14.04.2021

Að lifa í óvissu eftir Covid-19

Í nýjasta tölublaði Sjúkraþjálfarans, sem er fagblað sjúkraþjálfara, eru þrjár greinar eftir sjúkraþjálfara á Reykjalundi.

Greinarnar eru eftir þær Ásdísi Kristjánsdóttur, Bríeti Mörk Ómarsdóttur og Hlín Bjarnadóttur. Auk þess að fjórði sjúkraþjálfarinn okkar, hún Kristín Magnúsdóttir er í ritnefnd blaðsins. Í síðustu viku birtum við grein Ásdísar og hér fyrir neðan má nú lesa greinina sem Bríet Mörk Ómarsdóttir skrifaði en tengill á blaðið í heild er hér:

https://www.physio.is/media/sjukrathjalfarinn-pdf/SjukraVor21vef.pdf

Að lifa í óvissu eftir Covid-19

Reynsla og hugleiðingar nýútskrifaðs sjúkraþjálfara á Reykjalundi
Nú er ár síðan fyrst heyrðist talað um veiruna sem geisaði í Kína og aldrei óraði manni fyrir að hún myndi dreifast um alla heimsbyggðina og hafa svona víðtæk áhrif. Þannig er þó staðan og reynum við nú eftir bestu getu að aðlaga okkur að síbreytilegu umhverfi. Þegar fyrsta bylgjan skall á hér á Íslandi var ég nýbúin að ljúka klínísku lokaprófi í sjúkraþjálfun og var að hefja skrif á meistararitgerðinni. Það má því segja að tímasetningin hefði ekki geta verið heppilegri fyrir mig og samnemendur mína. Við náðum svo að útskrifast á réttum tíma og hefja störf við okkar fag. Ég hóf störf á lungnasviði á Reykjalundi og sjúklingahópurinn í samræmi við það fyrst um sinn. Síðan fóru einstaklingar sem veikst höfðu af Covid-19 að koma til okkar í endurhæfingu og mikið af óútskýrðum einkennum með.

Eftirköst Covid
Eftirköst Covid eru umfangsmikil og einkennin jafn mismunandi og þau eru mörg. Þeir sem koma í endurhæfingu á Reykjalund eru enn að glíma við langtíma afleiðingar veirunnar. Bráðu veikindin og langtíma afleiðingarnar fylgjast ekki endilega að, þeir sem að urðu lítið veikir í byrjun fengu margir mun meiri og þyngri einkenni nokkrum mánuðum síðar. Vöntun er á ritrýndum greinum um langtíma áhrif Covid-19 en rannsóknir á bráðu veikindunum sýna að veiran er fjölþættur sjúkdómur sem getur haft áhrif á flest öll kerfi líkamans1. Eftirköst hjá okkar skjólstæðingum eru í samræmi við þau eftirköst sem skráð hafa verið erlendis2. Þetta eru einkenni eins og óeðlileg þreyta, vöðvamáttleysi, gífurleg þreyta eftir líkamlegt álag, útbreiddir verkir, taugaverkir, svefntruflanir, breytt bragð- og lyktarskyn, minnistruflanir, orðarugl, kvíði, depurð og svo áfram mætti telja. Þó að listinn sé langur þá er sameiginlegi þátturinn einna helst þessi óstjórnlega þreyta.

Síþreyta eftir veirusýkingar
Óstjórnleg þreyta og langvarandi einkenni eftir veirusýkingar er áður þekkt fyrirbæri (e. post-viral fatigue)3. Post-víral þreyta og önnur einkenni hverfa yfirleitt vikum eða mánuðum eftir veirusýkingu en ef að þreyta stendur lengur en 6 mánuði þá er líklegt að þróast hefur króníski sjúkdómurinn síþreyta (e. myalgic encephalomyelitis/chronic fatigue syndrome)4. Í sumum tilfellum eru einstaklingar 1-2 ár að ná bata en ekki eru allir sem ná fullum bata. Þreytan hefur gríðarlega hamlandi áhrif á daglegt líf. Hún gerir það m.a. að verkum að fólk sækir meira í skyndibita, hreyfir sig minna, minnkar félagsleg samskipti og dregur sig almennt til hlés. Við þetta myndast einskonar vítahringur þar sem þessir þættir ýta enn frekar undir vanlíðan og orkuleysi. Líkamleg einkenni eftir Covid eru mörg en andlegi þátturinn er ekki síður mikilvægur. Einangrunin í veikindunum skilur eftir sig djúp sár og það ríkir mikil óvissa um hvernig framhaldið verður; mun ég geta farið aftur að vinna eða sinnt heimilinu, mun ég þróa með mér síþreytu, mun ég hafa úthald fyrir fjölskyldu, vini og áhugamál. Það er depurð yfir stöðunni og kvíði um hvort einstaklingar eigi eftir að komast aftur í sitt fyrra horf.

