02.02.2021

Samstaða á lokasprettinum

Í Morgunblaðinu í dag birtist þessi grein eftir þá Pétur Magnússon forstjóra og Stefán Yngvason framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi.

Samstaða á lokasprettinum!
Nú eru tæpir 11 mánuðir síðan Covid-smit greindist fyrst hér á landi en það var 28. febrúar í fyrra. Óhætt er að segja að fáum hafi órað fyrir þeim samfélagslegu áhrifum sem veiran hefur haft í heiminum öllum. Sem betur fer hafa undanfarið borist ánægjulegar fréttir undanfarið. Nýlega kom fyrsti dagurinn síðan í september, þar sem enginn greindist jákvæður og aðra daga hafa smittölur verið mjög lágar. Ekki síður hafa jákvæðar fréttir verið fluttar af bóluefnum og bólusetningum þannig að við erum farin að sjá til lands. Það er þó ljóst að bólusetningum á þorra landsmanna lýkur í fyrsta lagi í vor og e.t.v. ekki fyrr en seint á árinu. Þangað til þurfum við að halda áfram sóttvarnarráðstöfunum til að fá ekki nýja bylgju faraldursins. Undanfarið hefur faraldurinn verið vaxandi í mörgum nágrannalöndum okkar þannig að grannþjóðir eins og Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Bretland og Frakkland, svo einhverjar séu nefndar, hafa þurft að glíma við verulega hertar samfélagslegar aðgerðir til að stöðva útbreiðsluna. Sem betur fer höfum við sloppið við slíkt og fyrir það ber að þakka samstöðu og samkennd okkar Íslendinga.

Covid snýst ekki bara um fjölda dauðsfalla og fjölda sjúkrahúsinnlagna
Í umræðunni um Covid er mikilvægt að hafa í huga að veiran veldur ekki bara ótímabærum andlátum og erfiðum veikindum hjá áhættuhópum. Veiran fer ekki í manngreinarálit. Sumir þeirra sem sýkjast og fá jafnvel ekki mikil einkenni, geta samt verið að glíma við eftirstöðvarnar í langan tíma eftir sýkingu. Það er því ekki í boði að leyfa veirunni að leika lausum hala. Enginn vill hafa það á samviskunni að smita aðra manneskju þannig að hún hljóti varanlega skaða af.

Að minnsta kosti 10% sjúklinga virðast fá langvarandi einkenni
Ekki er vitað hvað sá hópur er stór sem fær langvarandi einkenni eftir Covid smit. Þó nákvæmar rannsóknir skorti hafa sérfræðingar erlendis leitt að því líkum að það séu að minnsta kosti 10%. Þessi hópur er að glíma við eftirstöðvar mörgum vikum eða mánuðum eftir sýkingu. Þetta lýsir sér í fjölbreytilegum einkennum svo sem síþreytu, þrekleysi, verkjum og öndunarfæraeinkennum svo dæmi séu nefnd. Merkja má viðhorfsbreytingu hjá almenningi gagnvart smiti síðan í vor. Hjá yngra og miðaldra fólki var hugsunin oft sú að viðkomandi vildi ekki smitast til að verða ekki valdur að því að smita aðra, til dæmis nána ættingja eða vini sem væru í áhættuhópum og gætu orðið alvarlega veikir eða jafnvel dáið. Í dag er vitað að hluti þeirra sem sýkjast geta þurft að glíma við langvarandi einkenni sem leiða til skerðingar á starfsorku og lífsgæðum, jafnvel í mjög langan tíma. Þar sjáum við að frískt fólk, t.d. í yngri kantinum og miðaldra, getur vel lent í þessum hópi. Í fjölmiðlum hér á landi hefur fjöldi fólks á öllum aldri stigið fram og lýst sögu sinni hvað þetta varðar, meðal annars afreksfólk í íþróttum og háskólanemar.

Reykjalundur sinnir endurhæfingu veikustu einstaklinganna
25 manns hafa lokið endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi í kjölfar langvarandi einkenna vegna covid og 30 manns eru nú í meðferð á Reykjalundi vegna langvarandi einkenna eftir Covid. Mjög erfitt er að áætla hversu margir munu þurfa á endurhæfingu að halda eftir að hafa sýkst af Covid. Þess ber að geta að aðeins hluti þeirra sem sýkst hafa af veirunni og glíma við langvarandi einkenni, leitar eftir endurhæfingu á Reykjalundi en yfirleitt eru það veikustu einstaklingarnir sem Reykjalundur sinnir. Ef notuð er einföld tölfræði, sem verður þó að taka mjög varlega, gæti eftirfarandi komið út: Í september 2020 höfðu um 1.900 manns lokið einangrun vegna Covid-smits. Reykjalundur fékk til sín um 70 beiðnir fyrir einstaklinga sem veiktust í fyrstu bylgju, eða um 4 %. Um síðustu áramót (2020/2021) höfðu 5.130 lokið einangrun (rúmlega 3.000 bæst við í annarri og þriðju bylgju). 4% af þeim hóp væru um 115 einstaklingar til viðbótar sem ættu þá að óbreyttu eftir að koma á Reykjalund. Þegar þetta er skrifað eru um 30 manns á biðlista eftir að koma á Reykjalund og í þeim hópi eru einstaklingar sem sýktust í annarri og þriðju bylgju faraldursins.

Stöndum saman á lokametrunum!
Þó tíðni smita hér á landi sé sem betur fer orðin mjög lág verðum við að halda vöku okkar þar til meginþorri landsmanna hefur verið bólusettur. Við verðum að halda áfram að fylgja sóttvörnum og gæta þess að gleyma okkur ekki. Sigurinn er ekki í höfn ennþá þó það styttist sannarlega í hann. Stöndum saman á lokametrunum og klárum þetta saman!

Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar
Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi

Til baka