05.02.2021

Föstudagsmolar forstjóra 5. febrúar 2021

Ágæta samstarfsfólk,

Ég vil byrja á að þakka þeim fjölmörgu ykkar sem höfðuð tök á að sækja starfsmannafund Reykjalundar í vikunni. Vonandi höfðuð þið gagn af en reglulegir starfsmannafundir með framkvæmdastjórn til aukins upplýsingaflæðis, eru án efa af því góða fyrir starfsemina.
Eitt af því sem ég nefndi á fundinum eru hin fjölmörgu tækifæri sem Reykjalundur hefur til að fara í ný verkefni tengd endurhæfingu. Þar eru möguleikarnir ansi margir og því verðum við að velja vel og stíga varlega til jarðar þegar þær brautir eru fetaðar.

Eitt af því sem við hér á Reykjalundi höfum verið að kynna fyrir stjórnvöldum undanfarið eru hugmyndir um að okkur hér á Reykjalundi verði falið að starfrækja tímabundið miðstöð ráðgjafar og stuðnings vegna langvinna afleiðinga Covid hér á landi. Markmiðið er að styðja bata og lágmarka tap á virkni og vinnuþátttöku vegna Covid-19 með ráðleggingum um meðferð og endurhæfingu, forvörnum og heildstæðum stuðningi við starfsendurhæfingu. Þessar hugmyndir byggja á breskri fyrirmynd. Það er Hans Jakob Beck lungnalæknir sem hefur verið prímusmótor í þessari vinnu í samvinnu við Stefán framkvæmdastjóra lækninga og undirritaðan. Fleiri hafa þó sannarlega komið að málum eins og Helgi framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar, enda að mörgu að huga þegar svona verkefni er mótað.
Nú bíðum við svara frá stjórnvöldum um áhuga. Hvort sem þessi hugmynd verður að veruleika eða ekki þá langar mig að nota tækifærið hér í föstudagsmolunum í dag og kynna þessa hugmynd stuttlega fyrir ykkur með eftirfarandi texta sem Hans hefur skrifað í samvinnu við Stefán og mig. Ég vil þó taka fram að verði ráðgjafamiðstöð að veruleika er þessi þjónusta til sérstakrar viðbótar við núverandi þjónustu þannig að sérstök aukavinna á ekki að fylgja inn í núverandi starfsemi.

Reykjalundur gæti veitt fólki með langvarandi Covid einkenni nauðsynlega þjónustu á einum stað:

Meiri háttar heilbrigðisvandamál
Það hefur komið á óvart hve langvarandi eftirköst Covid eru algeng og erfið. Rannsóknir bentu í upphafi til þess að 10% þeirra sem sýkjast ættu í erfiðleikum 6 mánuðum síðar, en virðist vanmat og nær því að vera 25%, eins og fram kom í viðtali við Hilmu Hólm lækni í Vísi 27. janúar.  Rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar sýnir nefnilega að fjórðungur þeirra sem sýktust í fyrstu bylgju faraldursins á Íslandi lýsir nokkrum eða miklum einkennum hálfu ári eftir sýkingu og tólf prósent þeirra búa við lélega eða mjög lélega heilsu. Hér er því um meiri háttar heilsufarsvandamál að ræða sem var áður óþekkt og leggst með þunga á heilbrigðisþjónustu sem fyrir er sliguð af verkefnum. Þar að auki er erfitt að sinna þessum vandamálum í núverandi kerfi. Hvergi er sérþekking á einum stað og sjúklingum þarf að vísa í allar áttir í heilbrigðiskerfinu; til ýmissa sérgreinalækna, sjúkraþjálfara, sálfræðinga. Það sama er upp á teningnum í félagslega kerfinu þegar leita þarf til Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar Ríkisins, Virk starfsendurhæfingar eða félagsþjónustu sveitarfélaganna. Sundrað og flókið kerfi léttir veiku fólki ekki lífið, en við þessu má þó bregðast á fremur einfaldan hátt.

