19.02.2021

Föstudagsmolar forstjóra 19. febrúar 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Að heyra álit notenda þjónustunnar
Covid hefur sannarlega gert það að verkum að undanfarna mánuði hittir maður mun minna af fólki en venjulega. Hluti af því er að hitta hvorki ykkur né sjúklinga. Vildi þó deila með ykkur að síðustu daga hef ég átt þrjú samtöl við fólk sem lokið hefur meðferð hér hjá okkur, bæði nýlega en eins fyrir nokkrum árum. Okkur sem gegnum stjórnunarstörfum hættir oft til að nota alla orkuna okkar í að vera skoða það sem þarf að laga en gleymum oft að mest allt er í góðu lagi og rúmlega það. Þó það komi nú kannski ekkert á óvart var engu að síður mjög ánægjulegt að heyra frá þessum aðilum með ánægju sína af dvölinni hjá okkur og hvað tíminn á Reykjalundi hefði gert þeim gott til að komast aftur sem þátttakendur út í lífið. „Reykalundur er nú bara kraftaverk eitt og sér“ sagði einn.
Þar sem Reykjalundur getur aldrei orðið meira en fólkið sem þar vinnur vildi ég fá að deila þessu með ykkur.
Annars er vinnuhópur á lokastigum með að útbúa tillögur að nýrri þjónustukönnun og verður spennandi að koma því í gagnið.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu
Á starfsmannafundi okkar á dögunum kynntum við að Reykjalundur mun á þessu ári máta sig inn í Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu. Stjórn SFV hefur nú samþykkt beiðni okkar. SFV eru samtök hátt í 50 stofnana, félagasamtaka og fyrirtækja sem eru almennt ekki ríkisstofnanir og starfa á heilbrigðissviði samkvæmt þjónustusamningi eða öðrum tengdum greiðslum frá ríkinu. Um 15% af útgjöldum ríkisins til heilbrigðisþjónustu fara til aðildarfélaga SFV. Aðildarfélög SFV mynda samanlagt fjölmennasta vinnustað landsins hjá sjúkraliðum og næst fjölmennasta vinnustað hjúkrunarfræðinga svo dæmi séu tekin.
Kostir og gallar þess að tengjast samtökunum hafa verið skoðaðir undanfarið og er það samdóma álit framkvæmdastjórnar og stjórnar Reykjalundar að þetta geti létt okkur á Reykjalundi lífið við ýmislegt.
Helstu kostir eru aðstoð við hagsmunagæslu að ýmsu tagi og sérfræðiaðstoð í kjarasamningagerð. Þar sjáum við fram á mikla möguleika á tímasparnaði og samlegðaráhrifum. Sem dæmi má nefna að núna í janúar hafa tvö af stærstu stéttarfélögum starfsfólks okkar bent á að SFV séu búin að fá vilyrði frá heilbrigðisráðuneyti fyrir greiðslu kjarabóta fyrir sitt starfsfólk sem við hér á Reykjalundi höfum ekki ennþá náð fram. Ekki síður verður mikilvægt að fá sérfræðiaðstoð í persónuverndarmálum. Við erum þar í góðum málum en glöggt er gests augað og gott er að fá ábendingar og sérfræðiaðstoð frá reynsluboltum ef eitthvað má betur fara.
Við greiðum ekkert aðildargjald þetta árið og metum svo kosti og galla við málið í lok árs.

Þar sem aðstoð í persónuverndarmálum er frekar nýtt fyrir okkur öll fylgir hér áhugaverður kynningartexti frá Gunnhildi Erlu Kristjánsdóttur, persónuverndarfulltrúa SFV og má því segja að hún sé eins konar gestahöfundur í dag.

Að lokum vil ég nú þakka kærlega fyrir kveðjur í ýmsu formi í tilefni að afmæli mínu í vikunni.
Njótið helgarinnar.

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka