15.11.2021

Föstudagsmolar forstjóra 12. nóvember 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Rauðir dagar fram að aðventu…

Eins og kynnt var fyrir rúmri viku, starfar Reykjalundur nú á Rauðu viðbúnaðarstigi. Þetta voru þung skref að taka þar sem við þurftum sannarlega á því að halda að fara geta séð hvort annað í eigin persónu og komið daglegu starfi í sem eðlilegast horf - en ástæðuna vita allir. Sjálfsagt er að hrósa ykkur fyrir frábært starf í sóttvörnum því þegar á þær hefur reynt, eins og til dæmis í síðustu viku þegar upp kom smit í okkar hópi, virkuðu ferli vel og enginn virðist hafa smitast í okkar umhverfi út frá viðkomandi einstaklingi. Svona árangur er ekki sjálfgefinn heldur næst þegar fólk fylgir ferlum og fyrirmælum.

Hafið kærar þakkir fyrir!

Háar smittölur í samfélaginu síðustu daga valda því að við verðum að halda áfram að gæta ítrustu varkárni. Hins vegar, þar sem ferlar okkar virka vel, munum við nota fyrsta tækifæri til að fara í afléttingar á appelsínugult viðvörunarstig. Það er því miður ljóst, að þar sem hertar aðgerðir í samfélaginu sem hafa verið boðaðar, seinkar afléttingum hér á Reykjalundi eitthvað og rautt viðbúnaðarstig mun vera í gildi til 19. nóvember hið minnsta og líklega eitthvað lengur en það. Tíminn verður að leiða í ljós hvenær við getum farið í afléttingar.

Við þurfum því enn og aftur að standa saman í að halda áfram að sýna COVID-óværunni skilning og þolinmæði.

Fundað með trúnaðarmönnum

Það er mikilvægt fyrir öll fyrirtæki og stofnanir að vera með skilvirkt trúnaðarmannakerfi. Ekki bara út frá sjónarhorni starfsfólks heldur er það ekki síður mikilvægt fyrir stjórnendahóp viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. Í fyrra komum við á þeim sið að forstjóri og mannauðsstjóri myndu funda einu sinni til tvisar á ári með trúnaðarmönnum þeirra stéttarfélaga sem tengjast Reykjalundi. Markmiðið er að fara yfir það sem er efst á baugi í starfseminni og heyra hljóðið í fólki. Tveir fundir voru haldnir á síðasta ári. Á dögunum fór fram slíkur fundur og tókst hann mjög vel þó ekki allir trúnaðarmenn okkar hafi náð að taka þátt. Myndin með molum dagsins var einmitt tekin á fundinum og sýnir glæstan hóp trúnaðarmanna ásamt Guðbjörgu mannauðsstjóra.

Aðalfundur Landssambands heilbrigðisstofana

Í gær fór fram aðalfundur Landsambands heilbrigðisstofnana. Landssambandið var stofnað 25. júní 2010 úr Landssamtökum heilsugæslu og heilbrigðisstofnana og Landssambandi sjúkrahúsa. Innan sambandsins eru heilbrigðisstofnanir sem falla undir lög um heilbrigðisþjónustu. Hlutverkið er meðal annars að efla samstarf heilbrigðisstofnana, standa vörð um hagsmuni þeirra og hlutverk, ásamt því að vera í forsvari fyrir stofnanir eftir því sem við á og lög heimila. Framkvæmdastjórnir heilbrigðisstofnana taka þátt í starfi LH en til funda landsbandsins er oft boðið fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, Embættis landlæknis og Sjúkratrygginga Íslands, eftir viðfangsefnum hverju sinn. Á fundinum í gær, sem var rafrænn, voru um 70 þátttakendur. Fjallað var ýmsar áskoranir í rekstrarumhverfi heilbrigðisstofnana og rætt um mikilvægi upplýsingakerfa í heilbrigðisþjónustunni frá ýmsum sjónarhornum.

Varðandi okkur Reykjalundarfólk bar það helst til tíðinda að Guðbjörg mannauðsstjóri var kjörinn í varastjórn og Helgi, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, var endurkjörinn sem skoðunarmaður reikninga sambandsins – og er sjálfsagt að óska þeim báðum til hamingju með það kjör.

Að lokum vil ég minna á árlegan Vísindadag Reykjalundar eftir slétta viku, eða föstudaginn 19. nóvember en þetta er í 18. skiptið sem hann fer fram. Rétt eins og í fyrra fer hann fram rafrænt af sóttvarnarástæðum. Þrátt fyrir það vonast ég til að sem flest ykkar getið fylgst með deginum enda mjög mikilvægt fyrir starfsemi eins og okkar að hjá okkur fari fram öflugt vísindastarf.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka