27.11.2020

Föstudagsmolar forstjóra 27. nóvember 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Um leið og ég sendi sjúkraliðum bestu kveðjur í tilefni af Evrópudegi sjúkraliða í gær kemur hér hugvekja frá mér í upphafi aðventu, sem föstudagsmolar dagsins.

Aðventan og jólin eru árstími sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þetta er árstími sem ég bíð alltaf spenntur eftir og ég reyni að njóta „alveg í botn“ eins og sumir myndu orða það.
Reyndar tapaði ég dálítið aðventuspenningnum þau 5 ár sem ég var við nám í Háskóla Íslands á sínum tíma. Þá voru í gildi þær skemmtilegu reglur að hafa mikið og stórt prófatímabil í desember. Oftast var maður ekki búinn í prófum fyrr en 20. eða 21. desember. Skiljanlega þurfti maður á þessu prófatímabili að einbeita sér að prófunum. Þá reyndi maður að útiloka aðventuna og jólin á meðan til að tapa ekki athyglinni frá námsefninu. En að loknu síðasta prófinu þurfti maður svo að ná upp jólaskapinu á undrastuttum tíma, oft aðeins 3-4 dögum. Það tók mig mörg ár að jafna mig eftir þetta, það er að geta verið alveg afslappaður og farið að koma mér í jólaskapið smátt og smátt í byrjun aðventunnar. Fyrstu árin eftir háskólanámið fannst mér nefnilega að ég væri eitthvað að svíkjast undan ef ég hlustaði á jólalög og hugsaði mikið um jólin.

En hvað er jólin?
Auk þess að vera hátíð ljóss og friðar, góðmennsku og fyrirgefningar, eru jólin í mínum huga hátíð fjölskyldunnar og síðast en ekki síst hefða. Flestir sem maður talar við um jólin koma upp með orðið „hefðir“ fljótlega í samtalinu – „þetta var alltaf svona hjá okkur þegar ég var krakki....“
Mín fjölskylda vill hafa allt í frekar föstum skorðum, þó alltaf megi gera smá breytingar. Okkur finnst samt mikilvægt að viðhalda hátíðleika og gera aðfangadagskvöld ólíkt öllum öðrum kvöldum ársins.
Ein af hefðum okkar er að fara í kirkju kl 18 á aðfangadagskvöld. Mér finnst þetta nokkurn veginn vera það sem „hringir inn jólin“. Þegar ég var barn var þetta rosalega pirrandi siður því þetta seinkaði borðhaldi jólanna um meira en klukkutíma miðað við flesta vini mína þannig að það var langt liðið á kvöld þegar hægt var að fara að opna pakkana - en alveg síðan ég var unglingur hefur þetta verið nauðsynlegur siður.
Pabbi sagði oft sögu af mér þegar ég var 7-8 ára. Hann var þá bæjarstjóri á Akranesi. Þegar við vorum að klæða okkur í jólafötin á aðfangadag og undirbúa okkur fyrir að fara í messu, bað ég hann að koma inn í stofu til að ræða við mig alvarlegt mál. Samtalið var um það bil svona:
Ég: Ertu þú ekki bæjarstjóri hér?
Pabbi: Jú.
Ég: Ræður þú þá ekki öllu?
Pabbi: Kannski ekki öllu en ég stjórna ýmsum málum.
Ég: Má ég þá ekki biðja þig að gefa mér þá auka jólagjöf að hringja í prestinn núna strax og skipa honum að þessi jól verði messan bara í 10-15 mínútur??

Eins og ég nefndi fyrr, var þetta rosalega pirrandi siður þegar ég var lítill með messuferðina kl 18 á aðfangadagskvöld, en alveg síðan ég var unglingur hefur þetta eiginlega alveg verið nauðsynlegt svo það komi jól. Sama er með börnin mín. Eldri sonurinn á heimilinu var varla orðinn unglingur þegar hann fór sjálfskipaður í það að sannfæra yngri systkini sín um að þetta væri mikilvægur jólasiður þegar þau voru að kvarta undan jólamessuferðunum á aðfangadagskvöld. Strax er farið að ræða á heimilinu hvernig aðfangadagskvöldið verði eiginlega þetta árið þegar líklegt er að við getum ekki farið í messu kl 18 á aðfangadag vegna samkomutakmarkana.

Önnur saga sem sögð hefur verið af mér tengd jólum, gerðist þegar ég var 5 ára gamall og kallaði pabba á eintal á aðventunni.
Ég: Pabbi, það er alltaf verið að spyrja mig hvað ég ætla verða þegar ég verð stór. Ég hef aldrei vitað það en nú er ég loksins búinn að ákveða það.
Pabbi: Já - Hvað ætlar þú að verða?
Ég: Auðvitað ætla ég að verða jólasveinn! Það er besta starf í heimi – skilurðu – maður fær frí í 11 mánuði á ári!

Þó hefðirnar séu mikilvægar er ein sú hefð sem ég breytti þegar ég fór að halda jól sjálfur. Ég þoldi ekki hvað foreldrar mínir keyptu alltaf lítið jólatré. Ég ákvað snemma að þegar ég réði yrði það regla að jólatéð yrði að vera stærra en ég sjálfur. Við fjölskyldan höfum náð því síðustu 20-25 árin. Einnig höldum við jólaboð á jóladag fyrir stjórfjölskylduna þar sem við höldum stutt jólaball, göngum í kringum tréð og förum í einhverja leiki. Skemmtileg hefð sem allir hlakka til, sérstaklega krakkarnir. Fullorðna fólkinu finnst skemmtilegast að ganga í kringum tréð, miklu skemmtilegra en börnunum.
Í einu slíku boði þegar við vorum að ganga í kringum jólatréð voru tveir unglingar í fjölskyldunni að tala saman. Þar flaug þessi merka setning sem er rifjuð upp á hverju ári:
„Í flestum fjölskyldum er kannski ein skrýtin frænka eða frændi – í okkar fjölskyldu eru eiginlega allir stórskrýtnir!“

Nú þegar aðventan er að ganga í garð með sinni ljósadýrð og óm af fallegum jólasöng þá eru margir sem ráða sér vart fyrir gleði. Þegar jólin nálgast þá magnast upp gleði og spenna hjá mörgum, en við þurfum að hafa í huga að á sama tíma líður kannski ekki öllum jafn vel. Þetta er sá tími ársins sem við rifjum upp minningar og hefðir - og ýmsar tilfinningar vakna. Þeir sem hafa misst ástvin eru kannski að upplifa sorgina og eru að breyta hefðum kringum jólin – oft eru þetta breytingar á jólasiðum sem fólk vill ekki gera en verður að gera.
Höfum þetta bak við eyrað; þó gleðin eigi að sjálfsögðu að ríkja þarf líka að muna að sýna kannski aðeins meiri nærgætni og hlýju á þessum tíma.
Verum dugleg að hlúa að hvort öðru. Njótum samverustundanna við hvort annað og fjölskyldur okkar eins og hægt er eða að minnsta kosti verum í sambandi í mynd eða síma.
Það er alveg ljóst að þessi jól verða óvenjuleg og það verðum við að sætta okkur við.
Eitt breytist þó ekki og það er að gleði og bros smita og veita hlýju til annarra!

Gleðilega aðventu og góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka