26.02.2021

Föstudagsmolar forstjóra 26. febrúar 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er Lára M. Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar.
Um leið og ég óska ykkur góðrar helgar vona ég að þær tilslakanir sem framundan eru verði til að létta bæði lund og starf eftir mikinn Covid-vetur sem sett hefur verulegan svip á starfsemina.
Það verður gaman að fara sjá ykkur aftur í eign persónu og fá daglegt líf í eðlilegra horf.

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon


Ég hef orðið vör við það síðustu daga að nú er daginn farið að lengja í báða enda. Það er bjart lengur fram eftir degi og það sem meira og enn betra er að það er farið að birta fyrr á morgnanna. Mér hefur alltaf fundist dagurinn lengjast hraðar í byrjun árs en hann styttist í lok árs. Einnig hef ég orðið vör við mikinn fuglasöng á morgnana þegar ég legg af stað til vinnu, það þykir mér alltaf vera ávísun á að vorið sé að koma. Við erum þó ekki nema í lok febrúar enn og því best að fara ekki frammúr sér hvað vorið varðar þó einmuna blíða hafi verið hér í vetur og með afbrigðum snjólétt hér sunnan lands.
Þetta minnir mig á síðasta ár. Það var þungt á ýmsa vegu og svo sannarlega mis þungt hjá okkur hér í starfsseminni á Reykjalundi. En nú virðist líka vera að birta þar og við erum að stíga þau skref að koma starfseminni í eðlilegan farveg á ný. Þar eins og í öðru er betra að fara sér hægt og stíga öruggum skrefum áfram.

Við erum svo sannarlega að stíga skref áfram hér á Reykjalundi þessa dagana því að við erum að leggja niður gistibókunarkerfið sem við höfum notað í DIANA kerfinu til allmargra ára og erum að byrja með nýtt kerfi frá GODO sem býður upp á möguleika sem DIANA kerfið hafði ekki. Þetta er hótelbókunarkerfi og er meðal annars notað á Sjúkrahóteli LSH. Þetta kerfi býður upp á mikla möguleika og erum við full tilhlökkunar að taka þetta nýja kerfi í notkun og nýta þá möguleika sem það býður upp á.

Þrátt fyrir að nú sé verið slaka á í starfseminni hér megum við ekki missa okkur í gleðinni og sofna á verðinum. Við þurfum áfram að sinna sóttvörnum, virða fjarlægðarmörk og nota grímur. Með það að leiðarljósi ætti okkur að farnast vel.

Með ósk um góða helgi.
Lára M. Sigurðardóttir

Til baka