09.02.2021

Gæðastjórar Reykjalundar

Ágæta samstarfsfólk,

Eins og kynnt var á starfsmannafundi s.l. miðvikudag er mér ánægja að tilkynna að Berglind Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur og Hlín Bjarnadóttir sjúkraþjálfari hafa verið ráðnar gæðastjórar Reykjalundar.

Staða gæða- og fræðslustjóra Reykjalundar hefur verið laus um nokkurt skeið og ákveðið hefur verið að efla gæðamál með þeim hætti að hafa framvegis tvo starfsmenn sem bera titilinn gæðastjóri.

Sú breyting verður að hvort meðferðarsvið hefur einn verkefnastjóra gæða-, teyma og fræðslu í 100% starfi. Starfsheitið er Gæðastjóri M1 og Gæðastjóri M2. Við fyrri starfslýsingu gæðastjóra bætist að hvor gæðastjóri starfar samhliða við öll fjögur teymi meðferðarsviðs síns og sinnir þeim með sambærilegum hætti. Markmiðið er að aðstoða teymin við samræmingu og samþættingu með það að auka skilvirkni og samstarf meðferðarteymanna. Eftir því hefur verið verulega kallað en það kemur meðal annars fram í hlutaúttekt embættis landlæknis frá árinu 2019.

Gæðastjóri er formlegt starf og er hvor gæðastjóri ráðinn af viðkomandi framkvæmdastjóra meðferðarsviðs, sem jafnframt er næsti yfirmaður gæðastjórans.

Gæðastjóri sér um samhæfingu vinnubragða og sambærilega skipulagningu á starfi milli teyma þannig að grunnverklag allra teyma Reykjalundar á báðum meðferðarsviðum sé með samræmdum hætti. Gæðastjóri samræmir fræðslu teymanna í samráði við formann hvers teymis og fagaðila. Báðir gæðastjórar sinna í sameiningu gæðamálum fyrir alla starfsemi Reykjalundar og eru gæðadeild Reykjalundar.

Berglind Gunnardóttir er gæðastjóri meðferðarsviðs 1. Berglind útskrifaðist úr hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2001 og lauk framhaldsnámi í krabbameinshjúkrun frá Háskóla Íslands 2006. Hún hefur einnig lokið eins árs, 32 ECTS eininga námi í Hugrænni atferlismeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands (2009). Berglind hóf störf á verkjasviði Reykjalundar haustið 2015 og hefur verið starfandi teymisstjóri verkjasviðs frá 2019. Hún hefur áður starfað á hjartasviði og Miðgarði hér í húsi. Hún sat í stjórn hjúkrunarráðs á Reykjalundi um árabil og var formaður hjúkrunarráðs á árunum 2017-2019.

Berglind starfaði áður innan heilsugæslu en lengst af starfaði hún á LSH, aðallega krabbameinslækningadeild en einnig á öðrum deildum. Um árabil hafði hún umsjón með deildarkennslu hjúkrunarnema frá HÍ og HA á LSH og hefur starfað sem trúnaðarmaður hjúkrunarfræðinga LSH. Hún sat í stjórn fagfélags krabbameinshjúkrunarfæðinga 2006-2009 sem og stjórn Vesturlandsdeildar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga frá 2011-2014.

Hlín Bjarnadóttir er gæðastjóri meðferðarsviðs 2. Hlín hefur starfað sem sjúkraþjálfari á Reykjalundi frá árinu 1997, þá á taugasviði og Hlein. Frá haustinu 1999 til ársins 2014 starfaði hún á  gigtarsviði sem sviðsstjóri og frá árinu 2014 á greiningarsviði göngudeildar og gigtarsviðs. Frá vorinu 2020 starfaði Hlín á Miðgarði og frá hausti 2020 sem sviðsstjóri á verkjasviði. Hlín hefur einnig starfað í nefndum á sjúkraþjálfunardeild og á húsvísu, nú síðast í undirbúningshópum um endurhæfingu í kjölfar COVID-19 sýkingar og rannsóknar á áhrifum endurhæfingar í kjölfar veikinda eftir COVID-19. Hlín hefur einnig tekið virkan þátt í rannsóknarstarfi á RL.

Frá árinu 2003 hefur Hlín starfað sem stundarkennari í HÍ, verið í verklegri kennslu og dómari í klínískum lokaprófum nema í sjúkraþjálfun. Að auki hefur hún þjálfað fimleika hjá Gerplu, verið í félagsstörfum og verkefnastjórn hjá fimleikasambandinu og kennt á þjálfara- og dómaranámskeiðum FSÍ. Hún hefur unnið að íþróttaþáttagerð hjá RÚV frá árinu 2012, setið í Íþróttaráði Kópavogs og er alþjóðlegur dómari í áhaldafimleikum.

Ég vil óska Berglindi og Hlín til hamingju með nýju störfin og er sannfærður um að framlag þeirra, sem og þessi aukna áhersla hér á Reykjalundi á gæðamál og samvinnu meðferðarteyma, á eftir að vera starfseminni til mikilla hagsbóta!

Pétur Magnússon

Til baka