11.02.2022

Föstudagsmolar forstjóra 11. febrúar 2022 - gestahöfundur er Stefán Yngvason framkvæmdastjóri lækninga

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmolana í dag sem eru ágætis hugvekja eftir gestahöfund dagsins, Stefán Yngvason, framkvæmdastjóra lækninga.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur

Pétur

 

Föstudagsmolar 11. febrúar 2022

Ágæta samstarfsfólk,

Þessa dagana birtir til í tvennum skilningi, sólargangur lengist og í augsýn er hjöðnun faraldurs sem hefur gert okkur lífið leitt í undanfarin tvö ár. Ég kom til starfa á Reykjalundi í nóvember 2019 til að sinna sex mánaða verkefni starfsstjórnar á erfiðum tímum í stjórnun Reykjalundar. Reyndin varð svo önnur og hér er ég enn!  Þessi tími hefur svo sannarlega verið óvenjulegur. Kófið bankaði upp á í lok febrúar 2020 og síðan þá hefur flest í okkar samfélagi tekið miklum breytingum. Reykjalundur er þar engin undantekning.  Í stað hefðbundinna verkefna í stjórnun endurhæfingarstofnunar hefur ítrekað þurft að endurskoða og uppfæra sóttvarnarreglur í takt við smitbylgjur. Hólfaskiptingar urðu nauðsynlegar til að hindra útbreiðslu smita. Þrátt fyrir þessar aðgerðir hefur þurft að takmarka fjölda í húsi og á tímabilum að loka starfseiningum. Erfiðast hefur okkur þó þótt hólfaskiptingin og fjarlægðartakmarkanir, sem hafa komið niður á félagslegum þætti vinnunnar með mikilli takmörkun á mögulegri samveru.

Fjarfundir, símtöl og tölvupóstur réðu ríkjum. Nú sjáum við fram á betri tíð og vonumst til að starfsemi Reykjalundar komist smám saman í eðlilegt horf í takti við rénun faraldursins. 

Í öllu mótlæti skapast líka tækifæri. Það nýttum við með því bjóða upp á endurhæfingu fyrir þá sem fengu langvinn hamlandi einkenni eftir Covid smit og settum samhliða í á fót rannsóknarverkefni til að kanna áhrif endurhæfingar á slík einkenni. Það verður mjög áhugavert að sjá niðurstöðurnar þegar úrvinnslu lýkur.

Reykjalundur er ekki eyland í íslenska heilbrigðiskerfinu.  Í tvígang hefur Reykjalundur tekið þátt á neyðarstigum almannavarna og Landspítala með aukinni þjónustu við rúmliggjandi sjúklinga frá Landspítala. Í bæði skiptin gerðist þetta með afar stuttum fyrirvara að beiðni heilbrigðisyfirvalda. Allir þeir sem tóku þátt í að gera þetta mögulegt eiga miklar þakkir skildar fyrir framlag sitt.

Undanfarna daga höfum við svo sannarlega fengið kynnast verstu og bestu sýnishornum íslenskra veðráttu. Nú er lag að draga fram skíðin í njóta útivistar í fallegu vetrarveðri. 😊

Góðar stundir.

Stefán Yngvason,

Framkvæmdastjóri lækninga

Til baka