14.05.2021

Föstudagsmolar forstjóra 14. maí 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er Bára Sigurðardóttir, forstöðuiðjuþjálfi.
Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur
Pétur


Vorið er undirbúningstími og í bókinni Íslenskir þjóðhættir má lesa eftirfarandi:

„Það er eins og árið byrji með vorinu fyrir sveitamanninn; þá byrja vorverkin, og þau eru fyrsti hluti af vinnu búandi manns til að búa sig undir næsta vetur. Bjargræðistíminn hér á Íslandi er frá vori til hausts og svo ómegðartími skepnanna, og mannanna að nokkru leyti, þaðan frá til vors. Með vorinu lifnar allt og glæðist, þegar bærilega vorar og vorhretin og hafísinn ætla ekki allt að drepa. Vorið og vorgróðurinn hefir um allan aldur verið mesta gleði og yndi Íslendinga, og hvert fetið, sem fram þokaðist á þá átt, mikils virði.“

Iðjuþjálfar á Reykjalundi eru iðnir og hafa síðustu misseri notað þær stundir sem gefist hafa í meðferðarhléum vegna sóttvarnarráðstafana til góða fyrir starfsemina. Þeir létu þau orð falla að tilkoma heimsfaraldurs hafi gert þeim mögulegt að sinna eftirfarandi verkefnum:

Gæðahandbók iðjuþjálfa yfir í CCQ: Það ferli á sér langan aðdraganda en í annál iðjuþjálfadeildar er getið um að árið 1994 hefst vinna við gerð handbókar. Í gegnum árin hefur farið fram endurskoðun á handbókinni og á tímabilum í samstarfi við sjúkraþjálfadeild þar sem handbækur beggja deilda voru samræmdar, eins og kostur var. Allt þetta ferli hefur lagt grunn að þeirri rafrænu gæðahandbók sem við sjáum nú í CCQ. Óska ég faghópum og teymum velfarnaðar við áframhaldandi innleiðingu gæðahandbóka sinna.

Námskeiðið Jafnvægi í daglegu lífi: Frá árinu 1996 hafa iðjuþjálfar haft umsjón með námskeiðinu, gagnger endurskoðun hefur farið fram á innihaldi námskeiðsins, rýnt verið í nýlegar bækur, rannsóknir og greinar tengt efninu. Verður nú frekari áhersla lögð á verkefnavinnu og virkari þátttöku þeirra sem sitja námskeiðið.

Endurhæfing einstaklinga sem veikst hafa af Covid 19: Iðjuþjálfar komu að undirbúningi meðferðar fyrir þennan hóp og ákveðið var að leggja fyrir Sensory Profile. Um er að ræða sjálfsmatslista sem metur skynúrvinnslumynstur fólks við áreitum í dagsins önn. Hegðun og viðbrögðum er skipað í fjórðunga sem endurspegla skynþröskuld og bjargráð taugakerfisins. Einnig er kannað einstaka skynþætti; bragð og lykt, hreyfing, sjón, snerting, virknistig og heyrn. Niðurstöður geta gefið hugmyndir um leiðir til þess að magna og dempa áreiti í umhverfinu til að koma á móts við skynjun. Þær geta einnig aukið skilning á því af hverju við bregðumst við á þann hátt sem við gerum og hvers vegna ákveðið umhverfi hentar betur en annað.

ReDO - Redesigning Daily Occupation programm: Vorið 2019 sótti hópur iðjuþjálfa námskeið  um þetta meðferðarform sem byggir á hugmyndafræði iðjuþjálfunar og þróað í Svíþjóð af dr. Lenu-Karin Erlandsson iðjuþjálfa. Grunnhugmynd ReDO er að með því að breyta iðjumynstri og lífsstíl leiðir það til heilbrigðara og viðráðanlegra jafnvægis milli daglegra verkefna. Um er að ræða hópmeðferð sem talin er gagnleg fyrir fólk sem lifir og starfar í streitutengdu umhverfi. Greinagerð með lýsingu á námskeiðinu og notagildi þess á Reykjalundi hefur verið kynnt fyrir framkvæmdastjórn. Áhugi er fyrir að koma meðferðarforminu í framkvæmd en forsenda þess er að þýða þarf meðferðarhandbók og matstæki tengt námskeiðinu. Tekist hefur samstarf við Háskólinn á Akureyri um þýðinguna og mun dr. Björg Þórðardóttir fyrrum iðjuþjálfi á Reykjalundi sinna því verkefni.

Enda þessa mola á ljóði eftir sveitunga okkar í Mosfellsbænum, Halldór Kiljan Laxness, með von um að þið njótið sumarsins sem framundan er og eflið og styrkið ykkur fyrir komandi tíð.

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga,
sæta lánga sumardaga.
Þá er gaman að trítla um tún og tölta á eingi,
einkum fyrir únga dreingi.
Folöldin þá fara á sprett og fuglinn sýngur,
og kýrnar leika við kvurn sinn fíngur.

Bestu kveðjur
Bára

Til baka