03.09.2021

Föstudagsmolar forstjóra 3. september 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Endurhæfing í Fréttablaðinu
Með Fréttablaðinu í dag fylgir aukablað um endurhæfingu. Okkur á Reykjalundi var boðið að vera með og prýðir glæsileg mynd úr starfinu okkar forsíðu þessa fylgiblaðs. Að auki eru viðtöl við Hrefnu iðjuþjálfa og Þórlaugu sjúkraþjálfara um Verkjaskólann okkar, við Berglindi gæðastjóra um mikilvægi þverfaglegar vinnu við endurhæfingu og við Eyþór lungnalækni um endurhæfingu sjúklinga með langvinn einkenni Covid.  Í blaðinu er einnig að finna umfjöllun um ýmsa aðila í samfélaginu sem tengjast endurhæfingu, sem er sannarlega forvitnilegt. Meðal annars er viðtal við Hlín sjúkraþjálfara og gæðastjóra í umfjöllun frá félagi sjúkraþjálfara.
Ég hvet ykkur til að kíkja á þetta ef þið hafið tök á. Viðtölin við okkar fólk munu birtast hér á facebook og innri síðu Reykjalundar á næstunni.

Hvernær förum við af „rauðu“?
Í ágúst höfum við haft starfið hér á Reykjalundi á „Rauðu“-viðbúnaðarstigi vegna mikils fjölda Covid-smita í samfélaginu og þar með, fer starfsemin fram í vel afmörkuðum sóttvarnarhólfum. Markmiðið, fyrir utan að sem fæstir smitist, er að sem allra fæstir fari í sóttkví þegar Covid-smitaður einstaklingur kemur inn á Reykjalund og þannig nái sem mest af starfseminni að haldast gangandi þó einhverjir fari í sóttkví.
Í tölvupósti síðasta mánudag minnti ég okkur öll á sóttvarnarreglurnar og að aðeins væri farið að bera á ábendingum um að einhverjir væru farnir að gleyma sér í sóttvörnunum. Ég vona að enginn hafi tekið það óstinnt upp enda slíkar áminningar ekki ætlaðar samviskusama fólkinu sem stendur sig með mikilli prýði, heldur þeim fáu sem eru farnir að gleyma sér.
Öðru hverju berast fyrirspurnir hvenær þess sé að vænta, að við förum af þessu „rauða“ viðbúnaðarstigi. Ekki er hægt að svara því með nákvæmri tímasetningu, en þetta ástand mun vara eitthvað áfram. Við förum ekki af rauða-stiginu fyrr en smit í samfélaginu eru orðin fá, nokkra daga í röð, þannig að tiltölulega litlar líkur séu á að smitaður einstaklingur komi inn á Reykjalund. Meðan að smittölur eru yfir 50 smit á dag og reglur um sóttkví eru jafn stífar og raun ber vitni, er ekki breytinga að vænta. Við munum kynna breytingar um leið og þær eru í sjónmáli.

Um þakkarkveðjur og gleði-hugmyndir!
Vegna þessa Covid-ástands hafa tækifærin ekki verið mörg fyrir okkur starfsfólk til að hittast og gleðjast saman. Viðburðir sem fyrirhugaðir voru eins og árshátíð og sumarhátíð, munu klárlega ekki fara fram á þessu ári en við vonumst þó eftir að geta gert eitthvað saman þegar sól fer aftur að rísa á lofti. Þetta ástand reynir mikið á okkur öll enda margsannað að samvera og félagslíf er einn af hornsteinum þess að fólki líði vel í vinnunni og nái að blómstra. Mig langar því að nota þetta tækifæri og óska eftir gleðihugmyndum frá ykkur – þ.e. hugmyndum að því hvernig við starfsfólk getum stuðlað að einhverju skemmtilegu og gleðilegu í vinnunni undir þessum aðstæðum. Margir muna sjálfsagt eftir dansmyndböndum frá ýmsum deildum heilbrigðisstofnanna í fyrstu bylgju faraldursins en það væri gaman að fá sem flestar hugmyndir frá ykkur svo við getum gert Reykjalundarlífið eins skemmtilegt og mögulegt er, þó það sé Covid og hólfaskipting.
Að lokum er gaman að geta þess að í vikunni barst Reykjalundi ánægjuleg kveðja. Þó flest okkar vilji takmarka tölvupósta sem sendir eru á alla hér á vinnustaðnum, held ég að mörg okkar hafi haft ánægju af tölvupósti sem Guðrún í móttökunni framsendi á alla starfsmenn í vikunni. Í póstinum var falleg og vinaleg kveðja frá einum sjúklingi okkar sem þakkaði kærlega fyrir sig, himinlifandi eftir að hafa fegið að njóta þjónustunnar. Svona kveðjur bæta sannarlega lífið og kannski minna okkur á allt það jákvæða sem við hér á Reykjalundi erum að gera fyrir samfélagið okkar. Það er nefnilega oft þannig að við festumst við að hugsa um það sem betur mætti fara og setjum athygli og orku í það, en gleymum kannski að langstærstur hluti starfs okkar og starfseminnar, gengur gríðarlega vel og er að auka lífsgæði fjölda einstaklinga og fjölskyldna þeirra.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka