14.01.2022

Föstudagsmolar forstjóra 14. janúar 2022 - gestahöfundur er Anna Stefánsdóttir formaður stjórnar Reykjalundar endurhæfingar ehf

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmolana í dag sem eru fínasta nýárshugvekja eftir gestahöfund dagsins, Önnu Stefánsdóttur, stjórnarformann Reykjalundar endurhæfingar ehf.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur

Pétur

 

Föstudagsmolar 14. janúar 2022

Ágæta samstarfsfólk á Reykjalundi,

Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir samstarfið undanfarin tvö ár.  Ég þakka fyrir hönd stjórnar, öllu starfsfólki fyrir óeigingjarnt starf við afar óvenjulegar aðstæður á síðasta ári og að bregðast skjótt og vel við breytingum á starfseminni þegar eftir því hefur verið leitað. 

Við upphaf árs horfi ég oft til baka og velti fyrir mér hvað er eftirminnilegt frá árinu sem liðið er. Ég held að enginn velkist í vafa um hvað er sérstaklega eftirminnilegt frá síðasta ári.  Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá hefur Covid19 faraldurinn einkennt líf okkar allra með einum eða öðrum hætti. En viðburðir í einkalífinu eru einnig eftirminnilegir. Ég varð t.d. þeirrar gæfu aðnjótandi að elsta sonardóttir mín, sem búsett er í Danmörku, bjó hjá mér mest allt síðasta ár. Það er sannarlega eftirminnilegt fyrir okkur báðar. 

Við áramót kýs ég líka að horfa fram á veginn til nýja ársins, oftast með eftirvæntingu og spyr gjarnan sjálfa mig hvaða áskoranir munu mæta mér.  Áskoranir sem mæta okkur á lífsleiðinni eru oft óvæntar, eins og þegar ég var beðin að taka sæti í starfsstjórn Reykjalundar. Það var bæði áhugavert og lærdómsríkt verkefni fyrir mig. En áskoranir eru ekki síður að eigin vali t.d. þegar sótt er um nýtt starf.  Ég er þeirrar skoðunar að áskoranir séu ákveðin verkefni sem mæta manni á lífsleiðinni, efla mann og styrkja. Áskorun er einnig hvatning til að takast á við sjálfan sig, læra eitthvað nýtt og þroska sig sem manneskju. Sumar áskoranir breyta manni þannig fyrir lífstíð.

Ekki er ósennilegt að óvæntar áskoranir mæti mér á þessu ári, en ég hef þegar valið mér eina áskorun sem ég ætla að takast á við.  Ég hef mikla ánægju af útivist, fékk líka mikla hvatningu þegar ég var á Reykjalundi. En ég var alveg sérstaklega löt við útivistina á síðasta ári. Nú ætla ég að skipta um gír og undirbúa mig fyrir nýja áskorun.  Á þessu ári ætla ég að ganga West Highland Way í Skotlandi, sem er 154km löng. Yfirleitt er leiðin gengin á sjö dögum en hægt er að taka lengri eða styttri tíma ef maður vill.  West Highland Way er gömul þjóðleið sem liggur um sérstaklega fallegt landsvæði frá skosku Láglöndum upp í Hálöndin og er vinsælasta gönguleiðin þar í landi. Gengið er um skógi vaxið land, sveitir og dali og meðfram stærsta vatni Skotlands, Loch Lomond. Á hverjum göngudegi mætir manni stórbrotið landslag.  Ég hef oft dvalið í Skotlandi, átti heima í Edinborg á mínum yngri árum og hef ekið leiðina meðfram Loch Lomond, en nú er komið að því að ganga og njóta.  Ég er full eftirvæntingar að takast á við þessa áskorun. 

Það verður áskorun okkar allra að koma starfsemi Reykjalundar á réttan kjöl þegar sér fyrir endann á Covid19 faraldrinum. Ég hlakka til að taka þátt í þeirri vinnu.

Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar velfarnaðar á nýju ári.

Anna Stefánsdóttir 

formaður stjórnar Reykjalundar endurhæfingar ehf.

Til baka