07.01.2022

Föstudagsmolar forstjóra - 7. janúar 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Það er vel við hægi að hefja föstudagsmola þessa árs á því að óska ykkur gleðilegs og gæfuríks árs. Vonandi hafa sem allra flest ykkar náð að njóta hátíðanna sem best, þrátt fyrir samkomutakmarkanir og óvenjulegt ástand – aðra jólahátíðina í röð. Jafnframt þakka ég enn og aftur fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf á síðasta ári.

Þetta nýja ár byrjar sannarlega með óvenjulegum hætti. COVID-smit hafa aldrei verið fleiri en þessa dagana og þó Omicron afbrigðið valdi minni sjúkdómseinkennum en fyrri afbrigði, er það óvenju smitandi. Delta afbrigðið er ennþá í gangi en þar koma frekar fram skæðari einkenni. Fjöldi smita er það mikill að æ fleiri landsmenn eru að greinast jákvæðir eða þurfa að fara í sóttkví. Miðað við fjölda í einangrun og sóttkví núna má reikna með að um 10 starfsmenn Reykjalundar verði í sóttkví eða einangrun á hverjum tíma í janúar og einhver hópur sjúklinga líka. Svo er einmitt raunin nú. Þetta mun án efa hafa ýmsar raskanir á daglegu starfi í för með sér en ljóst er að við munum starfa á RAUÐU viðbúnaðarstigi nú í janúar. Þegar smit eru jafn tíð og nú, er ekki spurning hvort heldur bara hve oft upp kemur smit hjá okkur starfsfólkinu. Mikilvægt er sem aldrei fyrr að hólfaskipting haldi þannig að sem fæstir fari í sóttkví vegna hvers smits. Þetta hefur gengið mjög vel hingað til og það sama verður án efa upp á teningnum áfram.

Miðgarður opnaði fimm dögum fyrr

Hér á Reykjalundi hafa jólin verið óvenjuleg og nýja árið sömuleiðis. Vegna stöðu COVID-faraldursins var Landspítali settur á neyðarstig rétt fyrir jól. Í framhaldinu biðluðu heilbrigðisyfirvöld til Reykjalundar (sem og annarra heilbrigðisstofnana) um aðstoð, fyrst rétt fyrir jól og svo aftur milli jóla og nýárs. Í ljósi samfélagslegrar skyldu og siðferðilegra ástæðna, var Reykjalundi erfitt að neita beiðninni. Eins og þið þekkið var niðurstaðan að opna sólarhringsdeildina okkar, Miðgarð, 5 dögum fyrr en til stóð eða miðvikudaginn 29. desember s.l. Við þessa framkvæmd þurfti að kalla fjölda starfsmanna inn úr jólafríi. Vil ég nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki Miðgarðs sem og öllum öðrum sem hönd lögðu á plóg fyrir vaska framgöngu í þessu máli.

Viðbótardeild með sólarhringsrýmum sett á laggirnar

Í viðræðum við stjórnvöld var jafnframt rætt, að komi til algers neyðarástands í landinu, gæti Reykjalundur lokað hluta af dagdeildarstarfsemi sinni og opnað aðra sólarhringsdeild með tiltölulega stuttum fyrirvara. Ef til þess kæmi, lokaði almenn endurhæfingarstarfsemi Reykjalundar að einhverju leiti og félli niður, ásamt því að viðkomandi dagdeildarsjúklingar yrðu sendir til síns heima. Starfsfólk, búnaður og húsnæði Reykjalundar yrði þá nýtt í til þess að starfrækja aðra sólahringsdeild í húsinu. Þó slíkt neyðarástand sé kannski ekki skollið á nú þó róðurinn þyngist daglega, er talið að álag á heilbrigðiskerfið verði í hámarki eftir um tvær vikur. Vegna þessa hafa stjórnvöld þrýst á Reykjalund um opnun slíkrar deildar og komu fyrstu sjúklingar til okkar á deildina frá Landspítala síðast liðinn þriðjudag.

Um er að ræða 11 rúm sem bætast við og eru staðsett í B-álmu 2. hæðar. Verður þá sólahringsstarfsemi Reykjalundar samtals 23 rúm (11 + 12 rúm) þennan tíma. Því miður þarf að gera hlé á starfsemi þriggja meðferðarteyma á meðan; lungnateymis, hjartateymis og taugateymis. Nýju rýmin verða starfrækt með Miðgarði og starfsfólki bætt við mönnun Miðgarðs til að sinna viðbótarrýmunum. Þannig blandast mönnun starfsfólks með reynslu af Miðgarði og reynsluminna fólks sem kæmi úr teymunum.

Biðlað hefur verið til starfsfólks umræddra meðferðarteyma að vera með í þessu verkefni og ef þörf er á verður leitað til starfsfólks í fleiri teymum. Fjöldi starfsmanna hefur lýst yfir vilja til að vera með í verkefninu og ber að þakka kærlega fyrir það. Strax í byrjun vikunnar hófu nýjir starfsmenn aðlögun og hefur það gengið vel. Við erum í þessu saman og ég veit að Reykjalundur mun skila þessu verkefni af sér með sóma, þó eðlilega séu fjöldi atriða sem þarf að leysa svo allt gangi upp.

Molarnir að þessu sinni eru einmitt skrifaðir á næturvakt á deild B2 hjá okkur hér á Reykjalundi. Síðastliðna nótt tók ég að mér hlutverk „léttadrengs“ á bjölluvakt á næturvakt sem var bara gaman og gekk held ég stórslysalaust. Til öryggis smellti ég mér á Suðurlandsbrautina í próf fyrir vaktina svo ég væri nú ekki að bera neina óværu með mér en hlífðarsvunta, veiruheld gríma og aðrar sóttvarnir gera líka sitt gagn og gagnlegt að prófa að klæðast slíkum búnaði. Að öllu gamni slepptu tel ég mjög gott, mikilvægt og ekki síst lærdómsríkt að kynnast starfinu okkar að eigin raun og fá þetta beint í æð ef svo má segja. Sjálfsagt kom ég með ýmsar óvenjulegar spurningar og vangaveltur en Ásdís hjúkrunarfræðingur sem var mér til halds og trausts í nótt, sýndi mér bæði skilning og þolinmæði.

Myndin með molunum í dag er tekin á vaktaskiptum í gærkvöldi. Með mér eru þær Jónína og Hugrún en af sóttvarnarástæðum er okkur alveg skipt þannig að ekki var hægt að mynda fleiri saman.

Þrátt fyrir verulega óvenjulega byrjun á árinu er ég fullur tilhlökkunar í garð þessa nýja árs. Okkar hér á Reykjalundi bíður fjöldi spennandi verkefna í endurhæfingunni, þó sannarlega megi því miður búast við að stór hluti þess verði í skugga COVID veirunnar.

Þó það sé gott að komast í frí, finnst mér líka alltaf gott að koma til baka í hefðbundna daglega vinnurútínu. Nú er starfið okkar komið á fullt eftir fríið og því vil ég nota þetta tækifæri og bjóða ykkur velkomin aftur – jafnframt hlakka ég til að takast á við, með ykkur, hið spennandi ár 2022!

Góða helgi!

Pétur

Til baka