22.01.2021

Föstudagsmolar forstjóra 22. janúar 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Gleðilegan bóndadag!
Í dag er bóndadagur, fyrsti dagur hins forna mánaðar þorra. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að bændur skyldu bjóða þorra velkomin með því að fara á fætur fyrstir allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir að vera skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa.
Hvort margir bændur hafi fylgt þessum leiðbeiningum nú í morgunsárið veit ég ekki en ýmsir hafa skapað sér aðrar þorra- og bóndadagsvenjur sem eru kannski hentugri. Þorrablót og önnur gleði eru þó, eins og svo margt annað, í lágmarki þetta árið út af dálitlu.

Átta mánaða starfsafmæli
Á næstunni næ ég þeim merka áfanga að hafa starfað í átta mánuði hér á Reykjalundi. Þetta hefur sannarlega verið lærdómsríkur tími enda mjög spennandi að kynnast ykkur samstarfsfólki og starfseminni.
Það verður þó að segja að blessað Covid hefur truflað ferlið verulega og hvernig ég sá þetta nú allt fyrir mér. Sem stjórnandi tel ég lykilatriði að vera sýnislegur og fara á milli deilda og eininga til að fá tilfinningu fyrir starfseminni, heyra í fólki og kynnast raunverulega því sem er að gerast. Í rauninni má segja að ég held ég þrífist ekkert sérstaklega vel sem stjórnandi ef ég þarf að sitja inni á skrifstofunni minni dag eftir dag þó hún sé mjög fín. Hólfaskipting í starfseminni undanfarna mánuði og samkomutakmarkanir hafa auðvitað haft gríðarleg áhrif á þetta. Fjarfundir hafa þó auðvitað leyst mikið, en í ákveðnum tilvikum koma þeir ekki í stað raunverulegra samskipta. Ég hefði því gjarnan viljað vera kominn á annan stað í starfi mínu á þessum tímapunkti en það þýðir ekki að súta það.
Þegar ég kom til starfa beið umfangsmikið og flókið verk. Að innleiða nýtt skipurit og ýmis verkefni sem tengjast því, ásamt aðlögun sífellt breyttu umhverfi aðila í heilbrigðisþjónustunni. Strax í júní var auglýst ný stjórnunarstaða í framkvæmdastjórn sem mikið hafði verði kallað eftir. Ólíkir aðilar komu að borðinu í nýrri framkvæmdastjórn en nú þegar hópurinn hefur slípast til (ekki síst með ýmsum áskorunum tengdum Covid) og komin með farsæla sýn á málin, er kominn tími til að halda áfram. Við munum í næstu viku kynna nokkur ný skref en annars er það þannig í stjórnun að málin klárast aldrei. Umhverfið er síbreytilegt og þróun er stöðug, svo sífelld aðlögun er nauðsynleg til að halda velli, halda sér í fremstu röð og ekki síst að auka farsæld. Markmiðið er að fá sem mest gæði og þjónustu út úr þeim fjármunum, fólki og húsnæði sem við höfum til umráða. Þetta er auðvitað samvinnuverkefni sem vonandi sem flestir hafa áhuga á og ég lít jákvæðum augum á þetta spennandi verkefni með skemmtilegum starfsmannahópi hér á Reykjalundi.
Hér, rétt eins og alls staðar annars staðar, verður umhverfið aldrei þannig að allir verði ánægðir með allt. Það er því mikilvægt að við sköpum það umhverfi að geta rætt hlutina á samstarfsvettvangi en síðan þarf að taka ákvarðanir og halda svo áfram.

Stytting vinnuvikunnar
Þessa dagana erum við að leggja lokahönd á skipulagningu styttingu vinnuviku hjá flestum ykkar. Vaktavinnufólk klárast því miður ekki strax og ennþá er óljóst með þátt lækna í þessum málum. Aðrir starfsmenn eru að koma málum sínum í ferli og þann 1. febrúar verður fyrsta vinnuvikan með nýjum hætti. Stytting vinnuvikunnar er spennandi verkefni sem auðvitað er hugsað til að nýtast bæði starfsfólki og vinnustaðnum;  þannig að báðir aðilar hafi hag af. Breyting hefur sannarlega áhrif á daglegt líf í vinnunni hjá okkur öllum enda kallar þetta á nýja hugsun sem snýst ekki bara um hvenær við erum að vinna heldur ekki síður hvernig við vinnum og hvernig við nýtum tíma okkar sem allra best. Þungamiðjan í þessu öllu er að hafa sjúklinginn sem hornsteininn í starfseminni. Við þurfum því öll að aðalaga okkur að því að þjónusta við sjúklingana okkar og tíminn með þeim sé alltaf aðalatriðið í starfinu, þó það sé auðvelt að gleyma sér í öllu hinu sem hægt er að gera.
Hér á Reykjalundi höfum við leitast við að koma sem allra mest til móts við óskir starfsmanna og finna þannig farsælustu lausnirnar þó auðvitað verði allt að gerast í náinni samvinnu við stjórnendur. Hver deild og eining er því með eign útfærslu og er það á ábyrgð hvers og eins að fara að settum reglum og bera virðingu fyrir eigin tíma og tíma Reykjalundar.
Ég hlakka til að heyra betur um útfærslunar sem farið verður í. Sjálfsagt þurfum við öll að vera með góðan skammt af þolinmæði í byrjun þar sem búast má við að einhverjir hnökrar komi upp. Þá er eins og áður mikilvægt að vera lausnamiðuð.

Ég er hins vegar sannfærður um að þetta á eftir að ganga vel og gera góðan Reykjalund ennþá betri!

Gleðilegan þorra og góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka