29.01.2021

Föstudagsmolar 29. janúar 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi.

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er Þórunn Hanna Halldórsdóttir, forstöðutalmeinafræðingur.
Góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon


Þá líður að lokum þessa fyrsta mánaðar ársins. Upphaf árs er tími umskipta, tími þar sem við segjum skilið við gamla árið og bindum vonir við nýja og betri tíð. Margir nýta slík tímamót til þess að setja sér markmið og má ætla að margir horfi nú tilbaka á síðustu vikur með stolti, eða mögulega smá eftirsjá ef markið hefur verið sett of hátt. Ef það er eitthvað sem við þjálfunarstéttirnar þekkjum þá er það markmiðssetning, enda er hún lykillinn að góðum árangri í endurhæfingu. Á það við hvort sem litið er til þjálfunar á tali og máli, líkamstyrk og þoli, andlegrar heilsu eða annarra þátta sem geta bætt okkar færni, virkni og lífsgæði. Að skilgreina markmiðin sín og leiðina þangað getur virst flókið, en reynslan sýnir að það er erfiðara fyrir okkur að fylgjast með árangri (eða skorti á árangri) ef við hoppum yfir það skref og styttum okkur leið. Við þurfum að skilgreina þrepin í átt að betra lífi og gleðjast yfir hverju þeirra sem við náum.

Þegar rætt er um þjálfun og markmið er algengt að fólk sjái fyrir sér ákafa líkamsrækt, stífar matarvenjur og ákveðna tölu á vigtinni. Á Reykjalundi vinnum við að því að víkka út þessa sýn og fáum fólk til að horfa frekar á markmiðin sem leið að bættum lífsgæðum út frá þörfum hvers og eins. Það getur t.d. falið í sér betra jafnvægi í daglegu lífi, aðlögun að skertri færni og hvernig nýta megi stuðning og hjálpartól til að auka virkni og þátttöku. Í mínu fagi snúa markmið oft að því að tjá hugsanir sínar, óskir og langanir og geta sinnt sínum hlutverkum bæði innan og utan fjölskyldunnar. Þegar einstaklingar eiga erfitt með tjáningu, t.d. vegna málstols eða alvarlegs þvoglumælis, er algengt að þeir tali við fáa og að samræðurnar risti grunnt. Því er algengt að fólk í þessari stöðu finni fyrir einmanaleika og sakni dýptar í tengslum við aðra. Þeir geta átt erfitt með að eiga samræður við aðra á hefðbundinn hátt, og þurfa oft meiri tíma og stuðning frá viðmælendum sem þurfa þá að taka meiri ábyrgð á gangi samræðnanna en ella.

Í gær var ég viðstödd meistarapróf Önnu Berglindar Svansdóttur nema í talmeinafræði, en ég var umsjónarkennari verkefnisins. Anna var einmitt í starfsnámi hér á Reykjalundi fyrir ári síðan og kynntist hún þá vel þeim áskorunum sem fólk með alvarlega tjáskiptaskerðingu stendur frammi fyrir. Meistaraverkefnið sem Anna kynnti í gær fjallaði um árangur af viðmælendaþjálfun til starfsfólks á hjúkrunarheimilum. Niðurstöður hennar sýna að 4 klst námskeið, skipt niður á 2 daga, getur breytt viðhorfi starfsfólks til samskipta við fólk með málstol þannig að það stígur frekar inn í samskipti við einstaklinginn, í stað þess að hörfa frá eða hunsa tækifærið af ótta við óþægilegar aðstæður. Niðurstöður sýndu einnig, að með því að ganga inn í samræðurnar fékk starfsfólkið tækifæri til að sjá að einstaklingurinn gat oft meira en talið var. Það sýndi sig einnig að með því að hlusta, gefa sér meiri tíma og nota samskiptastuðning, s.s. látbragð, myndir, rituð orð og teikningar, komu oft fram nýjar upplýsingar og færi á sterkari tengslum. Talþjálfun felur því ekki bara í sér þjálfun á tali og máli einstaklingsins. Hana þarf einnig að nota til að fræða og kenna fólki í nærumhverfi hvernig það getur stutt við samræður og styrkt tengslin þeirra á milli.

Í gildi er samningur á milli HÍ og Reykjalundar sem felur í sér að nemar hafa aðgang að starfsnámi hér, starfsfólk fær leyfi til að sinna kennslu á sínu sérsviði og leiðbeina nemum í rannsóknarverkefnum á sviði endurhæfingar. Í vikunni héldum við talmeinafræðingar kynningu fyrir nema í talmeinafræði í HÍ þar sem við kynntum fyrir þeim fjölbreytt starf talmeinafræðinga hér á Reykjalundi. Nemarnir sýndu starfinu mikinn áhuga og spunnust góðar umræður. Ekki þarf að fjölyrða um gildi þess að hafa góð tengsl við háskólasamfélagið fyrir stofnun eins og Reykjalund, enda eru þarna á ferð verðandi kollegar okkar og samstarfsfólk, upprennandi rannsakendur og í mörgum tilvikum, boðberar mikilvægi þess að setja sér raunhæf markmið sem bæta líðan og lífsgæði.

Að lokum óska ég ykkur, kæra samstarfsfólk og aðrir velunnarar Reykjalundar, góðrar samveru með ykkar fólki um helgina og hvet ykkur til að stíga skrefið þegar þið mætið einstaklingum með skerta tjáskiptafærni. Þeir gætu komið ykkur á óvart!
Meðfylgjandi er mynd tekin við meistarapróf Önnu Berglindar en með á myndinni er Ester Sighvatsdóttir, talmeinafræðingur á Grensási og meðleiðbeinandi verkefnisins. Í meistaranefndinni var einnig Ingibjörg Hjaltadóttir, hjúkrunarfræðingur og dósent við HÍ.

Góða helgi!
Þórunn Hanna Halldórsdóttir

Til baka