12.02.2021

Föstudagsmolar forstjóra 12. febrúar 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðusjúkraþjálfari.
Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon


Reykjalundur 76 ára
Tíminn líður óneitanlega hratt. Við höfum nýverið fagnað 76 ára afmælisbarni ef svo er hægt að segja, en afmælisbarnið er sjálfur Reykjalundur Endurhæfingarmiðstöð SÍBS. Í mannheimum væri Reykjalundur orðinn ellilífeyrisþegi og sennilega farinn að hægja á og huga að efri árum. Því er nú ekki fyrir að fara hjá þessari ágætu stofnun með allan sinn mannauð. Höfundi föstudagsmola Reykjalundar að þessu sinni langar að segja örlítið frá ferlinu við innleiðingu og opnun Innskriftarmiðstöðvar Reykjalundar og undirbúning við rannsóknarsetur í endurhæfingu á Reykjalundi.

Hugmyndavinna
Haustið 2016 hittust formlega fulltrúar allra þjálfunarstétta Reykjalundar þ.e. iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar og íþrótta- og talmeinafræðingar og hófu umræðu um að stofna rannsóknarstofu í hreyfivísindum. Slíka rannsóknarstofu hafði sárlega vantað á Reykjalund en oft verið nefnd manna á milli. Umræðan þótti góð og fór á flug. Stofnaður var með skipunarbréfi frá forstjóra, vinnuhópur að rannsóknarsetri í endurhæfingu á Reykjalundi og staðsetning fyrirhuguð í Norðurstofu við aðalinngang Reykjalundar. Allir faghópar áttu fulltrúa í vinnuhópnum og var strax hafist handa við ýmsa forvinnu. Í samráði við vísindaráð og framkvæmdastjórn voru skipaðir tveir vinnuhópar um hvernig halda mætti utan um öll þau gögn er verða til á Reykjalundi.

Innskriftarmiðstöð Reykjalundar
Til að gera langa sögu stutta þá kviknaði í öllu þessu vinnuferli ný hugmynd hjá hópnum í júní 2018 en hún var að opna innskriftarmiðstöð á Reykjalundi. Hlutverk innskriftarmiðstöðvar skyldi vera að taka á móti skjólstæðingum á göngudeild skömmu fyrir endurhæfingarmat eða innritun í endurhæfingu til að meta andlega, félagslega og líkamlega stöðu þeirra, bæði hlutlægt og huglægt. Þannig mætti skima fyrir ýmsum vandamálum áður en endurhæfing hæfist þannig að íhlutun gæti orðið markvissari frá upphafi. Einnig fengist með þessu móti staðlaðar upplýsingar um stöðu allra skjólstæðinga óháð meðferðarteymi og kæmi þá yfirsýn sem ekki hefur verið til staðar fram að þessu. Tæpu ári eftir að hugmyndin skaut upp kollinum var innskriftarmiðstöð Reykjalundar opnuð sem tilraunaverkefni. Nokkur teymi voru prófuð í einu og var öll leiðin, allt frá bókun skjólstæðinga, móttöku þeirra, svörun á matstækjum og skimunarspurningum, skönnun og yfirfærsla í sjúkraskrá, prófuð og framkvæmd. Einnig voru skjólstæðingar og starfsmenn beðnir um að svara hvernig þeir upplifðu allt ferlið. Um mitt sumar 2019 höfðu öll átta teymi Reykjalundar tekið þátt í verkefninu og almenn ánægja var með þessa nýjung í mati á skjólstæðingum.  Innskriftarmiðstöðin var svo formlega opnuð með vígsluhátíð í Norðurstofu þann 11. desember 2019.

Rannsóknarsetur Reykjalundar
Vinnuhópur að stofnun rannsóknarseturs Reykjalundar í endurhæfingu (RRE) lauk störfum vorið 2020 og afhenti tillögu sína að stofnskrá RRE til Framkvæmdastjórnar Reykjalundar. Hópurinn sá fyrir sér að RRE væri miðstöð rannsókna á sviði endurhæfingar og vettvangur þekkingarmiðlunar og þróunarstarfs á öllum sviðum endurhæfingar. Markmið þess væri að efla og styðja við rannsóknir á sviði endurhæfingar innan og utan Reykjalundar. Einnig að efla og viðhalda gæðum mælinga og mats í klínísku starfi og vísindarannsóknum á Reykjalundi. Nákvæm hlutverkaskrá liggur fyrir, hugmyndir um fjármögnun, svo og tenging við háskóla landsins og aðrar stofnanir sem stunda klínískar rannsóknir í endurhæfingu. Höfuðstöðvar væru við hlið innskriftarmiðstöðvar í Norðurstofu Reykjalundar. Rannsóknir í endurhæfingu beinast að líkamlegu og andlegu heilsufari, félagslegum aðstæðum, forvörnum og öðrum þáttum sem tengjast lífsgæðum. Mælitæki og skráning rannsókna á RRE yrði bæði huglæg og hlutlæg. Stjórn RRE væri mynduð af rannsóknarstjóra og vísindaráði Reykjalundar. Aðild að RRE skyldu allar fagstéttir hafa sem starfa við endurhæfingu á Reykjalundi. Auk þess gætu  aðrir fræðimenn, sérfræðingar, nýdoktorar og háskólanemar tekið þátt í starfsemi RRE. Síðan vinnuhópurinn lauk störfum hefur tekið við ný framkvæmdastjórn og verður spennandi fyrir alla að fylgjast með framgangi verkefnisins á næstu misserum.

Til baka