04.02.2022

Föstudagsmolar forstjóra - 4. febrúar 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Reykjalundur orðinn 77 ára!
Í þessari viku var 77 ára afmælisdagur Reykjalundar en það var 1. febrúar 1945 sem fyrsti sjúklingurinn var innritaður hingað á Reykjalund. Líkt og síðustu tvö ár, fór lítið fyrir hátíðarhöldunum á afmælisdaginn vegna blessaðrar farsóttarinnar. Ef allt gengur að óskum í faraldursbaráttunni næstu daga munum við síðar í þessum mánuði halda upp á tímamótin og verður það kynnt sérstaklega.
Sjálfsagt er þó að óska öllum til hamingju með þennan áfanga enda er saga Reykjalundar mjög sérstök og merkileg og þið öll hafið heldur betur lagt ykkar að mörkum við að skapa hana.

Tvö smit á dag að meðaltali hér á Reykjalundi
Enn og aftur er Covid umfjöllunarefni í þessum pistli. Sjálfsagt erum við öll að verða búin að fá okkur fullsödd af þessu máli en því miður er Covid ennþá að hafa mikil áhrif á daglegt líf og störf okkar allra. Um miðja síðustu viku voru kynntar breytingar á reglum um sóttkví, smitgát og einangrun. Þessar tilslakanir hafa það í för með sér að fleiri smitaðir einstaklingar eru á ferli í samfélaginu en áður. Þessu höfum við kynnst hér á Reykjalundi því að síðan þessar breytingar voru gerðar hefur að meðaltali einn starfsmaður og einn sjúklingur greinst jákvæður á hverjum degi. Þetta kallar auðvitað á skjóta smitrakningu hér inannhúss, markvissa ferla við að gera fólki viðvart og ekki síst að allir fylgi reglum um persónulegar sóttvarnir. Blessunarlega hefur þetta gengið mjög vel hingað til og engin hópsmit komið upp. Út frá þessu má álykta að á hverjum degi séu nokkrir jákvæðir einstaklingar á ferð hér í húsinu þar sem margir eru einkennalausir og vita kannski aldrei af eigin smiti. Við þurfum því öll að fara gætilega þó það sé sannarlega gaman að geta farið að hittast á ný.

Upphafið af endinum – samstaðan skilar okkur langt
Svo við endum nú pistillinn á jákvæðum nótum þá bind ég sjálfur (eins og ýmsir fleiri) vonir við að nú sé upphafið á endinum hafið. Við sjáum loksins ljós við enda ganganna og það erfiðasta ætti að vera yfirstaðið í þessum blessaða faraldri. Þó við verðum að fara varlega, er samt hægt að fara smá saman í gang með ýmis verkefni sem hafa legið í láðinni og okkar bíða spennandi tímar. Handboltalandsliðið hristi heldur betur upp í okkur baráttuandann og kom með jákvæða strauma inn í þjóðlífið – sem við þurftum sannarlega á að halda. Að sama skapi var gaman að fylgjast með samstöðunni hér á Reykjalundi sem ríkti í janúar þegar og fjöldi starfsmanna úr ýmsum áttum var tilbúinn að leggja mjög óvenjulegu verkefni lið. Með samhentu átaki tókst okkur hér á Reykjalundi að setja upp auka sólarhringsdeild í neyðarskyni til að aðstoða Landspítala og heilbrigðiskerfið ef faraldurinn færi á versta veg. Sem betur fer varð þörfin aldrei mjög mikil en það var frábært að sjá að flestir voru viljugir að leggja þessu samfélagslega verkefni lið; fólk úr ólíkum starfstéttum og með mismunandi reynslu fór vel út fyrir sín hefðbundnu störf og þægindaramman til að leggja sitt af mörkum. Nú fram í miðjan febrúar eru ýmsir aðilar að aðstoða Miðgarð við að komast í hefðbundna starfsemi aftur en viðbótar sólarhringsdeildin lokaði 31. janúar. Mynd dagsins er einmitt lýsandi fyrir samvinnuna og samhuginn en þegar ég rak nefið inna á vaktina á Miðgarði í gær var glæstur hópur á vakt úr ýmsum áttum, Anný Lára forstöðumaður á Hlein og Þórunn hjúkrunarstjóri í Hjartateymis stóðu vaktina með Guðbjörgu hjúkrunarfræðingi á Miðgarði og hennar samstarfsfólki. Vek svo sérstaka athygli á líklega töffaralegustu mynd sem hangir uppi á veggjum Reykjalundar – en það er myndin sem er inn á vaktinni á Miðgarði og sést fyrir aftan þær.

Að lokum er mér ljúft að minna á samskiptasáttmálann okkar hér á Reykjalundi en verklagsreglur honum tengdum voru samþykktar í framkvæmdastjórn í lok síðasta árs. Öll mál fara því nú í formlegt ferli og er fylgt eftir. Þó ég voni nú sannarlega að sem sjaldnast þurfi að virkja ferlið, vil ég samt hvetja alla til að láta vita ef þið teljið brot á honum vera framin.
Daginn er tekið að lengja og veðrið síðustu daga hefur verið frábært (þó það sé jú pínu kalt) þannig að spennandi tímar bíða okkar nú þegar við getum farið að glíma við ýmis skemmtileg verkefni sem setið hafa á hakanum vegna faraldursins.

Góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka