23.04.2021

Föstudagsmolar forstjóra 23. apríl 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Gleðilegt sumar!
Í dag er kominn annar dagur þessa sumars og því er vel við hæfi að hefja mola dagsins á því að óska ykkur öllum gleðilegs sumars og þakka fyrir veturinn! Það er alltaf gaman þegar sumarið er komið, þó ég hafi nú aldrei skilið af hverju fimmtudagur um miðjan apríl fái árlega heiðurinn af því að vera fyrsti sumardagurinn. Í minningunni er yfirleitt rok og rigning á þessum degi.
En það breytir ekki því að einhver furðulegasti vetur í sögu Reykjalundar er að baki. Hann hefur verið okkur snúinn og erfiður þrátt fyrir að fregnir hafi borist af því að veturinn sé sá snjóléttasti hér á höfuðborgarsvæðinu í áratugi. Ég er auðvitað að tala um Covid-veturinn 2020-2021, eins og hann verður sjálfsagt kallaður í annálum. Það er ljóst nú í lok apríl að enn verður bið á að starfsemi Reykjalundar fari í eðlilegt horf vegna sóttvarnarmála. Það góða er þó að með hækkandi sól er auðveldara að bíða af okkur þessa lokametra í baráttunni.
Nú þegar hefur verið kynnt að hefðbundið meðferðarhlé á starfsemi Reykjalundar hefjist mánudaginn 12. júlí og stendur það fram yfir verslunarmannahelgi. Það er vonandi að þið náið öll að njóta sumarsins og gera eitthvað skemmtilegt eftir þennan skrítna vetur. Sjálfum finnst mér mjög gaman að ferðast um landið og er orðinn spenntur fyrir komandi sumri. Meðfylgjandi mynd er úr Fagrafirði í Langasjó sem er einn af fallegri stöðum landsins og í miklu uppáhaldi hjá mér. Eyjan „Ást“ í Fagrafirði er örugglega eitt fallegasta nafn á eyju sem til er, en hún er í forgrunni á myndinni.

Aðalfundur Reykjalundar – 26. maí
Með tilkomu nýs félags um rekstur Reykjalundar, hefur verið ákveðið að formlegur aðalfundur Reykjalundar verði haldinn ár hvert. Tel ég það sjálfur vera góðan og skemmtilegan sið. Nú hefur verið ákveðið að Aðalfundur Reykjalundar verði haldinn þann 26. maí 2021 kl. 14.00. Dagskrá fundarins verður hefðbundin aðalfundarstörf en einnig verður lagt upp með að fá áhugaverða gesti til ávarpa fundina. Heilbrigðisráðherra mun ávarpa fundinn að þessu sinni. Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður og formaður Hollvinasamtaka Reykjalundar verður fundarstjóri. Í venjulegu árferði verða allir velkomnir, en eins með allar aðrar samkomur þessi misserin, er ekki ólíklegt að einhverjar takmarkanir verði þetta árið. Það verður þó allt kynnt betur þegar nær dregur.

Góðar kveðjur vegna gæðamála
Að lokum langar mig að senda góðar kveðjur til gæðaráðs og iðjuþjálfunardeildarinnar en í vikunni var haldið upp á það að gæðahandbók iðjuþjálfunar er komin á rafrænt form í CCQ. Þessum merka áfanga ber að fagna og óska ég öllum sem komu að málum til hamingju. Aðrir munu svo fylgja í kjölfarið enda eru gæðamál málefni okkar allra og mikilvægi þeirra á bara eftir að aukast í heilbrigðisþjónustunni á komandi árum.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka