04.06.2021

Föstudagsmolar forstjóra 4. júní 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Sumarhátíð Reykjalundar – í hádeginu 16. júní
Miðvikudaginn 16. júní verður blásið til sumarhátíðar hér á Reykjalundi. Eftir erfiðan vetur þar sem samskipti í raunheimum hafa verið í lágmarki og félagsstarf legið niðri er alveg kominn tími til að fólki njóti lífsins saman. Í byrjun október á síðasta ári stóð til að halda glæsilega afmælisviku hér á Reykjalundi með ýmsum viðburðum. Vegna Covid þurfti að hætta við allt með skömmum fyrirvara, meðal annars uppistandi Ara Eldjárns.
Þar sem samkomutakmarkanir eru loksins orðnar okkur hliðhollar höfum við ákveðið að bíða ekki lengur. Í hádeginu mun eldhúsið okkar bjóða upp á glæsilega afmælismáltið þar sem á borðum verður ljúffeng nautalund og afmæliskaka (þó ekki afmæliskakan síðan í fyrra). Klukkan 12:45 hefst svo hátíðardagskrá í íþróttasalnum þar sem starfsmenn sem látið hafa af störfum undanfarna mánuði verða kvaddir formlega, enda hafa verið fá tækifæri fyrir kveðjuhóf. Rúsínan í pylsuendanum er svo uppstand með helsta grínista landsins, Ara Eldjárn, sem bíður spenntur eftir að komast til okkar. Eins og fyrr segir verður dagskráin eftir matinn í íþróttasal Reykjalundar. Í samræmi við sóttvarnarreglur verður grímuskylda. Þetta verður standandi viðburður þar sem gestir ættu að geta haft gott bil á milli sín. Þó verða stólar fyrir þá sem eiga erfitt með að standa. Ég vonast til að sjá ykkur sem allra flest, en dagskráin er opin öllu starfsfólki og sjúklingum Reykjalundar og starfsmönnum og íbúum Hleinar. Þetta verður bara gaman.

Eins árs starfsafmæli
Á þriðjudaginn fagnaði ég eins árs starfsafmæli hér á Reykjalundi en það var þann 1. júní í fyrra sem ég hóf formlega störf hér. Þetta fyrsta ár hefur sannarlega liðið mjög hratt enda mikið að læra og líklega hefur mér oft liðið eins og svampur sem drekkur í sig fróðleik, reynslu og þekkingu enda að mörgu að taka hér. Jafnframt get ég alveg sagt að þetta ár hefur verið töluvert öðruvísi en ég hugsaði mér enda held ég að enginn hafi búist við svo miklum og langvarandi áhrifum sem Covid hafði á daglegt líf okkar í allan vetur.
Þrátt fyrir það er mér efst í huga þakklæti á þessum tímamótum. Það eru forréttindi að fá að vera þátttakandi í því merkilega starfi sem hér er unnið og kynnast öllu því flotta fagfólki sem skipar sér í fremstu röð sérfræðinga í endurhæfingu. Auðvitað eru ýmis verkefni framundan sem verða okkur miklar áskoranir en tækifærin eru líka mörg þannig að framtíð Reykjalundar er mjög björt.
Ég hlakka mikið til að takast á við starfsár númer tvö hjá mér við hlið þess glæsta hóps sem hér starfar og saman gerum við góðan Reykjalund enn betri!

Heimsókn á Heilsustofnun í Hveragerði
Í vikunni brugðum við í framkvæmdastjórn Reykjalundar undir okkur betri fætinum og fórum í heimsókn á Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði. Þar var vel tekið á móti okkur af stjórnendum en markmið heimsóknarinnar var að stuðla að auknu samtali og samvinnu þessara tveggja aðila í endurhæfingarþjónustu. Þó uppbygging starfseminnar sé á margan hátt ólík, eiga þessir tveir staðir margt sameiginlegt og möguleikar á samstarfi og samvinnu eru sannarlega til staðar; bæði rekstrarlega og faglega. Fundir og heimsókn tókust mjög vel og munum við hér á Reykjalundi bjóða þeim til okkar í haust.
Meðfylgjandi mynd var tekin í heimsókninni í Hveragerði.

Að lokum vil ég óska Hrefnu iðjuþjálfa og Sveindísi forstöðufélagsráðgjafa og formanni gæðaráðs og gæðaráði öllu, til hamingju með glæsilega styrki til gæða- og nýsköpunarverkefna sem heilbrigðisráðuneyti tilkynnti um í vikunni – glæsilegt!

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka