29.10.2021

Föstudagsmolar forstjóra 29. október 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Fyrst af öllu langar mig að þakka starfsmannafélaginu okkar enn og aftur fyrir mjög skemmtilega heimsókn í gær en þá fór stjórn starfsmannafélagsins um húsið og færði okkur starfsfólki óvæntan skammdegis-glaðning. Sannarlega ánægjulegt framtak sem léttir andann hjá okkur öllum – vel gert!

Jafnframt langar mig að óska iðjuþjálfum okkar og okkur öllum, til  hamingju með alþjóðlegan dag iðjuþjálfunar sem haldinn er hátíðlegur 27. október ár hvert. Iðjuþjálfar sinna störfum sínum á fjölbreyttum vettvangi samfélagsins og eru við hér á Reykjalundi sannarlega heppin með þann glæsta hóp sem tilheyrir okkur.

Gult gengur vel en…
Í dag klárast fyrsta vikan hjá okkur á gulu viðbúnaðarstigi. Hingað til hefur allt gengið vel og fjölmargir lýst ánægju með þetta skref. Það verður þó að segjast að fjöldi smita í umhverfinu í dag og undanfarna daga gefur ekki tilefni til bjartsýni. Í sumar vorum við á „rauðu“ viðbúnaðarstigi með svipaðar smittölur í samfélaginu en við ætlum þó að halda okkar striki áfram þó við fylgjumst náið með gangi mála. Stóri munurinn á rauðu og gulu sóttvarnarstigi er fólginn í því að hólfaskipting hjá okkur starfsfólki er lögð af og við fáum aftur frelsi til að ferðast um og hittast. Með því að halda okkar striki erum við í raun að segja að við treystum okkur til að virða grímuskyldu og sinna okkar persónubundnu sóttvörum á þann hátt að það lágmarki hættu á að smit breiðist út,  þó svo að það berist inn í húsið. Þetta krefst auðvitað aga og þolinmæði og við þurfum öll að standa saman við að hvetja hvert annað til dáða og slaka ekki á í sóttvörnum. Við þurfum einnig að vera dugleg að minna sjúklingana okkar á að fylgja reglunum.
Ef við tryggjum að núverandi viðmiðum sé fylgt þá minnka líkurnar á að við þurfum að taka einhver skref til baka þó svo ekki sé hægt að útiloka það með aukinni útbreiðslu, ekki síst ef sóttvarnarreglur í samfélaginu verða hertar.
Við vonum nú svo sannarlega að slíkt verði ekki og erum auðvitað bara bjartsýn á að allt gangi vel!

Fræðslan í gang – persónuverndin vel sótt!
Það að vera komin á gult sóttvarnarstig gefur ekki bara starfsmannafélaginu möguleika á að færa okkur starfsfólkinu óvæntan glaðning heldur opnast möguleikar fyrir mjög margt annað sem nærir líkama og sál og léttir andann eftir að hafa legið niðri vegna samkomutakmarkanna. Við í framkvæmdastjórn drifum strax í að halda almennan fræðslufund. Það er sjálfsagt að þakka fyrir góða mætingu á fyrsta fræðslufyrirlestur vetrarins hjá okkur sem var í hádeginu í fyrradag um persónuverndarmál. Húsfyllir var í samkomusalnum og fjörugar umræður sköpuðust um þessi mál sem tengjast sannarlega starfi okkar allra. Gunnhildur persónuverndarfulltrúi Reykjalundar mun senda okkur upplýsingapóst á næstunni til að fylgja fyrirlestrinum eftir.
Fundurinn var haldinn af framkvæmdastjórn sem liður í því að koma sem fyrst í gang eins eðlilegu lífi hér á Reykjalundi og mögulegt er. Fróðleysunefndin tekur nú við keflinu með reglulega fræðslufundi í vetur.

Árshátíð Reykjalundar 5. mars 2022 – Taktu daginn frá!
Síðast en ekki síst er mér mikil ánægja að tilkynna að framkvæmdastjórn hefur samþykkt tillögu árshátíðarnefndar um að árshátíð Reykjalundar 2022 verði haldin á Hótel Selfossi laugardaginn 5. mars!
Dagsetningin er auðvitað birt með covid-fyrirvörum en dagskrá, miðaverð og tilboð í gistingu verða kynnt nánar í nóvember.
Þá er bara að taka daginn frá og fara að huga að undirbúningi – þetta verður bara snilld. Almannavarnir hafa þegar verið varaðar við að þegar Reykjalundarliðið sé komið í gírinn á dansgólfinu muni það líklega koma fram á jarðskjálftamælum.
Mig langar að þakka árshátíðarnefndinni fyrir sína vinnu og það er vel við hæfi að myndin með molunum í dag sé af okkar vösku árshátíðarnefnd. Reyndar eru bara sjötíu og fimmprósent nefndarinnar á myndinni, þau Ásta, Hera og Garðar, en Karen var því miður ekki viðlátin.
Það væri gaman að sjá sem allra flest ykkar á árshátíðinni – ef við höfum einhvern tímann átt skilið að fara á árshátíð þá er það núna!

Gleðilega hrekkjavöku og góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka