06.10.2021

Þverfagleg samvinna

Endurhæfingarblað Fréttablaðsins kom út í byrjun september og þar var ein síða ásamt forsíðu tileinkaðar Reykjalundi. Tekin voru stutt viðtöl við Berglindi Gunnarsdóttur gæðastjóra á meðferðarsviði 1, Eyþór Hrein Björnsson lækni á lungnasviði og þær Hrefnu Óskarsdóttur iðjuþjálfa og Þórlaugu Sveinsdóttur sjúkraþjálfara úr verkjateymi Reykjalundar. Berglind Gunnarsdóttir sagði frá hlutverki Reykjalundar og mikilvægi þverfaglegrar samvinnu. Viðtalið í heild má lesa hér:

Þverfagleg samvinna

Á Reykjalundi starfa 8 meðferðarteymi með mismunandi áherslur og sérhæfingu. Þau eru:

 Hjartateymi

 Lungnateymi

 Taugateymi

 Geðheilsuteymi

 Offitu- og efnaskiptateymi

 Gigtarteymi

 Verkjateymi

 Starfsendurhæfingarteymi

Á Reykjalundi er einnig starfrækt legudeild, Miðgarður, sem sinnir þeim skjólstæðingum sem þurfa sólarhringsþjónustu. Hlein er heimili sem er starfrækt samhliða starfsemi Reykjalundar en þar búa einstaklingar með fötlun af völdum sjúkdóma eða slysa. Auk þessa eru starfræktar ýmsar einingar innan Reykjalundar eins og Hjarta- og lungnarannsókn, innskriftarmiðstöð og fleira.

Berglind Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur sinnir stöðu gæðastjóra á Meðferðarsviði 1.

„Reykjalundur leggur áherslu á heildræna, þverfaglega nálgun þar sem ólíkar fagstéttir leiða saman hesta sína, skjólstæðingnum til hagsbóta. Skjólstæðingurinn er ávallt í miðju teymisvinnunnar og áhersla á ábyrgð hans, valdeflingu og stjórn á eigin heilsu eins og hægt er,“ segir Berglind.

„Lykilatriði í slíkri teymisvinnu er að traust ríki milli skjólstæðings og meðferðaraðila til að árangurinn sé sem bestur til framtíðar. Upplag meðferðar byggir á faglegu mati meðferðaraðila sem er grundvöllurinn til að hægt sé að byggja upp árangursríka meðferð.“

Berglind segir hlutverk Reykjalundar vera að sinna sjúklingum með langvinnan fjölþættan vanda sem krefst þverfaglegrar nálgunar sem stök úrræði í nærumhverfi nái ekki utan um. Það fléttast oft saman líkamlegur og sálfélagslegur vandi.

„Í eðli sínu er um langtímaverkefni að ræða og ein áskorun Reykjalundar er að skoða hvernig best sé að koma til móts við það. Það skiptir miklu máli að fólk komi sem best undirbúið á Reykjalund. Undirbúningur getur ýmist farið fram á vegum Reykjalundar á göngudeild eða í stökum úrræðum, námskeiðum og fleira en einnig er gríðarlega mikilvægt að Reykjalundur sé hlekkur í stærri keðju, samskipti við meðferðarúrræði í nærumhverfi þurfa að vera þétt,“ segir hún.

Endurhæfingartímabilið á Reykjalundi spannar oftast 4-6 vikur en Berglind segir mikilvægt að meðferðaraðilar og skjólstæðingar líti svo á að endurhæfing hefjist við fyrsta samtal. Þá á hún við forskoðanir, kynningarfundi, endurhæfingarmat og fleira.

„Markmiðið er oft að efla áhugahvöt og hvetja til lífsstílsbreytinga og breytinga í heilsutengdri hegðun. Úrræðin miða að því að efla sjálfshjálp og sjálfsumönnun. Oft eru þetta flókin mál og mikilvægi eftirfylgdar er sífellt að verða ljósara. Mikilvægt er að tengja skjólstæðinga aftur í úrræði í nærumhverfi auk þess sem eftirfylgd í formi göngudeildar á Reykjalundi kemur til greina,“ segir hún.

Berglind segir Reykjalund hafa þróast og breyst í gegnum tíðina og svo verði áfram. Það sé mikilvægt að þróast í takt við þjóðfélagslega þörf og að þarfir skjólstæðinganna séu í forgrunni.

„Það er mikilvægt að kortleggja mismunandi þarfir skjólstæðinga sem þurfa á þverfaglegri endurhæfingu að halda og meta með hvaða hætti þeim þörfum verði best mætt í oft mjög flóknum heilsufarsvanda.“

Til baka