07.05.2021

Föstudagsmolar forstjóra 7. maí 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Breytingar á skipulagi framundan vegna afléttinga sóttvarna
Nú í hádeginu kynnti heilbrigðisráðherra tilslakanir á sóttvörnum hér á landi sem taka gildi strax næsta mánudag. Það er ljóst að með þessum tilslökunum opnast ýmsir möguleikar til breytinga og afléttinga á hólfaskiptingu í okkar starfsemi.
Í dag og á mánudaginn munum við fara vel yfir hvaða áhrif þetta hefur á starfsemi okkar og gefa þá út í lok mánudags, hvernig starfsemi Reykjalundar mun breytast.
Ég vil þó segja að líkur eru á því að hólfaskiptingu starfsfólks ljúki þriðjudaginn 11. maí, mötuneytið opni fyrir starfsfólk miðvikudaginn 12. maí og aflagning á hólfum sjúklinga taki gildi frá og með mánudeginum 17. maí.
Ég minni þó á að við viljum láta helgina líða og sjá hvernig mál þróast og eiga mánudaginn í undirbúning. Við munum svo gefa út formlega tilkynningu í lok dags á mánudaginn, 10. maí.

Aðgerðaráætlun um endurhæfingu til næstu fimm ára
Í desember s.l. setti heilbrigðisráðherra fram aðgerðaáætlun um endurhæfingu hér á landi til ársins 2025. Í tilkynningu sem fylgdi áætluninni segir meðal annars: „Grundvöllur áætlunarinnar er að endurhæfingarhugtakið og stig endurhæfingar verði skilgreind í reglugerð í samræmi við skilgreiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, að öll endurhæfingarstarfsemi í landinu falli undir ábyrgðarsvið heilbrigðisráðuneytisins og að sett verði á fót endurhæfingarráð. Rík áhersla er lögð á aukið hlutverk heilsugæslu í endurhæfingu og stefnt er að því að stórauka fjarheilbrigðisþjónustu í endurhæfingu.“
Þessi áætlun byggir á tillögum starfshóps sem heilbrigðisráðherra fól að móta tillögur að endurhæfingarstefnu fyrir tveimur árum, ásamt umsögnum sem bárust þegar skýrsla hópsins var birt í samráðsgátt. Hans Jakob Beck læknir hér á Reykjalundi var einn þeirra sem átti sæti í vinnuhópnum.
Við á Reykjalundi viljum vera leiðandi aðili í endurhæfingu hér á landi en Reykjalundur kemur nokkuð við sögu í aðgerðaráætluninni. Framkvæmdastjórn hefur undanfarið fjallað um þessa aðgerðaráætlun í ljósi starfsemi okkar og tekið saman áhersluatriði sem við teljum mikilvægt að (við) Reykjalundur komi að með einhverjum hætti.
Áætlunina er að finna á eftirfarandi slóð og ef einhver ykkar hafa hugmyndir tengdar áætluninni og Reykjalundi væri gaman að heyra frá ykkur sem fyrst.
Stjórnarráðið | Aðgerðaáætlun um endurhæfingu til fimm ára (stjornarradid.is)

Heimsókn frá Mats- og hæfisnefnd í endurhæfingarlækningum
Í gær kom í heimsókn hingað á Reykjalund Mats- og hæfisnefnd sem er nefnd á vegum Embættis landlæknis. Tilgangur heimsóknarinnar var að fara yfir marklýsingu og skipulag sérnáms í endurhæfingarlækningum sem mun hefjast í haust ef allt gengur að óskum og verður Reykjalundur vonandi hluti af því. Nefndin fékk kynningu á skipulagi og starfsemi Reykjalundar ásamt því að funda með ýmsum aðilum og skoða aðstæður m.t.t. getu Reykjalundar til að sinna þessu verkefni. Þetta tókst allt mjög vel og viljum við þakka öllum þeim sem komu að málinu.

Að lokum er gaman að segja frá því að þessa dagana eru gæðastjórarnir okkar tveir að hefja störf á fullum krafti en það eru þær Berglind Gunnarsdóttir og Hín Bjarnadóttir sem eru einmitt á meðfylgjandi mynd. Þær mun senda út tilkynningu fljótlega um störf sín, staðsetningu og fleira.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka