17.09.2021

Föstudagsmolar forstjóra 17. september 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Skiljanlega eru margir orðnir þreyttir á Covid og þeirri hólfaskiptingu sem við störfum í, með þeim höftum á daglegt starfi og félagslífi sem raun ber vitni. Það reynir sannarlega á okkur öll. Við þurfum að vera extra-dugleg, að standa saman og minna okkur reglulega á á hvers vegna við erum að þessu. Reykjalundur þarf að vera með strangari sóttvarnarreglur en almennt gerist í samfélaginu, í þágu þess hóps sem við þjónustum.
Sem betur fer er mjög ánægjulegt til þess að vita að ekki hefur ennþá (7, 9, 13…) borist smit inn á Reykjalund eftir að við tókum upp hólfaskiptinguna í ágúst og ekkert hólf hefur þurft að fara í sóttkví. Þessu ber að fagna enda mjög flottur árangur. Á þessum tíma hafa þó starfsmenn smitast en annað hvort aðstæður verið okkur í hag eða reglur okkar sannað gildi sitt. Nýlega kom upp tilvik hjá einum starfsmanni sem tengdur var smiti. Viðkomandi var ekki settur í sóttkví af rakningateymi almannavarna en reglur Reykjalundar gerðu það að verkum að hann mátti ekki mæta í hús. Nokkrum dögum síðar greindist viðkomandi jákvæður fyrir Covid og hefði því tekið með sér í sóttkví amk allt hólfið sitt og hóp sjúklinga ef okkar reglna nyti ekki við – og jafnvel hefðu einhverjir geta smitast.

Í þessum pistli fyrir tveimur vikum auglýsti ég eftir hugmyndum frá ykkur hvernig við gætum gert eitthvað skemmtilegt í vinnunni þrátt fyrir þá ströngu hólfskiptingu sem hjá okkur er, vegna sóttvarna. Guðbjörg mannauðsstjóri hefur svo fylgt málinu eftir. Mig langar að þakka fyrir viðbrögð en ýmsar skemmtilegar hugmyndir bárust okkur og nánast allar tengjast þær mat með einhverjum hætti. Hólfaskiptingin setur auðvitað miklar skorður en niðurstaðan er, að eins og kynnt hefur verið mun Reykjalundur bjóða starfsfólki upp á spennandi matarbakka í hádeginu næsta miðvikudag, 22. september. Framkvæmdin verður með svipuðum hætti og þegar við sendum ykkur jólamatinn fyrir síðustu jól. Allir starfsmenn fá sérstaka bakka/kassa senda inn í hólfin sín þar sem er að finna spennandi góðgæti og vonandi næst svo að skapa skemmtilega stemningu í hverju hólfi fyrir sig. Gaman væri að fá senda myndir frá ykkur. Við hvetjum ykkur til dáða í því og segjum bara verði ykkur að góðu.

Starfsdegi faghópa frestað í bili
Hefð er fyrir því að faghópar okkar taki sér starfsdag fyrsta föstudag í október. Það er góður siður sem þjappar hópnum saman, lyftir andanum og ekki síst ætti að geta haft jákvæð áhrif á faglega vinnu. Ef einhvern tímann hefur verið mikilvægt að hafa slíkan dag er það núna á Covid-tímum.
En - einmitt vegna Covid - hefur verið ákveðið að fresta þessum degi. Ýmsir faghópar okkar starfa í mismunandi hólfum og því gengur ekki að þeir hópar séu með starfsdag á meðan að hólfaskipting er í gildi. Við erum þó að skoða málin og vonandi fáum við farsæla lausn þannig að hægt sé að halda starfsdaga faghópa.

Fundur forstöðumanna heilbrigðistofnanna
Í vikunni tók ég þátt í árlegum fundi forstöðumanna heilbrigðisstofnanna. Þar sem í hópnum eru aðeins um 10 manns var ákveðið að hafa fundinn í raunheimum sem var ánægjulegt þó smitvarnir væru auðvitað í heiðri hafðar. Það er mjög gott fyrir okkur stjórnendur, rétt eins og aðra starfsmenn, að tengjast öðrum sem starfa í heilbrigðiskerfinu. Ekki síst til að kynnast þeirra störfum, viðfangsefnum og áskorunum. Það eykur skilning og traust milli aðila en jafnframt er hægt að skiptast á þekkingu og reynslu sem er ekki síður mikilvægt. Á myndinni sem fylgir molunum i dag er Díana Óskardóttir, forstjóri heilbrigðisstofnunar Suðurlands, að halda erindi um sitt starf.

Góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka