlýhug og vinsemd að halda sem við ættum öll að vera fær um að sýna án mikillar fyrirhafnar. 

Að lokum hlakka ég mikið til árshátíðar Reykjalundar sem verður á morgun.  Sjálf ætla ég að fara upp úr hádegi til Selfoss í dag, njóta dagsins með tvíbbasystur minni. Ég veit að margt af mínu ágæta samstarfsfólki ætlar líka að taka helgina snemma.  Loksins loksins fáum við tækifæri til að skemmta okkur vel og fallega.  Njótum þess.

Ég læt fylgja með mynd af fallega húsinu mínu norður í Aðaldal. Þangað hlakkar mig alltaf til að fara og þar líður mér vel. Það eru mín forréttindi.

Guðrún Jóna Bragadóttir

Forstöðunæringarfræðingur

Til baka