02.12.2020

Nýr samningur um Hlein undirritaður

Sambýlið Hlein, sem staðsett er við Reykjalund, er heimili fyrir ungt fólk sem fatlast hefur vegna sjúkdóms eða slyss. Á Hlein er búið allan ársins hring og stunda íbúar þar þjálfun á Reykjalundi eftir þörfum og getu hvers og eins. Íbúar Hleinar sækja einnig námskeið í Fjölmennt. Atvinnuþjálfun og félagslegi þátturinn skipa stóran sess í markmiðum deildarinnar og er öll umönnun íbúa einstaklingshæfð.

Nýlega undirrituðu Reykjalundur og Sjúkratryggingar Íslands nýjan þjónustusamning um starfsemina. Samningurinn er til tveggja ára og er þar með starfsemin tryggð í sambærilegu formi og verið hefur þann tíma. Við á Reykjalundi erum ánægð með samninginn en helsta breytingin er að nú er komin inn kröfulýsing með samningnum sem skilgreinir betur hvaða þjónustu á að veita en gott er fyrir alla aðila að slík lýsing sé til hvort sem það eru íbúarnir sjálfir, aðstandendur þeirra, Reykjalundur, starfsfólk eða heilbrigðisyfirvöld.

Húsnæði Hleinar var byggt á árunum 1990-1992 að stórum hluta fyrir söfnunarfé sem Lionshreyfingin aflaði með sölu á rauðu fjöðrinni. Íbúar fluttu inn í húsið árið 1993. Húsnæðið er að fullu í eigu SÍBS, eiganda endurhæfingarmiðstöðvarinnar að Reykjalundi. Þetta heimili er því rekið sem ein deild út frá Reykjalundi.

Til baka