04.12.2020

Föstudagsmolar forstjóra 4. desember 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Jólahald á Reykjalundi
Þar sem í dag eru bara 20 dagar til jóla er alveg orðið tímabært að ræða jólahald hér á Reykjalundi. Eins og allir þekkja verða jólin 2020 ólík venjubundnum jólum hjá okkur flestum og svo er einnig hér á Reykjalundi. Það er því vel við hæfi að myndin sem fylgir molunum í dag sé af nýjasta jólatrésskrautinu (fengin að láni á vefsíðu á netinu, sjá slóðina neðst).
Af sóttvarnarástæðum, verður því miður ekki hægt að halda hefðbundinn jóladansleik Reykjalundar fyrir börn, barnabörn og okkur starfsfólk frekar en annars staðar og fellur jólaballið því niður þetta árið. Af sömu ástæðu fellur einnig niður jólafundur starfsfólks sem vera átti í hádeginu 16. desember ásamt hinu hefðbundna jólahlaðborði mötuneytis Reykjalundar sem alla jafna er haldið í byrjun desembermánaðar. Í staðinn ætlum við þó að bjóða upp á jólaglaðning með öðrum hætti í hádeginu þennan dag og verður það kynnt sérstaklega þegar nær dregur – endilega takið því hádegið 16. desember frá. Jólakonfekt mun berast um húsið en þó með breyttu sniði en venjulega. Jólabasar iðjuþjálfunar verður haldinn á netinu þetta árið (það er búið að opna!) og verður spennandi að fylgjast með hvernig það gengur.
Jólagjöf Reykjalundar til starfsfólks verður þó óbreytt frá því sem áður hefur verið ákveðið – Reykjalundur mun gefa ykkur starfsfólki frídaga milli jóla og nýárs, en í ár eru þetta þrír virkir dagar (28.-30. desember) auk aðfangadags og gamlársdags þar sem við höfum einnig lokað. Undantekning frá þessu er starfsfólk Hleinar sem mun fá flottar matarkörfur að gjöf í svipuðum dúr og síðustu ár, en þar getum við eðli málsins samkvæmt ekki lokað starfseminni.

Allt á fullu á Reykjalundi fram að jólum en lokað er milli jóla og nýárs.
Í framhaldi af þessu er rétt að minna á mikilvægi þess að halda fullum dampi í starfseminni nú í desember, alveg fram á Þorláksmessu. Eins og allir þekkja höfum við á Reykjalundi þurft að gera töluverð meðferðahlé hjá sjúklingum dag- og göngudeilda á þessu ári með tilheyrandi truflunum á endurhæfingameðferðum og skerðingu þjónustu mikils fjölda sjúklinga. Biðlistar inn á Reykjalund hafa aldrei verið lengri í 75 ára sögu Reykjalundar. Ágæta samstarfsfólk - Í ljósi þessa vil ég biðla til ykkar um að hafa í huga mikilvægi þess að nýta alla daga ársins sem eftir eru í starfseminni og halda öllu starfi á fullum krafti alveg fram á Þorláksmessu. Jafnframt er mikilvægt að þegar starfsemi hefst aftur, þann 4. janúar, að búið sé undirbúa vel svo húsið sé fullt strax á fyrsta degi.

Unnið að skýrslu um Reykjalund og Covid smit
Í byrjun nóvember var kynnt skýrsla Landspítala um Covid-sýkingarnar á Landakoti. Reykjalundur er ein þeirra heilbrigðisstofnanna sem tóku við sjúklingum frá Landakoti og talið er að smit hér á Reykjalundi megi rekja þangað. Þrátt fyrir að Reykjalundur sé endurhæfingarstofnun, fóru Landspítali og heilbrigðisráðuneyti fram á það við Reykjalund, í upphafi þriðju bylgju faraldursins að taka við 10 sjúklingum með færni- og heilsumat frá Landspítala, til að létta á starfsemi spítalans sem stefndi í neyðarstig. Þann 16. október komu svo fyrstu sjúklingarnir frá Landspítala, meðal annars af Landakoti, en allir þessir sjúklingar lögðust inn á Miðgarð. Covid-smit komu fram nokkrum dögum síðar hér hjá okkur. Vegna þessa þurfti að gera meðferðarhlé hjá öllum þjónustuþegum dag- og göngudeilda Reykjalundar tímabilið 26. október til 17. nóvember og hefur þessi lokun haft veruleg áhrif á endurhæfingarmeðferðir hátt í annað hundrað sjúklinga og auðvitað dagleg störf nánast allra starfsmanna Reykjalundar.
Framkvæmdastjórn hefur falið Mörtu Guðjónsdóttur rannsóknarstjóra að taka saman skýrslu um þetta mál hvað varðar Reykjalund. Ætlunin er að fá fram lýsingu á atburðum í réttri tímaröð en skoðaðir verða þættir eins og öryggi sjúklinga og starfsmanna, undirbúningur, mönnun, húsnæði, smitvarnir o.fl. Sérstaklega er óskað eftir að skoðuð verði helgin 23.-25. október en þá þurfti með mjög skömmum fyrirvara að fá inn aðra starfsmenn í húsinu til að vinna á Miðgarði þar sem flestir starfsmenn deildarinnar voru settir í sóttkví með engum fyrirvara. Skoða þarf einnig hvort einhver eftirköst hafa orðið fyrir starfsmenn.
Vonast er til að skýrslan verði tilbúin um miðjan desember.

Góða helgi!
Pétur Magnússon

Til baka