30.09.2021

Endurhæfing vegna Covid-19

Endurhæfingarblað Fréttablaðsins kom út í byrjun september og þar var ein síða ásamt forsíðu tileinkaðar Reykjalundi. Tekin voru stutt viðtöl við Berglindi Gunnarsdóttur gæðastjóra á meðferðarsviði 1, Eyþór Hrein Björnsson lækni á lungnasviði og þær Hrefnu Óskarsdóttur iðjuþjálfa og Þórlaugu Sveinsdóttur sjúkraþjálfara úr verkjateymi Reykjalundar. Eyþór Hreinn talaði um endurhæfingu þeirra sem veikst hafa af Covid-19 og viðtalið í heild má lesa hér:

Eyþór Hreinn Björnsson starfar sem læknir á lungnasviði Reykjalundar. Þar hefur hann tekið þátt í endurhæfingu þeirra sem veikst hafa af Covid-19.

„Aðkoma Reykjalundar í fyrstu bylgju af Covid var að taka við sjúklingum af Landspítala, sem voru á legudeildum sem fóru undir Covid meðferð. Við tókum við þeim til að létta á spítalanum svo hægt væri að leggja þar inn Covid sjúklinga,“ segir Eyþór.

„Næst á eftir komu sjúklingar á legudeildina okkar sem höfðu fengið Covid en voru ekki tilbúnir til heimferðar. Svo barst hingað smit með sjúklingum frá Landakoti; þá þurfti að loka húsinu og dauðhreinsa. Það var talsvert átak.“

Eyþór segir að eftir það hafi verið farið í að hólfa staðinn mikið niður svo sem fæstir þyrftu að fara í sóttkví ef smit kæmi upp aftur.

„Þegar ljóst varð í bylgju tvö að við gátum ekki haldið áfram hefðbundinni starfsemi út af smithættu, því við vorum að vinna með viðkvæman hóp, þá var upplagt að skipuleggja endurhæfingu fyrir þann hóp sem hafði þegar fengið Covid en náði ekki að jafna sig,“ segir hann.

„Í fyrstu var lagt upp með að sjúklingum yrði vísað á lungnasvið þar sem virtist að mestu leyti um lungnasjúkdóm að ræða. Svo kom í ljós að lungnaeinkenni voru ekki ríkjandi hjá stórum hluta þeirra sem vísað var til okkar, heldur einkenni eins og mikil og erfið þreyta, taugaeinkenni, heilaþoka, verkir, kvíði, andleg einkenni.“

Eyþór segir að fólkið hafi verið flokkað í hópa út frá einkennum og dreift á mismunandi svið út frá þeim.

„Við komumst að því að hefðbundin lungnaendurhæfing hentaði ekki stórum hluta þessa fólks því hún er erfið líkamlega. Hjá þeim sem glímdu við mikla líkamlega þreytu hentaði endurhæfing á gigtar- og verkjasviði betur.“

Talsverður hópur kom inn á Reykjalund í endurhæfingu vegna eftirkasta eftir Covid. Til að meta árangur endurhæfingarinnar var hluti hans tekinn í vísindarannsókn til að sjá hvaða gagn hinir ýmsu þættir endurhæfingarinnar hafa gert.

„Það er ekki búið að taka sama niðurstöðurnar ennþá. Þau einkenni sem eru að miklu leyti huglæg, eins og þreyta, er flókið að mæla, og erfiðara að meta árangur“ segir Eyþór.

„Það háir okkur líka að við erum hólfuð niður og hvert okkar sér bara hluta hópsins. En tilfinning okkar er sú að fólk sé ánægt. Því líður vel með að hafa farið í endurhæfinguna og er ánægt með árangurinn.“

 

 

Til baka