15.01.2021

Föstudagsmolar 15. janúar 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er Guðrún Valdís, hjúkrunarstjóri innskriftarmiðstöðvar og greiningarsviðs.
Ég óska ykkur öllum góðrar og gleðilegrar helgar!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon


Kæra samstarfsfólk,

Mig langar aðeins að ræða það jákvæða við Covid. Margir fóru að hugsa á annan hátt á þessu tímabili þar sem ýmislegt var tekið frá okkur þetta síðastliðna ár. En ég vil meina að margir hafi áttað sig á ýmsum öðrum möguleikum og að við getum bjargað okkur með miklu meira en við höldum.

Ég hef alltaf litið á það sem forréttindi að búa hér í Mosfellsbæ þar sem við erum með öll fellin í kringum okkur og mér finnst fátt skemmtilegra en að fara í fjallgöngur. Þegar líkamsræktarstöðvunum var lokað þurfti fólk auðvitað að bera sjálft meiri ábyrgð á sinni hreyfingu. Margir fóru því meira út að hreyfa sig sem ég tel vera af  hinu góða. Ég á vinkonu sem er búin að búa í Mosó í mörg ár. Hún mætir á hverjum degi í World Class og er í mjög góðu formi. Hún hitti mig einn daginn og sagði, Guðrún hvar eru þessi fell, hvar er til dæmis Úlfarsfell og hvar er Reykjafell, hefurðu einhvern tímann labbað þessi fell? Ég hélt það nú og benti henni að sjálfsögðu á hvar þau væru. Hún fór því að fara upp á Úlfarsfell og var virkilega að kunna að meta þessa hreyfingu. Ég er reyndar enn að hlægja að því þegar hún villtist á leið niður og ætlaði aldrei að koma sér heim. Ég og maðurinn minn fórum í sumar á frábærum sólardegi á 7 fell í þessari röð, Úlfarsfell, Reykjaborg, Þverfell, Reykjafell, Æsustaðarfjall, Mosfell og Helgafell. Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegur dagur og verður vonandi endurtekinn næsta sumar. Seinna fórum við svo á Grímansfell þar sem það var eina fellið sem eftir var.

Á facebook var stofnaður hópur í sumar þar sem fólk átti að skrá ef það fór upp á eitthvað fell og setja mynd af sér við það. Mér finnst þetta mjög jákvætt og hvetjandi. Ég er ein af þeim sem er ekki mikið fyrir World Class og áður en ég uppgötvaði bestu æfingastöð landsins, Kettlebells hér á Engjaveginum var Reykjafellið og langir göngutúrar mín líkamsrækt sem gaf mér miklu meira en hlaupabretti. Góður vani er auðvitað ekkert til að kvarta yfir, en það er líka svo gott að breyta aðeins til og sjá það sem er við hliðina á okkur og hvernig við getum nýtt okkur það. Við í æfingahópnum mínum tókum okkur líka til og hittumst í litlum hópum og æfðum saman þannig, þar sem það er alltaf mjög hvetjandi og miklu skemmtilegra að hafa æfingafélaga heldur en að vera hver í sínu horni heima. Að mínu mati gerir hreyfing líka jafn mikið fyrir andlega líðan og líkamlega. Hver hefur ekki þurft á því að halda á þessum undarlegu tímum?

Mér fannst Covid líka kenna okkur að slaka aðeins á. Tel nú að flestir kannist við brjálæðið í nóv og des þar sem allir þurfa að hitta alla vinahópa, fara á tónleika, jólahlaðborð og helst eina aðventuferð til útlanda. Þeir sem eiga börn kannast við að þurfa á nokkra viðburði með hverju þeirra og allt þarf þetta nú að smella og passa saman. Þetta var gert með öðrum hætti núna. Jólahlaðborðin voru keypt heim. Fjölskyldan sat saman og horfði á jólatónleikana heima í stofu og börnin fengu að syngja, skreyta piparkökur og drekka sjálf sitt kakó í skólunum án þátttöku foreldra í þessu öllu. Desember var sem sagt kærkomin hvíld hjá mörgum okkar og bara nokkuð kósí. Held að það eina sem kvartað var yfir á mínu heimili var að það var ekkert jólaball í vinnunni hennar mömmu.

Bestu kveðjur og góða helgi,
Guðrún Valdís

Til baka