27.09.2021

Verkjaskólinn

Endurhæfingarblað Fréttablaðsins kom út í byrjun september og þar var ein síða ásamt forsíðu tileinkaðar Reykjalundi. Tekin voru stutt viðtöl við Berglindi Gunnarsdóttur gæðastjóra á meðferðarsviði 1, Eyþór Hrein Björnsson lækni á lungnasviði og þær Hrefnu Óskarsdóttur iðjuþjálfa og Þórlaugu Sveinsdóttur sjúkraþjálfara úr verkjateymi Reykjalundar. Hrefna og Þórlaug sögðu frá Verkjaskóla Reykjalundar og viðtalið í heild má lesa hér:

Verkjaskólinn hefur verið starfræktur á Reykjalundi frá 1974 og hefur verið í stöðugri þróun samhliða nýrri þekkingu og reynslu. Hann stendur yfir í 2 vikur og eru um 10 einstaklingar í honum hverju sinni. Mestmegnis eru það skjólstæðingar af verkja- og gigtarsviði en einnig geta einstaklingar af öðrum sviðum nýtt sér hann. Það eru iðju- og sjúkraþjálfarar sem sjá um verkjaskólann.

„Markmið skólans er að fræða einstaklinga svo þeir verði meðvitaðri um líkama sinn, áhrif heilsutengdrar hegðunar, umhverfisþátta og líkamsbeitingar á líðan og lífsgæði,“ segir Hrefna Óskarsdóttir iðjuþjálfi.

„Þátttakendur fá fræðslu í formi fyrirlestra og taka þátt í verklegum tímum. Einnig eru tímar þar sem áhersla er á að bæta líkamsvitund og líkamsbeitingu. Það er svo yfirfært yfir á verklegu tímana, þar sem eru settar upp stöðvar sem líkja eftir ýmsum verkefnum í athöfnum daglegs lífs.“

Hrefna segir fólk með langtímaverki oft komið með lélega líkamsvitund og þurfi að ná aftur tengslum við eigin líkama.

„Sé líkamsvitund góð, þá erum við meðvituð um líðan okkar og þá þætti sem hafa áhrif á hana. Við tökum eftir því hvernig við hreyfum okkur þegar við beinum athyglinni að því, finnum hvernig okkur líður og hvort við séum meðvituð um hvort vöðvar séu spenntir eða slakir. Góð líkamsstaða byggir líka á ákveðnum umhverfisþáttum, eins og hvort við sitjum vel, séum að vinna í æskilegri vinnuhæð og hvort hægt sé að aðlaga umhverfið þannig að okkur líði betur,“ segir hún.

Þórlaug Sveinsdóttir sjúkraþjálfari segir annars konar meðferð vera við langvinnun verkjum en bráðaverkjum.

„Á Reykjalundi er unnið með þverfaglega nálgun þar sem unnið er með líkamlega, andlega og félagslega þætti í lífi einstaklingsins. Það tekur langan tíma að hafa áhrif á lífeðlisleg ferli tengd streitu, verkjum, þreytu og svefntruflunum, það getur verið allt að 6 mánuðum til 2 ára. Því er nauðsynlegt að fólk fái fræðslu og þjálfun svo það geti breytt hjá sér hugarfari, hegðun og öðrum þáttum sem hafa áhrif á langvinna verki,“ segir hún.

„Fólk er almennt mjög ánægt með verkjaskólann og árangur hans er óumdeilanlegur. Við sjáum oft fljótlega jákvæðar breytingar á hreyfimynstri fólk er óhræddara við að beita sér og taka þátt í því sem skiptir það máli, hlutum sem það hafði jafnvel forðast í lengstu lög að gera áður vegna verkja. Fólki finnst þolanlegra að lifa með verkjum og því finnst það hafa meira vald yfir þeim þáttum sem hafa áhrif á verkina.“

 

Fyrirlestrarnir fjalla um flest sem við kemur langvinnum verkjum:

■Byggingu og starfsemi stoðkerfis og samspil þess við blóðrás og taugakerfi

■Orsakir langvinna verkja og tengsl þeirra við starfræna getu

■Áhrif heilsutengdrar hegðunar á langvinna verki

■Mikilvægi góðrar líkamsstöðu og líkamsbeitingar

■Vinnustöður og hreyfimunstur

■Undirstöðuatriði þjálfunarfræða

 

Í verklegum tímum er unnið með:

■ Vinnustellingar

■ Lyftitækni

■ Líkamsvitund

Á heimasíðu Reykjalundar, undir verkjasvið, má finna ítarefni um verki og verkjameðferð.

Til baka