10.09.2021

Föstudagsmolar forstjóra 10. september 2021 - gestahöfundur er Rósa María Guðmundsdóttir

Föstudagsmolar forstjóra 10. september 2021 - gestahöfundur er Rósa María Guðmundsdóttir

 

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er Rósa María Guðmundsdóttir, hjúkrunarstjóri og formaður geðheilsuteymis.

Góða helgi!

Bestu kveðjur

Pétur

 

Föstudagsmolar 10. september 2021.

Nú er haustið að ganga í garð og veturinn á næsta leiti. Haustið er uppáhaldstími margra, tími fallegra lita, rökkurs og kertaljósa en öðrum er þessi tími erfiður. Margir kvíða myrkrinu og kuldanum og líklegt er að næsti vetur geti orðið sumum erfiðaðri en oft áður vegna ástandsins. Við fórum inn í vorið og sumarið full bjartsýni en síðan kom í ljós að baráttunni við Covid var ekki lokið. Nú mun því reyna á seiglu og úthald fólks og þar er mikilvægast að halda í vonina.

Vonin er fyrirbæri sem hver og einn upplifir á sinn sérstaka hátt. Í henni felst kraftur eða máttur og áhersla er lögð á mikilvægi hennar fyrir virkni eða bata. Rannsóknir hafa sýnt að vonin styrkist við samskipti við aðra og er uppspretta hamingju, jafnvel á erfiðum stundum.  Að setja sér náanleg markmið, lifa í núinu og hafa aðgang að aðstoð þegar á þarf að halda er einnig talinn veigamikill þáttur.

Því miður hættir okkur til að taka frekar eftir því sem miður fer en því sem vel gengur. Því getur t.d. verið gott að skrifa niður á blað áður en farið er að sofa eitthvað þrennt sem vel hefur gengið ekki síst ef dagurinn hefur verið erfiður. Einnig getur verið hjálplegt að brjóta upp hversdagsleikann með einhverju nýju og höfum í huga að það eru oft litlu hlutirnir sem skipta máli þegar upp er staðið. Munum að hlúa að okkur sjálfum og hvert öðru, látum aðra finna að þeir skipta máli og styðjum hvert annað í gengum þessa ,,fordæmalausu” tíma.

Það er margt sem gerir Reykjalund að einstökum stað og má þar nefna sögu staðarins, teymisvinnuna og langan starfsaldur starfsfólks. Pistilhöfundur er ein þeirra sem hafa unnið lengi á Reykjalundi og hefur verið svo lánsöm að taka þátt í spennandi og merkilegri þróun í endurhæfingarmálum á Íslandi. Það voru einnig forréttindi á fyrstu árunum að kynnast einstaklingum sem ýmist voru starfsmenn eða sjúklingar og höfðu kynnst berklaveikinni af eigin raun. Sögur þeirra af veikindum sínum, meðferðinni og uppbyggingu endurhæfingar á Reykjalundi lét engan ósnortinn. Þessar frásagnir kölluðu fram djúpa samkennd og aðdáun á þessum hetjum sem gáfust ekki upp þrátt fyrir lífsógnandi veikindi. Þessir einstaklingar og þjóðin öll lögðu grunninn að starfsemi Reykjalundar og andi þessa tíma hefur fylgt staðnum fram á þennan dag.

Þegar berklaveikinni var útrýmt hér á landi fóru aðrir sjúklingahópar að koma á Reykjalund og smám saman þróaðist hér fjölbreytt þekking og sérhæfing. Þverfagleg teymi voru mynduð og teymisvinna þróaðist, en rannsóknir hafa sýnt að góð og fagleg teymisvinna skilar sér í betri árangri og eykur starfsánægju og samkennd. Það er ekki sjálfgefið að teymisvinna gangi alltaf vel, en mikilvægt er að hafa í huga að heilbrigð teymi grundvallast á fjórum megin þáttum en þeir eru traust, gagnkvæm virðing, gagnkvæmur stuðningur og opin og heiðarleg samskipti. Teymi þurfa að hafa sameiginlega sýn og markmið og mikilvægt er að skapa umhverfi sem stuðlar að vexti og þroska starfsmanna. Við þurfum því stöðugt að rækta innra starf teymanna og vera gagnrýnin á starfsemina á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Það er ósk mín að við á Reykjalundi förum í gegnum þessa tíma sem framundan eru sem stórt og öflugt teymi með von og bjartsýni að leiðarljósi.

Rósa María Guðmundsdóttir


Til baka