03.12.2021

Föstudagsmolar forstjóra 3. desember 2021 - gestahöfundur er Guðbjörg Gunnarsdóttir mannauðsstjóri

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins sem eru góðar hugleiðingar fyrir okkur öll um samskipti. Gestahöfundur í dag er Guðbjörg Gunnarsdóttir, mannauðsstjóri.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur

Pétur

 

Föstudagsmolar 3. desember 2021 - Að hafa hlýtt hjarta í hörðum heimi er hugrekki, ekki veikleiki.

Þetta gæti verið upphaf á meðal væminni skáldsögu en svo er ekki raunin. Ég held að flest okkar getum verið sammála um að heimurinn er oft býsna harður. Fyrir okkur eru lagðar margvíslegar þrautir og óháð aldri, kyni, stétt eða stöðu, reynist okkur misauðvelt að leysa þær. Þrautirnar geta verið allt frá litlum þúfum yfir í stór fjöll að klífa.

Erfiðleikar og úrlausnir hinna ýmsu þrauta geta kallað fram margvíslegar tilfinningar og má þar t.d. nefna uppgjöf, angist, reiði, sorg og gleði. Skalinn er breiður og einhverjir kunna að spyrja sig hvort það sé rétt að það að glíma við þraut geti kallað fram gleði. Í því samhengi eins og í öllu öðru sem við tökum okkur fyrir hendur er það að miklu leiti undir okkur sjálfum komið, að velja okkur viðhorf.

Með þessu er ég ekki að segja að með gleðina eina að vopni takist að leysa öll heimsins mál. Við verðum að fá rými til að vinna með tilfinningar okkar og megum ekki gleyma að það er eðlilegt að vera reiður, sorgmæddur, uppgefinn, æðrulaus og glaður.

Við mannskepnan erum tilfinningaverur. Eitt af því sem getur valdið róti á tilfinningum okkar eru samskipti við annað fólk. Hvernig komum við fram hvert við annað, hvað leyfum við okkur að segja upphátt án þess að vera búin að hugsa út í afleyðingar orðanna o.s.frv.

Samskiptasáttmálinn okkar hér á Reykjalundi, plaggið með „boðorðin 9“ inniheldur í raun ekkert sem við ekki vissum fyrir. Engu að síður er svo ansi gott að við séum minnt á það annað slagið, að við þurfum öll að vanda okkur, alltaf.

Sjöunda boðorð samskiptasáttmálans er „HREINSKILNI – látum í okkur heyra ef öryggi eða vellíðan samstarfsfólks er í hættu“.

En á ég að láta í mér heyra ? Hvað segja hinir ef ég er ósammála eða mín sýn og skoðun er að einhverju leiti öðruvísi en allra hinna.

Að fylgja eigin sannfæringu, sigla stundum á móti straumnum í stað þess að láta sig berast með honum, getur sannarlega krafist hugrekkis. Hver kannast ekki við að skjálfa á beinunum vegna óöryggis með það hvort segja á hug sinn upphátt ef hann gengur þvert á skoðun einhvers annars. Hvaða viðmót fæ ég, hvernig verður talað um mig, verð ég áfram hluti af hópnum o.s.frv. Ekki er ólíklegt að margar slíkar spurningar sprikli um í höfði okkar og hafi áhrif á hvort við finnum hugrekkið og fylgjum því.

Ekkert okkar er æðra öðrum. Öll höfum við sama rétt á að tjá skoðanir okkar og að hlustað sé á okkur. En hvert og eitt okkar þarf líka að axla ábyrgð á orðum og gjörðum, það gerir það enginn fyrir okkur.

Nú á næstu dögum verður samskiptasáttmálinn hengdur upp á víð og dreif um stofnunina. Hann hefur verið settur upp á smekklegan hátt í stærðinni A3 og rammaður inn. Hann vonandi auðveldar okkur öllum að vanda samskipti og muna að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Á þeim notalega tíma sem nú fer í hönd, sjálf aðventan, er tækifæri til að staldra við, horfa inn á við og hugsa, hvernig get ég orðið besta útgáfan af sjálfum mér. Látum ekki vansæld okkar brjótast út í árás á næsta mann, brosum frekar og sýnum samkennd.  Að kveikja á kertum, tendra jólaljós og njóta samvista með sínum nánustu eru forréttindi.

Ég vona að aðventan umvefji okkur öll með kyrrð og notalegheitum.

Kær kveðja,

Guðbjörg Gunnarsdóttir

mannauðsstjóri

Til baka