30.04.2021

Föstudagsmolar forstjóra 30. apríl 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag Lárus S. Marinusson, forstöðuheilsuþjálfari.
Ég vona að þið eigið góða helgi hvort sem það er við leik eða störf eða eitthvað annað.

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon


,,Hvert örstutt spor“

,,Hvert örstutt spor“ eða fyrsta skrefið er alltaf stór viðburður í lífi hvers og eins. Miklum áfanga er náð. Hlaup foreldra aukast því hætturnar eru víða. Ganga lífsins hefst skref fyrir skref.

Ganga hefur verið einn af mikilvægum hreyfiþáttum endurhæfingar á Reykjalundi í gegnum tíðina og verið stór áhersluþáttur í þjónustu heilsuþjálfunardeildarinnar. Rannsóknir hafa sýnt fram á gildi hreyfingar og m.a. fjallað um göngu sem hreyfingaform sem hafi áhrif á bæði andlega og líkamlega vellíðan.

Umhverfi Reykjalundar hefur nýst afar vel til gönguþjálfunar þar sem boðið er upp á daglegar göngur sem eru um þessar mundir getuskiptar í þrjá hópa en hafa lengstum farið fram í fjórum hópum. Hóparnir fara mishratt og langt. Það má segja að tala gönguhópsins segi til um vegalengdina sem gengin er. Í fyrstu viku þeirra sem koma hingað í endurhæfingu fara flestir í 6 mínútna göngupróf eða tveggja kílómetra göngupróf ef viðkomandi er röskur til gangs. Einnig er boðið upp á núvitundargöngur þar sem áhersla er lögð á að styðja fólk í að einbeita sér að stund og stað. Ef einn af skjólstæðingum Reykjalundar í viku hverri heldur áfram að stunda sína gönguþjálfun þegar heim er komið þá hefur endurhæfingin þegar áorkað miklu.

Það er mögulegt að lesa ýmislegt í göngulag fólks m.a. um almenna líðan og stoðkerfisvanda svo eitthvað sé nefnt. Göngulag er síðan hægt að lagfæra með ýmsum hætti og hefur stafganga þar mikla kosti þar sem hún hjálpar einstaklingum við rétta líkamsbeitingu. Stafganga er góð viðbót við gönguþjálfunina.

Á Covid tímum hefur umfang gönguþjálfunar á Reykjalundi dregist saman og er það miður. Vonandi færist það í betra horf bráðlega með breyttum aðstæðum og sumarkomunni.

Árið 2002 lagði ég í pílagrímsferð til munkaríkisins Athos á Grikklandi sem er staðsett á samnefndum skaga við Eyjahafið sem er næst Tyrklandi. Gengið er á milli klaustra og á göngunni getur hver og einn skynjað, upplifað og fengið nýja sýn á tilveruna allt eftir persónuleika og aðstæðum hvers og eins. Það eru ákveðin forréttindi að hafa fengið tækifæri til heimsækja þennan góða núvitundarstað og það oftar en einu sinni því sérstakt leyfi þarf til að dvelja á staðnum.

Það er stórkostlegt að verða vitni að framförum hjá skjólstæðingum Reykjalundar jafnvel þó viðkomandi sé ekki að bæta sig í hraða heldur fyrst og fremst líðan. Litlu skrefin telja.

Ég óska okkur öllum velfarnaðar á lífsgöngunni. Förum út að ganga!

Lárus S. Marinusson

 

Ljósmynd: J.Long

Til baka