22.12.2021

Föstudagsmolar forstjóra - Jólakveðja 22. desember 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Þó að í dag sé miðvikudagur koma hér síðustu föstudagsmolar forstjóra þetta árið. Það er vel við hæfi að senda ykkur þessa síðustu kveðju ársins þann 22. desember en einmitt í dag byrjar daginn aftur að lengja.

Föstudagsmolar koma á föstudagsmorgnum í hverri viku þar sem hugmyndin er að koma á framfæri fréttum af einhverju áhugaverðu í Reykjalundarlífinu eða einhverju öðru sem ég tel eiga erindi til ykkar. Svo þið fáið ekki hundleið á mér, fæ ég reglulega til liðs við mig gestahöfunda úr starfsmannahópnum, sem fá frjálsar hendur um áhugaverð umfjöllunarefni sem þeim finnst eiga erindi til okkar hinna. Molarnir eru sendir í tölvupósti til allra starfsmanna en þeir eru jafnframt birtir á innri síðu og á Facebook-síðu Reykjalundar, þar sem áhugasamir aðilar um starfsemi Reykjalundar geta fylgst með.

Mig langar til að nota þetta tækifæri og þakka ykkur fyrir lesturinn og góð viðbrögð. Jafnframt langar mig að þakka gestahöfundunum kærlega fyrir að vera með í þessu en molarnir þeirra hafa verið skemmtilegir og áhugaverðir þó ólíkir séu. Myndin með molum dagsins í dag var tekin á 3. hæðinni, hjá efnaskipta- og offituteyminu á dögunum.

Ég óska ykkur, fjölskyldum ykkar og vinum, gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Ég vona að þið eigið öll góðar stundir um hátíðarnar hvort sem þið dveljið í faðmi fjölskyldu og vina í ykkar jólakúlu (rétt eins og í fyrra), standið vaktina eða gerið eitthvað annað.

Jafnframt þakka ég ykkur kærlega fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf á árinu sem er að líða. Þrátt fyrir að þetta hafi verið ár númer tvö í faraldrinum, hafa ýmsar nýjar áskoranir fylgt sem krafist hafa þolinmæði, útsjónarsemi og hugrekkis. Árið hefur almennt gengið mjög vel og sú lausnamiðaða nálgun sem við höfum nýtt okkur, tekist vel. Þó faraldurinn hafi sett margt úr skorðum, getum við verið stolt af því góða starfi sem Reykjalundur er að skila af sér til samfélagsins. Ég lít á það sem forréttindi að fá að vinna með öllu því góða fólki sem hjá okkur starfar og gerir starfsemina jafn glæsilega og raun ber vitni.

Ég hlakka mikið til að takast á við árið 2022 með ykkur – þar sem verkefni okkar verður, að gera glæsilegan Reykjalund enn glæsilegri og betri! 

Njótið vel og gleðilega hátíð!

Pétur

Til baka