25.09.2020

Föstudagsmolar forstjóra 25. september 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Covid litar starfsemina enn og aftur – 79 starfsmenn Reykjalundar í sóttkví
Það er óhætt að taka undir með þeim sem tala um fordæmalausa tíma í samfélaginu þessa dagana. Nú í vikunni hefur öll dag- og göngudeildarstarfsemi hér á Reykjalundi legið niðri og önnur starfsemi verið takmörkuð. Þetta ástand kemur ekki til af góðu þar sem Covid-smit greindust meðal starfsfólks og skjólstæðings okkar fyrir rúmri viku. Leiddi þetta til þess að 79 starfsmenn og nemar okkur tengdir, fóru í sóttkví af einhverju tagi þegar mest var. Flesta aðra starfsmenn vildum við hafa tímabundið samhliða heima til að kveða niður þessa óværu. Á meðan var lágmarksstarfsemi í gangi og starfsfólk ræstingar gat tekið til hendinni í húsinu með þrif og sérstakar sóttvarnir í huga.
Það verður að teljast einsdæmi í 75 ára sögu Reykjalundar að starfsemin sé sett í hlé í langan tíma vegna sýkingar og smita. Ákvörðun sem þessi er auðvitað þungbær en í þessari stöðu er ég sannfærður um að þetta var það langbesta í stöðunni og gríðarlega mikilvægt að ná markvissum tökum á ástandinu sem fyrst.
Ég vil nota þetta tækifæri og senda batakveðjur til þeirra úr okkar hópi sem hafa veikst. Einnig ber að þakka fyrir skjót og markviss viðbrögð hjá þeim stóra hóp sem fór í sóttkví og annara sem þurftu að sveigja til sitt daglega líf. Jafnframt vil ég senda góðar kveðjur til þeirra sem staðið hafa vaktina nú í vikunni eins og starfsfólks Miðgarðs, Hleinar, ræstingar, eldhúss og á skrifstofunni og móttöku.

Endurhæfing í fréttunum
Nánast allir fjölmiðlar hafa fjallað um ofangreindar hrakningar okkar vegna Covid. Það hefur verið gert af virðingu og án æsifrétta og tel ég slíkan fréttaflutning til góða fyrir okkur enda mikilvægt að skilaboðin um meðferðarhlé hjá okkur berist til skjólstæðinga okkar og aðstandenda þeirra. Ég tel einnig gott fyrir ímynd Reykjalundar að við sýnum samfélaginu með skírum hætti að við tökum á málum með skipulagi og vönduðum vinnubrögðum. Jákvætt er einnig að Reykjalundur hefur verið töluvert í fréttum í vikunni vegna endurhæfingarstarfsemi. Meðal annars var viðtal við Ingu Hrefnu sálfræðing um að eftirköst COVID-19 eru ekki síður sálræn en líkamleg. Í Fréttablaðinu í gær var svo heil opna tileinkuð endurhæfingarstarfseminni hér á Reykjalundi og er þar að finna stutt viðtöl við Báru iðjuþjálfa, Ásdísi sjúkraþjálfara, Karl Kristjáns lækni, Örnu í HL-rannsókn og Ingibjörgu deildastjóra á Miðgarði. Hvet ykkur endilega til að kíkja á þetta.
Í vikunni boðaði svo heilbrigðisráðherra 200 milljónir króna framlag í aukna endurhæfingu og hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að semja um þessi mál, meðal annars fyrir fólk sem glímir við eftirköst í kjölfar veikinda af völdum COVID-19 en einnig fyrir þá sem eru á biðlista eftir endurhæfingu af öðrum ástæðum. Ég vil geta þess að þessir fjármunir sem hafa síður en svo verið eyrnamerktar Reykjalundi eins og mætti skilja af einhverjum fréttaflutningi en auðvitað munum við skoða vel hvort við séum ekki áhugaverður aðili til að koma að þessum málum með einhverjum hætti.

Bara 90 dagar til jóla - Jólagjöf Reykjalundar til starfsfólks
Þar sem aðeins eru 90 dagar til jóla í dag, held ég að það sé allt í góðu að afhjúpa um jólagjafir Reykjalundar til ykkar starfsfólks. Rétt eins og síðustu ár hefur verið ákveðið að gefa starfsfólki frídaga milli jóla og nýárs en í ár eru þetta þrír virkir dagar (28.-30. desember) auk aðfangadags og gamlársdags þar sem við höfum einnig lokað. Undantekning frá þessu er starfsfólk Hleinar sem mun fá flottar matarkörfur að gjöf í svipuðum dúr og síðustu ár, en þar getum við eðli málsins samkvæmt ekki lokað starfseminni.
Hefðbundnir jólasiðir hér á Reykjalundi eins og jólaball og jólahádegisverður verða einnig á sínum stað en þetta verður kynnt betur þegar nær dregur.

Sjáumst hress og hoppandikát á mánudaginn!

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka