11.03.2022

Föstudagsmolar forstjóra 11. mars 2022 - Inga Hrefna forstöðusálfræðingur er gestahöfundur

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Daginn er sannarlega farið að lengja, það er ekkert óveður er í dag og snjórinn að minnka – eigum við ekki að trúa því að vorið sé handan við hornið?

Að minnsta kosti eru við Inga Hrefna, forstöðusálfræðingur, sammála um að vorið sé framundan, sá skemmtilegi árstími. Hún er einmitt gestahöfundur föstudagsmolanna í dag, en þeir fylgja hér að neðan.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur

Pétur

 

Föstudagsmolar 11. mars 2022 - Kóvíd, lægðir, ofbeldi, vor og amma gat!

Það kom að því, eftir að hafa sloppið fyrir horn nokkrum sinnum náði kórónuveiran mér líka. Hélt um tíma að ég hlyti að vera með verndandi arfgerð líkt og fannst fyrir riðuveiki í sauðfé fyrir stuttu og var rakið í mína sveit, Reykhólasveitina en svo fannst arfgerðin reyndar ekki þar – ennþá.

Þegar allir voru orðnir langþreyttir á COVID-19, endalausum takmörkunum og afléttingum á víxl, tóku veðurguðirnir í taumana og ákváðu að dæla yfir okkur nokkrum djúpum lægðum með tilheyrandi roki, rigningu og snjókomu á víxl. Þá vorum við að minnsta kosti komin á okkar heimavöll enda fátt sem Íslendingar þekkja betur en baráttuna við veðrið. Glerhálka, fastir bílar, endalaus snjómokstur, já eða vatnselgir buðu upp á ýmis tækifæri til úti- eða inniveru.

Ekki má gleyma valdaójafnvægi og ofbeldi hvers konar sem færst hefur upp á yfirborðið á Íslandi og stríðinu í Evrópu sem nú geysar og bitnar á saklausum borgurum. Það leiðir hugann að því hvort mannskepnan ætli aldrei að læra af reynslunni. Er ekki komið nóg af ofbeldi og drápum á mönnum? Allt líf er dýrmætt, hvort sem það er hermaðurinn sem er kvaddur í herinn eða litla stúlkan sem varð óvart fyrir byssuskoti sem átti að hitta pabba hennar. Er ekki nóg að drepa fólk í tölvuleikjum eða á TEAMS, þarf það líka að gerast í raunheimum ennþá?

ÖLL ERUM VIÐ MENN er nafn á bók eftir ömmu mína Helgu Halldórsdóttur frá Dagverðará en þar fjallar hún um samtímafólk sitt og ýmsa kynlega kvisti. Hún talaði aldrei illa um nokkurn mann og bar virðingu fyrir öllum, eitthvað sem við getum stöðugt bætt okkur í. Reyndar kom kollegi minn með viðbót við þessa speki ömmu minnar þegar hann sagði á einum sálfræðingafundinum okkar „Karlar eru líka menn“!

Held að það sé gott að enda þennan pistil á að minna okkur á vorið sem er á næsta leyti en því fylgir von um betri tíð. Vorið er uppáhalds árstíðin mín, kannski af því að ég á afmæli í maí, kannski af því að þá er sólin upp á sitt besta og gróðurinn lifnar aftur við með nýju lífi, björtum litum og fyrirheitum um fleiri samverustundir með góðu fólki.

Ég er sjálf ekki amma en á litla frænkuskottu sem auðgar lífið á hverjum degi, hún er ákveðin og skýr og gæti verið Lína júníor en mamma hennar heitir einmitt Ólína og er systir mín. Við litla skotta erum góðir vinir og erum saman í gönguklúbbnum „Löttlurnar“ en þegar maður er tveggja ára þá labbar maður ekki heldur lattlar. Uppáhaldslagið núna er Jólasveinar einn og átta og við syngjum það reglulega þegar við hittumst. Þegar hún var yngri sungum við Adam átti syni sjö allt árið því það var svo gaman að stappa. Svo er líka mjög gaman og bráðfyndið að blása með röri í vatnsglas – svona bara ef þið hafið ekki prófað það nýlega. Litla dýrið sem verður þriggja ára í sumar, var mjög stolt af ömmu sinni um daginn þegar ömmunni tókst að kveikja á Hvolpasveitinni fyrir hana með fjarstýringunni og sagði stolt: Amma gat sjálf!

Bestu kveðjur og góða helgi!

Inga Hrefna Jónsdóttir,

forstöðusálfræðingur

Til baka