20.11.2020

Föstudagsmolar forstjóra 20. nóvember 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Velkomin aftur!
Í síðustu viku var kynnt skýrsla Landspítala um Covid-sýkingarnar á Landakoti. Er Reykjalundur ein þeirra heilbrigðisstofanna sem tóku við sjúklingum frá Landakoti og talið er að smit hér á Reykjalundi megi rekja þangað. Þrátt fyrir að Reykjalundur sé endurhæfingarstofnun, fóru Landspítali og heilbrigðisráðuneyti fram á það við Reykjalund, í upphafi þriðju faraldursins að taka við 10 sjúklingum með færni- og heilsumat frá Landspítala, til að létta á starfsemi spítalans. Sjúklingar í þeim hópi hafa ekki áður verið á Reykjalundi eins og þið sjálfsagt þekkið. Um miðjan október komu svo fyrstu sjúklingarnir frá Landspítala, meðal annars af Landkoti, en allir þessi sjúklingar lögðust inn á Miðgarð. Covdi-smit komu fram nokkrum dögum síðar. Alls sýktust á 10 daga tímabili 21 einstaklingur tengt Miðgarði í þessu smiti, 13 sjúklingar og átta starfsmenn. Rúmlega 30 aðrir starfsmenn fóru í sóttkví vegna málsins.
Vegna þessa hefur þurft að gera meðferðarhlé hjá öllum þjónustuþegum dag- og göngudeilda Reykjalundar tímabilið 26. október til 17. nóvember og hefur þessi lokun haft veruleg áhrif á endurhæfingarmeðferðir hátt í annað hundrað sjúklinga. Í síðustu viku var meðal annars allt húsnæði Reykjalundar sótthreinsað sérstaklega.
Það er sannarlega ánægjulegt að starfsemi Reykjalundar sé komin á fullt aftur þó hún sé með verulega breyttu sniði.
Ágæta samstarfsfólk, velkomin aftur til baka!

Vísindadagur Reykjalundar er í dag!
Í dag höldum við Vísindadag Reykjalundar hátíðlegan. Vísindadagurinn er sannarlega ein af skrautfjöðrunum í hatti Reykjalundar enda viljum við vera í fararbroddi endurhæfingarstarfsemi hér á landi. Vísindadagurinn er með óvenjulegu sniði þetta árið og verður streymt á Facebook í fyrsta sinn. Því miður er það svo, vegna ítrekaðra meðferðarhléa undanfarið, að okkur er ekki stætt á að fella niður meðferð sjúklinga á morgun vegna Vísindadagsins og því verður dagskráin tekin upp svo starfsmenn geti horft síðar ef þeir hafa ekki tök á að horfa beint.
Vonandi geta þó sem allra flestir notið dagsins en dagskrána er að finna á Facebook síðunni okkar og á heimasíðunni: https://www.reykjalundur.is/visindi/visindadagur/. Þar eru líka ágripin.
Gerður hefur verið atburður á Facebook síðu Reykjalundar og þar verður hægt að horfa streymið. Eins og áður segir verður dagskráin tekin upp til notkunar innanhúss, þ.e. fyrir þá starfsmenn sem ekki geta tekið þátt á rauntíma. Upptökurnar verða til áhorfs í viku eftir útsendingu en eytt svo. Marta rannsóknastjóri er á myndinni með molunum í dag en hún var kampakát í morgun að leggja lokahönd á daginn.
Vonandi ná sem allra flestir að njóta – gleðilegan Vísindadag!

Takk fyrir ágætu starfsmenn!
Undanfarnir mánuðir hafa verið mjög óvenjulegir og við hér á Reykjalundi þurft að takast á við fjölda áskorana í okkar lífi og starfi. Samvinna og samheldni okkar allra hefur verið í fyrirrúmi þannig að við höfum fundið farsælar lausnir á þessum einstöku tímum. Við höfum sýnt mikla útsjónarsemi, þrautseigju og æðruleysi og náð að halda starfsemi Reykjalundar gangandi og þannig lagt okkar að mörkum til samfélagsins á mikilvægan hátt.
Í vikunni fengu starfsmenn Reykjalundar afhenta gjöf frá Reykjalundi sem tákn um þakklæti fyrir sitt framlag í baráttunni - sem við kunnum virkilega að meta. Allir starfsmenn fengu afhent lambalæri til að njóta með sínum nánustu eða gefa áfram. Starfsmenn Miðgarðs og þeir sem komið hafa þar að málum fengum svo smávægilegt dekur því til viðbótar.
Án framúrskarandi fólks (= ykkar) væri þetta ekki hægt og fyrir það ber að þakka. Með samvinnu og samheldni munum við sigrast á þessu mótlæti!

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka