05.03.2021

Föstudagsmolar forstjóra 5. mars 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Glittir í endalokin – bólusetning í dag!
Um síðustu helgi var þess minnst að eitt ár er síðan fyrsta kórónuveiru-smitið greindist hér á landi eða þann 28. febrúar 2020. Á því rúma ári sem liðið er höfum við fengið að upplifa óvenjulega tíma í þjóðfélaginu og í raun í heiminum öllum.

Sjálfur tók ég þátt í því á mínum fyrri vinnustað að vera í vinnuhópi um sóttvarnir og sóttvarnaraðgerðir í öldrunarþjónustu. Þar var Ísland í fararbroddi enda margir aldraðir í  áhættuhópi, ekki síst þeir veikustu. Meðal annars var sú erfiða og mikilvæga ákvörðun tekin nokkrum dögum eftir þetta fyrsta smit að loka hjúkrunarheimilium og ýmssi annarri formlegri starfsemi eldri borgara. Flest vestræn lönd fylgdu í kjölfarið með svipuðum aðgerðum. Sagan ein verður svo að dæma hvernig til tókst og hvort þetta var rétt ákvörðun, enda er alltaf spurning hvernig við metum og mælum skerðingu á lífsgæðum fólks, ekki síst á lokametrum ævinnar. Hitt er þó greinilegt að þær sóttvarnir sem viðhafðar hafa verið hér á landi, undir stjórn þríeykisins okkar, hafa leitt til þess að ein minnsta skerðing á daglegu lífi hefur verið hér á Íslandi þegar við berum okkur saman við nágrannalöndin. Helst væri hægt að nefna Svíþjóð sem fór í upphafi aðrar leiðir en flestar aðrar þjóðir en þar er líka dánartíðnin sláandi – miðað við höfðatölu Svíþjóðar og Íslands væru nú um 300 Íslendingar látnir úr COVID en ekki 29 einstaklingar eins og raunin er nú.
Við erum sífellt að læra meira um COVID og afleiðingar sjúkdómsins. Við hér á Reykjalundi þekkjum vel til langvarandi einkenna og því miður er að koma í ljós að fjölmargir Íslendingar sem sýkst hafa glíma við langvarandi einkenni og skerta starfsorku, mánuðum eftir að hafa greinst. Þessi hópur er á öllum aldri og í hópnum er meðal annars afreksfólk í íþróttum en margir hafa stigið fram í fjölmiðlum og sagt sína sögu. Vonandi náum við hér á Reykjalundi að bæta lífgæði sem allra flestra í þessum hópi en við bíðum nú frétta frá Sjúkratryggingum Íslands um áframhald þeirrar meðferðar sem hér hefur verið veitt fyrir þennan hóp undanfarna mánuði.

Annars er léttir yfir fólki hér á Reykjalundi þessa dagana. Í vikunni hófum við að afnema þá miklu hólfaskiptingu starfsfólks og starfseminnar sem verið hefur síðustu fimm mánuði. Þetta tímabil hefur reynt mikið á alla og því sannarlega kærkomið fyrir okkur starfsfólk að hittast á göngum og ekki síst í hjarta hússins, mötuneytinu, sem nú hefur opnað aftur. Í næstu viku opnast svo enn betur fyrir aðgang sjúklinga hingað þannig að vonandi eru bara bjartir og skemmtilegir tímar framundan.

Síðast en ekki síst er svo léttir yfir fólki með að bólusetning er hafin hér hjá okkur, starfsfólki Reykjalundar. Það var í raun merkisstund í morgun þegar stór hluti starfsmanna Reykjalundar var bólusettur fyrri sprautuna. Þar með erum við vonandi farin að horfa á endalok þessa sérstaka COVID-ástands sem við viljum bara setja í reynslubankann en ekkert sérstaklega upplifa aftur. Dagný og Herdís iðjuþjálfar voru kampakátar í morgun eftir að hafa farið í gegnum ferlið í Laugardagshöllinni og fengið bólusetningu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Það sannarlega glittir í endalokin.

Það er vor í lofti á þessum fallega föstudegi. Það er þó enn vetur samkvæmt dagatalinu og páskar nálgast. Rétt eins og við þurfum að minna okkur á að veturinn er ekki búinn er ágætt að hafa í huga að við þurfum enn um sinn að hafa í heiðri ýmsar sóttvarnir áfram um nokkurt skeið.
Ég vil að lokum svo minna alla á að vegna styttingu vinnuvikunnar í janúar höfum við Reykjalundi ákveðið að hafa lokað síðasta dag marsmánaðar sem er miðvikudagurinn fyrir páska og þar með lengist páskafríið örlítið sem verður vonandi sem flestum til gleði.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka