17.12.2021

Föstudagsmolar forstjóra 17. desember 2021 - gestahöfundur er Steinunn H. Hannesdóttir heilsuþjálfari

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Undanfarna daga hefur aldeilis verið mikið jólafjör hjá okkur sem hefur sannarlega krydda lífið með skemmtilegum og jákvæðum hætti. Það er frábært hvað hér er mikið stuð og stemning þrátt fyrir Covid og hólfaskiptingu. Sjálfur hef ég skemmt mér mjög vel og vonandi þið allra flest líka. Það er búið að sýna fram á að dagurinn þegar maður verður gamall er dagurinn þegar maður hættir að leika sér - Ég er svo seinþroska að það er nokkuð langt þangað hjá mér og eftir síðustu daga sýnist mér það eiga við marga aðra í okkar hópi 😊

Ég vil þakka stjórn starfsmannafélagsins fyrir að leiða okkur í þessari skemmtun og öllum fyrir að taka svona virkan og glæsilegan þátt!

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins sem eru falleg jólahugvekja eftir gestahöfund dagsins, Steinunni H. Hannesdóttur heilsuþjálfara.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur

Pétur

 

Föstudagsmolar 17. desember 2021

Það líður að jólum og vinir hittast. Ég ætla að fara með ykkur á samkomu. Aðalræðumaðurinn stendur upp og heldur lofræðu um góða vinkonu. Þetta er veislan hennar, þessarar konu sem vaknaði á undan öðrum til að fara í ræktina áður en hún fór vel til höfð í sína krefjandi vinnu. Hún sinnti heimili og börnum með annarri hendi, hljóp maraþon og synti í sjónum á meðan aðrir skulfu við tilhugsunina eina saman. Hún skipulagði ferðirnar á meðan félagarnir flutu með í þægindarammanum. Að ekki sé talað um heimboðin og veislurnar! Þar voru veitingar sem áhrifavaldar höfðu deilt og niðurstaðan var eins og hjá sjónvarpskokki.  Í þessari veislu er hún í aðalhlutverki. Við hin lútum höfði, þerrum tárin og krossum yfir kistuna á leiðinni út. Það er ekki allt sem sýnist. Það er aldrei allt sem sýnist.

Þegar skammdegið og myrkrið skellur á er svo mikilvægt að huga að náunganum og þeim sem standa okkur nærri. Hugum að andlegri og líkamlegri líðan. Jólahátíðin er hátíð barnanna og fjölskyldur koma saman. Njótum samverunnar og þess góða sem árstíminn gefur. Nú er úrval af jólatónum og tónleikum sem skapa stemninguna. Tónlistin er alþjóðlega tungumálið og snertir okkur á svo margan hátt. Hreyfingin er samofin hljómfallinu sem er ýmist taktfast og hvetjandi, rólegt og sefandi. Við dillum okkur frá unga aldri, syngjum, dönsum og tengjum minningar við ýmis lög. Við nærum sálina með fallegum tónum og við nærum líkamann með hreyfingu. Nýtum frídaga um hátíðarnar til samveru, hreyfingar og útiveru. Okkur verður kannski ekki að ósk okkar um hvít jól eins og er yrkisefni margra textahöfunda en hvort sem það verða hvít eða rauð jól þá er fátt eins nærandi eins og að fara út og hreyfa sig í náttúrunni.

Það er vel við hæfi að hlusta á sigurlag jólalagakeppni Rásar tvö í ár, taka nokkur dansspor og Anda Inn.

https://www.youtube.com/watch?v=02YrR2Mts6k

Það eru ekki allir sem halda jólin hátíðleg en vonandi geta allir notið fallegu ljósanna sem einkenna þennan árstíma, ljúfu jólatónanna og helgidaganna.

Um leið og jólasveinarnir fóru að koma til byggða hefur jólaandinn svifið áberandi um vinnustaðinn með tilheyrandi föndri og spenningi. Myndin með þessum pistli tilheyrir einmitt þessari gleði og prýðir jólatréð á deild sjúkraþjálfara sem fóru með sigur af hólmi í skreytingakeppninni. Ásta Kristín sjúkraþjálfari teiknaði þennan ólundar Trölla sem stal jólunum. Látið engan stela jólaandanum frá ykkur.

Njótið hvers dags. Gleðilega hátíð!

Steinunn H. Hannesdóttir,

heilsuþjálfari

Til baka