25.03.2022

Föstudagsmolar forstjóra - 25. mars 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Verður orkudrykkja-teymi á Reykjalundi í framtíðinni?

Í vikunni sótti ég mjög áhugaverðan fyrirlestur hér á Reykjalundi fyrir okkur starfsfólk, þar sem fjallað var um lyfjanotkun í íþróttum og ekki síður lyf og efni sem hafa útlits- og lífsstílsáhrif í okkar samfélagi. Lyfjamisnotkun í íþróttum er málaflokkur sem ég hef fylgst með lengi en það sem vakti sérstaka athygli mína var umræðan um ungt fólk og orkudrykkjaneyslu – eða öllu heldur börn og orkudrykkjaneyslu. Fram kom í fyrirlestrinum að algengt sé að börn niður í 11-12 ára aldur séu að drekka verulegt magn af orkudrykkjum, jafnvel daglega. Hingað til hef ég nú tengt þetta við unglinga og yngra fólk fyrst og fremst, en ekki börn. Í mörgun þessara drykkja er til dæmis margfalt magn af koffeini miðað við gömlu kóla-drykkina, sem hefur gríðarleg áhrif á líkamsstarfsemi þeirra sem neyta, hvort sem það eru börn eða fullorðnir. Fyrirlesarinn tók einmitt ágætt dæmi af sjálfum sér og áhrif af neyslu ákveðins orkudrykks á líkama hans og svefnvenjur. Alþingismaður nokkur hefur einmitt töluvert verið í fréttum síðustu daga fyrir að berjast fyrir því að  þessi sami drykkur verði seldur í veitingaaðstöðu Alþingis. Auðvitað vill enginn búa á í samfélagi þar sem boð og bönn stjórna öllu en þegar börn og unglingar eiga í hlut ber okkur skylda að fylgjast með velferð þeirra og grípa inn í ef ástæða er til. Börn eru ekki litlir fullorðnir heldur er það hlutverk okkar fullorðnu að styðja þau út í lífið og tryggja að þau verði fyrir sem minnstum óæskilegum áhrifum, líkamlegum sem andlegum, á þeirri leið.

Því miður er ég einn af þeim sem óttast að ef við förum ekki varlega í þessum málum geti orkudrykkjanotkun orðið sérstakt vandamál í samfélaginu og áhyggjuefni hver áhrif mikillar orkudrykkjaneyslu á líkamlegt þroskaferli barna geti orðið. Jafnvel gæti orðið svo að eitt þeirra þverfaglegu meðferðateyma sem starfrækt verði í framtíðinni á Reykjalundi verði orkudrykkja-teymi sem væri þá að aðstoði fólk út í eðlilegt líf eftir langvarandi (mis)notkun orkudrykkja.

Vonandi mun ekki til þess koma en samfélagið þarf að fylgjast vel með þessum málum. Gleymum ekki að lengi vel voru reykingar álitnar sjálfsagður hlutur við daglegt líf og öll tækifæri. Við þekkjum öll þær breytingar sem almennt hafa orðið á viðhorfi til reykinga og flest erum við sammála um að sú breyting er jákvæð og mikilvæg fyrir samfélagið.

Forstjóri á faraldsfæti

Í síðasta pistli ræddi ég um mikilvægi þess að stjórnendur og allir starfsmenn séu í góðum tengslum og nefndi sérstaklega að við í framkvæmdastjórn hefðum verið að funda undanfarið með öllum meðferðarteymum á mjög fínum fundum. Myndin með molunum í dag er einmitt af lungnateymi (þó nokkra vanti á myndina) en við áttum einmitt ljómandi fínan fund með þeim í morgun.

Þessi tengsl eru mér hugleikin og finnst mér þau mjög mikilvæg. Því miður er það svo að síðan ég hóf störf hér á Reykjalundi fyrir rúmu einu og hálfu ári, hefur Covid-faraldurinn sett verulegan svip á starfsemina þannig að við höfum þurft að vera meira og minna í hólfaskiptinu og litlum beinum persónulegum samskiptum í raunheimum. Sem betur fer sér nú fyrir endann á þessu ástandi.

Vegna þess hef ég ákveðið að loknu páskaleyfi og fram á sumar ætla ég ekki að dvelja á skrifstofu minni alla jafna, heldur hafa aðsetur á ýmsum skrifstofum sem lausar eru á hverjum tíma, víðsvegar um húsið. Þannig mun ég reyna að fá inni í 2-3 vikur í einu á ólíkum stöðum í húsinu, t.d. þar sem starfsmaður er fjarverandi sem væri tilbúinn til að lána mér skrifstofu sína á meðan. Markmið mitt er þannig að reyna að kynnast Reykjalundar-lífinu og Reykjalundar-starfinu með nýjum hætti. Ég hlakka til að kynnast ykkur betur.

Hressilegur vinnuhrekkur

Starfsfólkið hér á skrifstofu Reykjalundar kom mér hressilega á óvart síðasta miðvikudag. Upp úr hádegi fóru hinir og þessir starfsmenn að birtast á skrifstofunni hjá mér og færa mér poka með tómum dósum - samkvæmt minni beiðni að þeirra sögn. Þessu fylgdu ekki miklar útskýringar og þar sem ég sat á fundi gat ég ekki eytt miklu tíma strax í krefjast nánari skýringa á málum. Eftir nokkurn tíma var mér bent á auglýsingu á kaffistofunni sem reyndar hafði tveimur dögum fyrr verið hengd upp á allar kaffistofur Reykjalundar og nokkru víðar - þar sem ég óskaði eftir stuðningi í formi tómra dósa til að fjármagna fokdýra fjallahlaupsferð í frönsku Alpana  sem ég væri að fara taka þátt í, nú í sumar.

Er reyndar ekki að fara í neina svona ferð og um er að ræða hressilegan vinnuhrekk sem tengist víst undirbúningi árshátíðarinnar - en vandræðaleg viðbrögð mín voru víst fest á filmu.

Daginn eftir fylgdu svo fleiri hrekkir sem ekki verða afhjúpaðir hér.

Annars hafa fleiri hópar sem eru að undirbúa árshátíðina platað mig í einhver fíflalæti henni tengdri þar sem takmarkaðir hæfileikar mínir koma vel í ljós. Ég er því algerlega búinn að fara út fyrir öll þægindamörk síðustu dagana – en þetta er auðvitað bara gaman 😊

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka