02.07.2021

Föstudagsmolar forstjóra 2. júlí 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Eftir slétta viku hefst þriggja vikna sumarhlé hér á Reykjalundi þar sem við leggjum niður daglega starfsemi fram til 3. ágúst. Hlein er auðvitað undantekning og þangað sendi ég mínar bestu sumarkveðjur.

Molar dagsins eru í samræmi við að sumarið er farið að toga í. Flestir eru að keppast við að klára ýmis mál svo hægt sé að komast í frí. Þetta sumar er sannarlega langþráð eftir erfiðan vetur. Það ánægjulega er þó að síðan í maí hefur dagleg starfsemi óðum verið að færast í eðlilegt horf sem er sannarlega léttir fyrir okkur öll. Því verður ekki neitað að Covid hefur sett ansi stórt strik í starfsemina og ýmis mál hjá okkur undanfarin misseri. Vegna þessa hefur ýmislegt gerst og gengið hægar en ætlunin var.

Ég býð því spenntur eftir að við förum í gang aftur að sumarhléi loknu og getum hafist handa við halda áfram hlutverki okkar sem leiðandi aðili í endurhæfingarþjónustu hér á landi. Þar bíða okkar ýmis viðfangsefni sem kynnt verða síðar.

Ég vil líka nota þetta tækifæri og minna okkur öll á mikilvægi þess að koma starfseminni í full afköst eins fljótt og hægt er eftir sumarlokun. Hver dagur skiptir þar máli en alger forsenda í okkar starfsemi er að standa við samning við Sjúkratryggingar Íslands um fjölda sjúklinga sem njóta þjónustu okkar og fjölda meðferðardaga.

 

Muna „Out-of-office“ fyrir fríið

Og talandi um sumarhlé. Af því tilefni vil ég góðfúslega minna ykkur á þá kurteisu reglu að setja Automatic Replies (Out-of-office) á tölvupóstinn sinn þar sem fram kemur hvenær þið komið aftur og við hvern eigi að hafa samband ef erindið getur ekki beðið þar til komið er til baka úr fríinu. Þetta getur létt samstarfsfólki og ýmsum aðilum utan Reykjalundar störf sín. Einnig er gott að láta móttökuna vita ef fólk er í fríi á öðrum tímum en sumarhléið okkar.

 

Hafið það gott í sumar!

Að lokum vil óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegs sumars. Ég vona að þið eigið öll ánægjulegar sumarstundir hvort sem það er í faðmi fjölskyldu og vina heimavið, á ferðalögum eða bara í hvíldarslökun með sjálfum ykkur. Aðalatriðið er að allir (sem allra flestir) nái að hlaða vel batterýin eftir erfiðan vetur og ég hlakka til að sjá ykkur spræk að fríi loknu enda margt spennandi framundan í Reykjalundarlífinu.

 

Föstudagsmolarnir fara nú í sumarfrí og verða næst föstudaginn 6. ágúst.

Mynd dagsins er úr kveðjuboði Ingibjargar Ólafsdóttur iðjuþálfa en í vikunni kvaddi hún Reykjalund eftir 14 ára farsælt starf. Við þökkum henni góð störf og óskum velfernaðar á nýjum slóðum.

Hafið það gott í sumar og njótið lífsins!

Til baka