Endurhæfing eftir Covid
Endurhæfing á Reykjalundi byggist á þverfaglegri teymisvinnu. Að teyminu koma sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, læknar, hjúkrunarfræðingar og ýmist sálfræðingar, félagsráðgjafar eða næringarfræðingar eftir þörfum. Meðferðin er einstaklingsmiðuð og markmiðið er að virkja einstaklinga í sinni eigin meðferð. Mikilvægt er að mæta einstaklingum þar sem þeir eru, reyna að finna jafnvægi á milli daglegs lífs, hreyfingar og hvíldar og fyrst og fremst að læra að hlusta á líkamann. Flestir sem koma til okkar eru í einhverju formi af þol- og styrktarþjálfun en lagt er upp með að fara hægt af stað og byggja svo rólega ofan á það.
Það sem margir skjólstæðingar okkar eftir Covid hafa fundið sameiginlegt að endurhæfingu lokinni er aukinn styrkur sem gerir þeim betur kleift að sinna daglegum athöfnum en á sama tíma er þreytan og orkuleysið enn til staðar. Svörun á spurningalistum hafa sýnt jákvæða þróun. Einkenni eru færri, koma sjaldnar upp og fólk er almennt að meta þreytu og verki minni þó að hvoru tveggja sé vissulega enn til staðar. Mín upplifun er einnig sú að fólki líði strax betur þegar það finnur að á það sé hlustað og á Reykjalundi er hópur fagaðila sem er alltaf reiðubúinn að hlusta og hjálpa einstaklingum að ná bata. Einstaklingar upplifa sig ekki lengur standa eina í þessari baráttu og er jafningjastuðningur þar ekki síður mikilvægur.

Óvissan með framhaldið
Þegar ég hóf starf mitt á Reykjalundi lét fráfarandi sviðsstjóri mig fá ýmislegt lesefni og þar á meðal bókina; ,,Heilbrigði býr í huganum’’5. Höfundur þessarar bókar er sænskur sálfræðingur sem glímt hefur við Parkinson sjúkdóm til margra ára og fjallar hann um króníska sjúkdóma faglega og út frá eigin reynslu. Boðskap bókarinnar er vel hægt að yfirfæra yfir á fleiri áskoranir í lífinu. Bókina var ég að lesa um það leyti og þriðja bylgjan skall á. Það var einn hluti úr bókinni sem sat sérstaklega eftir og langar mig að láta hann fylgja hér: Bríet Mörk Ómarsdóttir Sjúkraþjálfari, MSc Reykjalundi Sjúkraþjálfarinn 23 COVID-19

Að lifa í óvissu og breytingum, sem maður hefur ekki stjórn á, er sársaukafullt í byrjun, mjög heftandi og vekur gremju. Ef við viðurkennum aðstæður uppgötvum við að það er vel hægt að vera í þessum sporum án þess að vita hvar maður endar. Við þurfum að læra að vera góð í að eiga við vandamál að etja. Ef við lítum þannig á málin getum við vel strítt við þau og liðið vel. Við þurfum að horfast í augu við vandamálin, taka ábyrgð á þeim og ekki leyfa þeim að taka meira pláss en þeim ber. Síðan höldum við áfram að lifa okkar góða hversdagslífi. (Andersen, 2003, bls. 113).

Enn er óljóst hvernig þróun langvinnra einkenna eftir Covid-19 mun verða en það verður tíminn betur að leiða í ljós.

Heimildir:
1. Barker-Davies, R. M., O'Sullivan, O., Senaratne, K. P. P., Baker, P., Cranley, M., Dharm-Datta, S., ...Bahadur, S. (2020). The Stanford Hall consensus statement for postCOVID-19 rehabilitation. British Journal of Sports Medicine.
2. Long-term effects of COVID-19. Centers for Disease Control and Prevention. https://www.cdc.gov/coronavirus/2019-ncov/long-term-effects.html. Sótt 20. janúar 2021.
3. Garcia, M. N., Hause, A. M., Walker, C. M., Orange, J. S., Hasbun, R. og Murray, K. O. (2014). Evaluation of prolonged fatigue post–West Nile virus infection and association of fatigue with elevated antiviral and proinflammatory cytokines. Viral immunology, 27(7), 327-333.
4. Fukuda, K., Straus, S. E., Hickie, I., Sharpe, M. C., Dobbins, J. G. og Komaroff, A. (1994). The chronic fatigue syndrome: a comprehensive approach to its definition and study. Annals of internal medicine, 121(12), 953-959.
5. Andersen, S. (2003). Heilbrigði býr í huganum: Að lifa með krónsíkan sjúkdóm (Helga Ágústsdóttir þýddi). Gutenberg: Parkinsonsamtökin á Íslandi.

Til baka