16.10.2020

Föstudagsmolar forstjóra 16. október 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er Guðbjörg Gunnarsdóttir, mannauðsstjóri.
Njótið vel og góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon


Kæra samstarfsfólk,

Nú þegar tekið er að hausta og veturinn farinn að minna á sig er ef til vill sérstakt að ég líki starfsmönnum Reykjalundar við Kameljón. Kameljón lifa einungis á hlýjum búsvæðum og skipta lit fyrir áhrif af hita, birtu og geðbrigða, ekki vegna lita í umhverfinu eins og margir halda. Ég læt einmitt mynd af kameljóni fylgja með til gamans.

Starfsmenn Reykjalundar hafa sýnt svo um munar að þeir búa yfir mikilli hæfni til aðlögunar og geta brugðist hratt við breyttum aðstæðum, þó þeir skipti ekki lit í orðsins fyllstu merkingu. Skýrasta dæmi þess er þegar við byrjuðum að taka á móti Post-Covid sjúklingum síðastliðið vor. Starfsmenn voru reiðubúnir til að snúa bökum saman, óháð stétt og stöðu og létu allir sem einn hlutina einfaldlega ganga upp. Við vonuðum auðvitað þá að veiran fjaraði jafnt og þétt út, sem og hún gerði um stundarsakir en hún hefur heldur betur sótt í sig veðrið á ný.

Aftur standa starfsmenn Reykjalundar frammi fyrir breytingum á störfum sínum og aftur mætum við skilningi, velvilja og samvinnu allra sem til er leitað.

Samheldni er sannarlega orðið sem mér dettur fyrst í hug varðandi aðkomu starfsmanna að verkefnum okkar undanfarna mánuði. Við höfum sýnt og sannað að samtakamáttur og jákvætt viðhorf er það sem skilar okkur mestum árangri. Ég tel vel við hæfi að hrósa starfsmönnum Reykjalundar fyrir lipurð og samheldni í þessu samhengi.

Á dögunum var kynntur samskiptasáttmáli Reykjalundar. Í honum er að finna stikkorð sem líkja má við boðorðin tíu þó þau telji níu í sáttmálanum. Fyrsta orðið er VIÐMÓT. Öll erum við svo heppin að geta valið okkur það viðmót sem við kjósum að sýna náunganum. Þá gildir einu hvort það er gagnvart samstarfsfólki, sjúklingum, fjölskyldu, vinum eða ókunnugum.

Það er oft sagt að viðmót skapi viðmót. Ég held að það sé mikið til í því. Ef við temjum okkur jákvætt viðmót í daglegu lífi, er ekki nóg með að líf okkar verður bjartara, heldur glæðum við líf annarra birtu og gleði um leið. Það eru oftast litlu hlutirnir sem skipta þar mestu máli, að bjóða góðan dag, brosa í stað þess að horfa niður á tær okkar, gefa okkur tíma til að hlusta og láta okkur yfir höfuð vera annt um annað fólk.

Við erum öll allskonar og við fögnum fjölbreytileikanum. Öll berum við poka á baki okkar sem í er allskonar dót sem ekki er endilega sýnilegt öðrum. Sýnum tillitsemi, sýnum aðgát og umfram allt, berum virðingu fyrir hvert öðru, líka þegar við erum ósammála. Kurteisi kostar ekki peninga og kurteisi spyr hvorki um stétt né stöðu. Einungis við sjálf getum valið okkur viðmót í daglegum samskiptum.

Framundan eru spennandi tímar á Reykjalundi. Með áframhaldandi samheldni og jákvæðni munu starfsmenn Reykjalundar sem endranær, vinna að og lyfta grettistaki í málefnum endurhæfingar á Íslandi. Við erum flaggskip endurhæfingarinnar og sjaldan hefur þörfin verið meiri en einmitt núna fyrir alla þá þekkingu og hæfni sem finna má í okkar húsum.

Það eru forréttindi að fá að tilheyra jafn flottum hópi starfsmanna og raun ber vitni.

Í lokin læt ég fylgja spakmæli sem eiga alltaf svo ansi vel við.

„Kærleikurinn er sterkasta aflið sem til er í heiminum og þó jafnframt hið hógværasta sem unnt er að hugsa sér.“ – Mahatma Gandhi

Megi helgin verða ykkur öllum góð, áfram við og áfram Reykjalundur.

Kær kveðja,

Guðbjörg


Mynd:
https://en.wikipedia.org/wiki/Chameleon og
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=51714
sótt 16/10 2020

Til baka