13.11.2020

Föstudagsmolar 13. nóvember 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er stjórn Stafsmannafélags Reykjalundar.
Njótið vel og góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon


Gangið hægt um gleðinnar dyr.

Í dag er föstudagurinn þrettándi sem í gegnum tíðina hefur verið talinn óhappa dagur. Talan 13 er oft tengd við ógæfu og segja má að þetta ár hafi verið frekar ógæfusamt að mörgu leyti. Það má þó ekki gleyma öllu því góða sem gerst hefur á þessu ári. Til dæmis vann Brad Pitt sinn fyrsta óskar, fuglaskoðun hefur aldrei verið vinsælli og náttföt og kósýgallar eru orðin ásættanlegt tískuval allan daginn, alla daga. Jólin nálgast líka óðum og þar er talan 13 svo sannarlega gleðileg og heppileg. Við eigum 13 jólasveina sem gleðja börnin í 13 daga og stytta þannig langa bið eftir jólunum. Þrettán dögum eftir jól höldum við að lokum upp á þrétttándann og kveðjum þannig jólin.

Eitt af því sem við höfum þurft að venja okkur við og æfa okkur í á þessu ári er notkun fjarfundabúnaðar. Starfsmannafélagið er að reyna að aðlagast breyttum aðstæðum og bauð til að mynda uppá fjarbingó í sumar. Einnig stóð til að hafa pubquiz í afmælisvikunni en það bíður betri tíma. Við erum að skoða fleiri viðburði sem hægt er að hafa í gegnum fjarfundabúnað og allar hugmyndir eru vel þegnar.

Við höfum ekki ennþá haft tækifæri til að halda aðalfund okkar þetta árið en byrjum vonandi árið 2021 á honum. Við viljum nota tækifærið og auglýsa eftir skemmtilegum (ekki skylda), hugmyndaríkum (skylda) og tæknivæddum (hægt að læra) einstaklingum til að taka þátt í starfinu með okkur. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Thelmu, formann starfsmannafélagsins.

Covid hefur sett allan heiminn á hliðina og þrátt fyrir að Ísland sé ekki “stórasta land í heimi” höfum við fengið að finna fyrir því hér á Reykjalundi. Á þessu tíma erum við að upplifa mismunandi tegundir álags. Hópur starfsmanna er undir auknu álagi og hefur verið að vinna meira en venjulega og undir meira álagi á meðan aðrir starfsmenn hafa minna að gera og upplifa jafnvel að þeir séu ekki að skila sínu. Okkur datt því í hug að að taka saman 13 ráð til að minnka streitu:

 1. Hafið góða svefn rútínu og passið að sofa alltaf nóg.
 2. Horfið/hlustið á fyrirlestur Geir Gunnars og nærið ykkur vel.
 3. Gerið æfingar í boði sjúkraþjálfara og íþróttafræðinga Reykjalundar sjá hér.
 4. Farið út að ganga, sjá hér kostina við það.
 5. Slakið á, hér eru góð ráð til þess.
 6. Hugleiðið, hér eru upplýsingar um hugleiðsluöpp.
 7. Ræðið við fjölskyldu og ástvini um líðan ykkar.
 8. Setjið upp jólaljósin ykkar.
 9. Stundið áhugamálin ykkar eða finnið ykkur nýtt og spennandi.
 10. Hlægið, því hlátur lengir lífið.
 11. Prófið nýjar mataruppskrift.
 12. Hlustið á ráðleggingar Rúnars Helga og hlúið að andlegri líðan.
 13. Hefjist handa við jólaföndrið, hér eru hugmyndir.

Geðgóða og viðburðaríka helgi til ykkar allra
Stjórn starfsmannafélagsins

Til baka