21.02.2022

Föstudagsmolar forstjóra - 18. febrúar 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Mikið fannfergi hefur einkennt þessa viku sem er að klárast, með tilheyrandi truflunum á færð og starfsemi. Það eiga þó allir þakkir skyldar fyrir að leysa farsællega úr þeim málum sem komið hafa upp hjá okkur vegna þessa. Mörgum finnst reyndar snjórinn gefa lífinu og landslaginu skemmtilegan blæ og nýir möguleikar í útvist opnast eins og gönguskíðaiðkun sem  hefur verið vinsæl hér á Reykjalundi undanfarna daga. Myndina með molum dagsins tók Hilmar Gunnarsson, ritstjóri bæjarblaðsins Mosfellings, nú í vikunni og sýnir Reykjalund í fullum vetrarskrúða.

Fögnum afmæli Reykjalundar á fimmtudaginn!

Í byrjun febrúar má segja að 77 ára afmælisdagur Reykjalundar hafi verið en það var 1. febrúar 1945 sem fyrsti sjúklingurinn var innritaður hingað á Reykjalund. Á þeim degi þótti ekki heppilegt að blása til mikilli hátíðarhalda en næsta fimmtudag, 24. febrúar, höldum við upp á 77 ára afmælið. Þá býður Reykjalundur öllum sjúklingum og starfsfólki í afmælis-hádegisverð þar sem Gunnar kokkur og félagar í eldhúsinu elda eitthvað spennandi og viðeigandi í tilefni dagsins.

Vonandi geta sem allra flestir notið og fagnað með okkur!

Mars verður gjaldfrjáls mánuður í mötuneytinu fyrir starfsfólk!

Mér er ánægja að tilkynna að marsmánuður verður gjaldfrjáls mánuður í mötuneytinu fyrir okkur starfsfólk. Það hefur verið hefð hér á Reykjalundi undanfarin ár að vera einstaka sinnum með gjaldfrjálsan mánuð í mötuneytinu fyrir okkur starfsfólk. Það hefur hins vegar ekki verið talið mjög heppilegt í meðan Covid hefur dunið á okkur. Nú horfir hins vegar til betri vegar og því stökkvum við á tækifærið strax í mars og vonandi náið þið sem allra flest að njóta.

10 ráð til að kveikja eldmóðinn frá Dale Carnegie

Dale Carnegie var áhugaverður maður sem fæddist 1922 og væri því 100 ára á þessu ári ef hann væri á lífi. Segja má að hann sé einn af frumkvöðlum í því sem kalla mætti sjálfsræktarfræði og/eða sjálfskoðunarfræði. Nafn hans er enn í dag virt í þessum geira, bækur hans seljast ennþá og ýmis fyrirtæki sem bera nafn hans blómstra sem aldrei fyrr. Þrátt fyrir að skrif hans séu orðin þetta gömul er margt af því sem stenst ágætlega tímans tönn. Mig langar að birta hér 10 heilræði frá Dale Carnegie til að kveikja eldmóðinn. Bendi til dæmis á Dale Carnegie á Íslandi eða „Google“ til að fræðast betur um hans vangaveltur. En hér er um eldmóðinn:

  1. Hvenær leið mér vel? Rifjaðu upp hvenær þér leið best á þinni ævi. Hvað varstu að gera, hverja varstu að umgangast, í hvaða umhverfi varstu o.sv.frv. Skoðaðu hvað af þessum hlutum þú getur heimfært til dagsins í dag.
  2. Gerðu það sem þú elskar. Skrifaðu niður á blað 5 hluti sem þú elskar að gera….. og gerðu meira af þeim.
  3. Vertu með áætlun. Hvað ertu að fara að gera á næstu vikum? Eða næstu mánuðum? Eða hvernig þú ætlar að hafa næstu 5 ár? Gerið plan.
  4. Finndu 5. jákvæða hluti í þínu fari. Ef þú getur ekki fundið þá sjálf/ur spurðu þá vini, ættingja eða samstarfsfólk.
  5. Ekki vera fórnarlamb. Fátt slekkur eldmóð hraðar en „ég get ekki“ hugsanir. Ekki semja við sjálfa/n þig. Það er alltaf til leið.
  6. Sæktu orku í aðra. Vinir þínir eru örugglega mis orkumiklir. Veldu að vera í kringum þá sem gefa þér orku og forðastu hina.
  7. Hreyfðu þig. Reyndu á þig líkamlega og andaðu að þér fersku lofti. Það er ókeypis.
  8. Spurðu þig spurninga. Taktu innra samtal og spurðu þig spurninga um hvert þig langar og hvað þig langar.
  9. Varaðu þig á streitunni. Streita getur læðst aftan að manni og dregið úr eldmóðnum. Taktu frá tíma fyrir svefn. Hvíldu þig og safnaðu kröftum.
  10. Nýttu styrkleikana þína. Horfðu á styrkleika þína frekar en veikleika.

Veldu þér eitt eða fleiri ráð til að vinna með og byrjaðu núna að kveikja eigin eldmóð. Gangi þér vel!

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka