16.04.2021

Föstudagsmolar forstjóra 16. apríl 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag Helgi Kristjónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs.
Ég vona að þið eigið góða helgi hvort sem það er við leik eða störf eða eitthvað annað.

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon


Það getur verið hollt að fara aðeins yfir sviðið þegar maður hefur unnið lengi á sama vinnustað, bara svona til að réttlæta fyrir sér þaulsetuna í starfinu. Mín réttlæting er sú að það sé einhver óskilgreindur X-factor við Reykjalund, kannski vegna þess hve margir frumkvöðlar og afgerandi einstaklingar hafa starfað hér hverra andi svífur yfir vötnum, kannski vegna staðsetningarinnar, kannski vegna þess að þúsundir íslendinga hafa notið þjónustunnar og tala um hana af hlýhug.  Það er líklega þessi x-factor sem veldur því að ég er hér ennþá og svo auðvitað óþrjótandi, síbreytileg og örgrandi verkefni.

Starfsemin á Reykjalundi hvílir á gömlum grunni og er sprottin af þörfinni fyrir vinnuheimili fyrir fólk sem hafði útskrifast af berklasjúkrahúsum á sínum tíma, þörfinni fyrir stað þar sem þeir sem veikst höfðu af berklum gætu náð betri heilsu áður en þeir hyrfu aftur út á vinnumarkaðinn. SÍBS tók að sér að uppfylla þessa þörf með uppbyggingu Reykjalundar, samtökin hafa verið eigandi Reykjalundar frá upphafi og stutt dyggilega við starfsemina allar götur síðan.

Sagan sýnir að starfsemin hefur ætíð verið aðlöguð aðstæðum í þjóðfélaginu hverju sinni í gegnum tíðina. Lengst af starfaði Reykjalundur á tveimur ólíkum sviðum sem þó tengjast bæði vinnuheimilishugmyndinni, annars vegar í endurhæfingu sjúklinga og hins vegar í iðnaðarframleiðslu sem þróaðist út í plastiðnað. Um sögu Reykjalundar geta áhugasamir lesið á heimasíðunni https://www.reykjalundur.is/um-reykjalund/saga-reykjalundar/.

Þegar ég hóf störf á Reykjalundi árið 2001 stóð Reykjalundur á ákveðnum tímamótum.  Endurhæfingarstarfsemin sem hafði verið fjármögnuð um árabil með daggjöldum frá hinu opinbera og þróast í átta meðferðarsvið var þá skömmu áður komin undir sérstakan þjónustusamning við heilbrigðisráðuneytið. Þjónustusamningurinn kvað á um ákveðna heildarupphæð fyrir endurhæfingu ákveðins fjölda sjúklinga í endurhæfingu. Þetta var grundvallarbreyting í fjármögnun endurhæfingarstarfseminnar, tekjurnar voru ákveðnar fyrirfram og Reykjalundur fór á fjárlög.

Plastiðnaðarframleiðslan var á þessum tímapunkti ekki lengur sá bakhjarl við endurhæfingarstarfsemina sem áður hafði verið, enda hafði samkeppni í þeim geira aukist mjög mikið með afléttingu innflutningshafta á níunda áratugnum. Árið 2004 var plastiðnaðarhluti starfseminnar seldur, þar með var iðnaðarstarfsemin sem þróaðist út frá vinnuheimilishugmyndinni horfin úr umsjón Reykjalundar. En á meðan plastiðnaðarstarfsemin dalaði þá efldist endurhæfingarstarfsemin að sama skapi.

SÍBS stóð að byggingu glæsilegs íþróttahúss og sundlaugar með fullkominni þjálfunaraðstöðu fyrir sjúklinga Reykjalundar sem var vígt í ársbyrjun 2002. Í kjölfarið efldist endurhæfingarstarfið til muna. Bankahrunið árið 2008 leiddi til annarrar grundvallarbreytingarinnar í starfsemi Reykjalundar. Sparnaðarkrafa frá ríkisvaldinu upp á 20% samdrátt í fjárframlögum reið yfir. Brugðist var við því með því að breyta legudeildum á Reykjalundi í dagdeildir með möguleika á gistingu en án hjúkrunarþjónustu. Aðeins ein 18 rúma legudeild, Miðgarður varð eftir. Þessi breyting lukkaðist vel og áfram hélt endurhæfingarstarfsemin af fullum krafti.

Til að gera langa sögu stutta þá er ennþá verið að breyta á Reykjalundi, núna er það rekstrarformið en Reykjalundur var starfræktur sem félagasamtök fram til ársins 2020 þrátt fyrir að augljóst væri að umsvifin í rekstrinum væru það mikil að engin félagasamtök geta tekið á sig þær ábyrgðir eða skuldbindingar sem hugsanlega geta fylgt slíkum rekstri. Því var ráðist í það á árinu 2020 að gera Reykjalund að einkahlutafélagi í eigu SÍBS með sérstakri stjórn sem tók til starfa í júní árið 2020. Það er þó ekki svo að Reykjalundur sé kominn á lygnan sjó þrátt fyrir breytt rekstrarform. Af framansögðu má sjá að breytingar eru viðvarandi þáttur í rekstri Reykjalundar. Framundan er að fást við nýtt rekstrarumhverfi í endurhæfingarþjónustunni þar sem lög um opinber innkaup gera ráð fyrir því að endurhæfingarstarfsemi fari í útboð á reglubundin máta. Ef marka má söguna fram að þessu verður Reykjalundur og starfsfólks hans ekki í vandræðum með að taka þeirri áskorun.

Lifið heil,
Helgi

Til baka