28.05.2021

Föstudagsmolar forstjóra 28. maí 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er Sveindís Anna Jóhannsdóttir, forstöðufélagsráðgjafi.
Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur
Pétur Magnússon


Heil og sæl öll sömul.
Það er merkilegt til þess að hugsa að það var ekki fyrr en 1957 að fyrsti félagsráðgjafinn hóf störf á Íslandi eða fyrir 64 árum. Þegar fyrsti félagsráðgjafinn kom til landsins eftir nám erlendis var lítið vitað hvernig nýta ætti menntun hans. Einhverjum datt reyndar í hug að bjóða honum starf hjúkrunarfræðings en svo fór nú þannig að fyrsta staðan varð innan Barnaverndar Reykjavíkur. Enn þann dag í dag átta sig ekki allir á störfum félagsráðgjafa og ljóst að áfram þarf að kynna frumskóginn sem félagsráðgjöf getur verið og hvernig okkar sérþekking nýtist sem best, samfélaginu til heilla.
Fyrsti félagsráðgjafi Reykjalundar, Þórey Guðmundsdóttir, hóf störf árið 1976 eða fyrir 45 árum síðan. Magnús okkar Pálsson tók við af Þóreyju og gengdi starfi forstöðufélagsráðgjafa frá 1983 til 2021 eða í ein 38 ár og það met verður seint slegið. Við hlið hans starfaði lengst af eða frá 1990-2020,  Ingibjörg Flyering  en hún kallaði Magnús gjarnan „vinnu-manninn sinn“ enda störfuðu þau saman í 30 ár, mun lengur en mörg hjónabönd endast. Það er mér heiður að hafa fengið að starfa með þeim báðum og án efa mun ég sækja innblástur í samtöl okkar Magnúsar um fagið okkar og þjónustu við þá sem sækja endurhæfingu.  Alls hafa 12 félagsráðgjafar starfað á Reykjalundi frá upphafi og þar af fimm sem nú eru starfandi. Harpa Sigfúsdóttir, starfar á geðsviði auk efnaskipta- og offitusviði en hún fagnaði 20 ára starfsafmæli á Reykjalundi árið 2020. Síðan hafa tekið til starfa þrír nýjir félagsráðgjafar en það eru þær Nadía Borisdóttir sem sér um verkja- og gigtarsvið, Hulda Gunnarsdóttir sem starfar á taugasviði og allra nýjasti félagsráðgjafinn er Elínbjörg Ellertsdóttir sem hóf störf á hjarta- og lungnasviði nú í maí. Undirrituð tók við stöðu forstöðufélagsráðgjafa í febrúar en starfar jafnframt á starfsendurhæfingarsviði og Miðgarði.
Gæðamál eru komin á dagskrá hjá okkur félagsráðgjöfum nú þegar við erum loks fullmönnuð á ný. Við munum að sjálfsögðu taka iðjuþjálfa okkur til fyrirmyndar og stefnum á að hafa okkar rafrænu handbók tilbúna í CCQ fyrri hluta árs 2022. Gæðaráð og iðjuþjálfar sóttu um styrki fyrir gæða- og nýsköpunarverkefnum en þriðjudaginn 1. júní mun koma í ljós hvaða 13 verkefni hljóta styrki Heilbrigðisráðuneytisins í ár.

Handleiðsla er fagfólki mikilvæg. Best er að nýta hana til brýningar á faglegum vinnubrögðum og sem forvörn gegn streitu og kulnun í starfi.  Póstur hefur verið sendur út um rannsókn á sviði handleiðslu og ég hvet alla sem uppfylla skilyrði að gefa kost á sér í samanburðarhóp rannsóknarinnar um leið og ég þakka þeim sem nú þegar hafa gefið kost á sér, kærlega fyrir dýrmætt framlag.
Sumarið er tíminn þegar hjartað verður grænt er sungið í dægurlagi.  Við finnum flest hvað græni gróðurinn og ilmurinn sem honum fylgir gerir mikið fyrir upplifun okkar í náttúrunni. Áfram ómar í huga mér ...Sumarið er tíminn sem mér líður best... og ég vona svo sannarlega að ykkur öllum eigi eftir að líða sem allra best í sumar. Síðustu helgi nýtti ég í að hlaupa um uppland Hafnarfjarðar í Hvítasunnuhlaupi Hauka og viti menn, auðvitað var Pétur forstjóri þar sem og Geir Gunnar næringarfræðingur! Áfram Reykjalundur. Í sumarleyfinu mun ég næra mig andlega, líkamlega og félagslega á ættaróðalinu á Hornströndum en myndin sem fylgir er einmitt tekin þar. Núna um helgina er stefnan tekin á Mývatn og hálft maraþon. Spennandi að sjá hvort ég rekist á eitthvert ykkar þar því sumarið er tíminn......

Sveindís Anna Jóhannsdóttir,
forstöðufélagsráðgjafi og formaður Gæðaráðs Reykjalundar

Til baka