12.03.2021

Föstudagsmolar forstjóra 12. mars 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag Arna Elísabet Karlsdóttir, deildarstjóri á hjarta- og lungnarannsóknarstofu.
Annars virðist þessi fyrsta vika með tilslökunum sóttvarnarhólfa hér í húsinu gengið mjög vel og hafið kærar þakkir fyrir það.
Ég vona að þið eigið góða helgi hvort sem það er við leik eða störf eða eitthvað annað.

Bestu kveðjur,
Pétur MagnússonHjarta- og lungnarannsókn á Reykjalundi hefur um langt árabil sinnt svefnskimunum hjá skjólstæðingum okkar.  Rannsóknarstofan hefur yfir tveimur svefnskimunartækjum að ráða og framkvæmdar eru um og yfir 250 mælingar ár hvert og því góð nýting á þessum tveimur tækjum.  Starfsfólk hér er mjög meðvitað um mikilvægi þess að greina kæfisvefn sem fyrst í endurhæfingunni þannig að hægt sé að bregðast fljótt við og nýta endurhæfinguna betur. Eins er starfsfólk hér mjög meðvitað um að skoða svefn og svefnvenjur skjólstæðinganna og vinna með svefninn gerist þess þörf. Góður svefn er okkur hugleikinn hér á Reykjalundi.

Ég hef verið að lesa bókina:  Þessa vegna sofum við – Um mikilvægi svefns og drauma eftir Matthew Walker í þýðingu Herdísar M. Hübner sem Bókafélagið gefur út.  Þar kennir ýmissa grasa og ætla ég að deila hér með ykkur smá fróðleik úr bókinni varðandi mikilvægi drauma. Ég set þessa punkta hér fram í afar einfölduðu máli, meira til gamans gert, en að sjálfsögðu er mun meira kjöt á beinunum og mikill fjöldi rannsókna að baki þessum fullyrðingum sem nánar er sagt frá í bókinni.

Okkur dreymir á öllum stigum svefns en draumar eins og við hugsum þá eiga sér stað í REM svefni, draumsvefni. REM svefntímabilin eru nokkur yfir nóttina en mislöng, það lengsta á sér stað undir morgun.
Í REM svefni er heilinn algerlega laus við streituhormónið Noradrenalín og er það í rauninni eini tími sólarhringsins sem hann er alveg laus við það.  Það hefur þau áhrif að ef við höfum orðið fyrir tilfinningalegum erfiðleikum eða uppnámi að deginum  þá líður okkur örlítið betur eftir að hafa sofið. Draumsvefninn tekur sárasta sviðann úr erfiðri tilfinningalegri reynslu. Við getum hugsað atburðinn aftur og hann veldur okkur ekki eins miklu uppnámi og áður.
REM svefn, draumsvefninn örvar sköpunarkraft. Frásagnir til af tónskáldum sem segja sín bestu lög hafa komið til þeirra í svefni.
REM svefninn, draumsvefninn bætir minni, í draumsvefni á sér stað eins konar flokkun eða uppfærsla. Við komum betra skipulagi á í heilanum þ.a. hlutir sem vefjast fyrir okkur yfir daginn, virðast okkur ofviða og óleysanlegir,  verða skýrari og auðleystari eftir góðan nætursvefn.

Ég þykist vita að við þekkjum flest einhver þessara áhrifa. Hver kannast ekki við að „allt sé komið í graut“ í höfðinu í próflestri en er svo miklu skýrara og skiljanlegra eftir að hafa sofið?
Það er engin tilviljun að þegar við stöndum frammi fyrir stórum ákvörðunum, erfiðum ákvörðunum að við segjumst ætla að „sofa á þeim“  en ekki „vaka yfir þeim“. Það kemur fram í bókinni að þetta orðatiltæki er til á mörgum tungumálum.
Eins og áður sagði er lengsta REM svefntímabilið undir morgun. Þannig að ef við þurfum að skerða svefn í þann enda, t.d. ef við þurfum að vakna kl. 6 í stað 8 þá erum við að skerða REM svefninn mikið og
hlutfallslega miklu meira heldur en heildarsvefntímann.

Kæra samstarfsfólk, um leið og ég óska ykkur góðrar helgar vona ég að þið sofið vel og að ykkur dreymi fallega.

Arna Elísabet Karlsdóttir.

Til baka