Hér á Reykjalundi er mikil þekking og löng reynsla í þverfaglegri endurhæfingu. Þar starfa sérfræðingar á flestum þeim sviðum læknisfræði og annarra heilbrigðisvísinda og þar er rannsóknaraðstaðan sem þörf er á til að meta sjúklinga með langvinn einkenni Covid.  Með því að jafnframt yrði komið á fót samvinnuteymi heilbrigðis- og félagslegu kerfanna mætti veita heildstæða þjónustu fyrir alla með langvinnan vanda eftir Covid á einum stað, hvar á landinu sem þeir búa. Hér verður nánar sagt frá slíkri hugmynd.

Að nýta fjármagn og sérfræðiþjónustu með sem bestum hætti, samfélaginu til heilla.
Reykjalundur hefur sett fram þá hugmynd að stofnuninni verði falið að starfrækja tímabundið miðstöð ráðgjafar og stuðnings vegna langvinna afleiðinga Covid hér á landi.  Markmiðið er að styðja bata og lágmarka tap á virkni og vinnuþátttöku vegna Covid-19 með ráðleggingum um meðferð og endurhæfingu, forvörnum og heildstæðum stuðningi við starfsendurhæfingu. Byggt á þeirri grundvallaraðferð endurhæfingar að styðja hvern mann til sjálfshjálpar.  Þrír þættir starfseminnar eru í stuttu máli: 1. Mat og ráðgjöf. Eftir tilvísun frá heilsugæslu eða starfsendurhæfingarsjóði verður boðið þverfaglegt mat í þeim tilgangi að meta stöðu og horfur einstaklinga og veita ráðgjöf með áætlun um endurhæfingu og eftir atvikum frekari meðferð eða rannsóknir. 2. Upplýsingamiðstöð. Unnið verði fræðsluefni og rekinn upplýsingavefur með ráðleggingum til einstaklinga sem fengið hafa Covid og veitt ráðgjöf til einstaklinga.  3. Teymi starfsendurhæfingar. Sett verður á fót þverfaglegt teymi skipað fulltrúum þeirra aðila sem fjalla um heilsugæslu, félagslega aðstoð, endurhæfingu og greiðslur til fólks vegna afleiðinga Covid, með því markmiði að stuðla sameiginlega að endurkomu til vinnu.

Með slíkri miðstöð ráðgjafar og stuðnings verður leið fólks að þekkingu, þjónustu og stuðningi einföld og greið. Koma má í veg fyrir óþarfar tilvísanir og rannsóknir og í því felst sparnaður fyrir samfélagið og léttir fyrir fólk sem glímir við erfiðan heilsuvanda. En ekki síst verða horfurnar á endurkomu til fyrri virkni og samfélagsþátttöku betri.

Mikilvægt að hafa yfirsýn og umsjón á einum stað.
Fyrirmyndir að þessari starfsemi má finna í Bretlandi, en rúmlega 40 slíkar ráðgjafastöðvar voru settar á laggirnar þar í lok síðasta árs. Þar var talið mikilvægt að byggja upp þekkingu og reynslu á völdum stöðum fremur en að dreifa þjónustunni og létta um leið álagi af annarri heilbrigðisþjónustu. Á Reykjalund hafa nú þegar um 70 manns komið til endurhæfingar eða endurhæfingarmats vegna langvinnra afleiðinga af Covid og byggir hugmyndin um miðstöð ráðgjafar og stuðnings meðal annars á reynslunni af vanda þessa fólks. Á Reykjalundi er þegar orðin til ákveðin sérþekking á þessu sviði, en eins og bent er á í heilbrigðisáætlun til ársins 2030 er betra að byggja upp þekkingu á einum stað en dreifa kröftunum.

Einstaklingunum fjölgar, mikilvægt að bregðast við.
Miðstöð ráðgjafar og stuðnings vegna langvinnra afleiðinga af Covid hér á landi yrði sjálfstætt verkefni utan við hefðbundna endurhæfingarstarfsemi Reykjalundar og tækifæri til samvinnu heilbrigðiskerfis og félagsmálakerfis um mikilvægt, en tímabundið, verkefni. Það fjölgar nánast daglega í hópi þeirra sem á þjónustunni þurfa að halda og það þarf að bregðast skjótt við. Við á Reykjalundi viljum leggja okkar af mörkum og teljum okkur geta orðið fólki með langvinnan vanda vegna Covid enn frekar að liði.

Góða helgi!
Pétur Magnússon

Til baka