20.09.2020

Starfsemi Reykjalundar í lágmarki vikuna 21.-25. september 2020

Í síðustu viku greindist Covid-smitaður einstaklingur á Reykjalundi í fyrsta sinn. Um leið og grunur kom upp um mögulega sýkingu, sem og eftir að jákvætt sýni greindist, fóru í gang markvissir verkferlar um sóttvarnir og varnir gegn smitleiðum. Í samvinnu við smitrakningateymi Almannavarna, hefur verið reynt að kortleggja nákvæmlega hvaða aðila viðkomandi einstaklingur var í samskiptum við á Reykjalundi dagana á undan og skilgreint hverjir tilheyra áhættuhópi vegna þess.

Í öryggisskyni var hluta af starfsemi Reykjalundar lokað tímabundið. 18 starfsmenn fóru í sóttkví. Jafnframt var haft samband við þá skjólstæðinga sem verið höfðu návist viðkomandi einstaklings. Fóru þeir ýmist í sóttkví og sýnatöku eða gerðu tímabundið hlé á sinni meðferð á Reykjalundi.

Nú hefur komið í ljós að fleiri starfsmenn hafa smitast en sá eini sem uppgötvaðist síðasta miðvikudag (alls fjórir) og vitað er að minnsta kosti einn skjólstæðingur hefur greinst jákvæður fyrir Covid-19.

Vegna þessa hefur framkvæmdastjórn Reykjalundar ákveðið að gera meðferðarhlé hjá öllum þjónustuþegum dag- og göngudeilda Reykjalundar vikuna 21.-25. september. Um 100-120 manns heimsækja Reykjalund daglega í þessum tilgangi. Þetta þýðir að gert er hlé á meðferðum allra átta meðferðarteyma þessa viku. Starfsemi heilsuræktar Reykjalundar verður jafnframt lokuð umræddan tíma enda hluti starfsmanna í sóttkví. Starfsemi sólarhringsdeildarinnar á Miðgarði sem og starfsemi Hleinar halda áfram, en búast má við skerðingu á þjónustu þar. Verið er að reyna ná í skjólstæðinga Reykjalundar eftir bestu getu og tilkynna þeim þetta.

Við hörmum þau óþægindi sem þetta kann að valda skjólstæðingum og starfsfólki. Jafnframt ber að þakka starfsfólki Reykjalundar og öðrum sem að málinu hafa komið, fyrir snör og markviss vinnubrögð sem vonandi hafa leitt til þess að búið er að ná eins góðum tökum á ástandinu og mögulegt er.

Stjórnendur Reykjalundar munu fylgjast grannt með stöðu mála og bregðast við eftir þörfum. Við munum gefa út nákvæmari upplýsingar fyrir lok næstu viku og vonandi getum við þá kynnt að starfsemin verði komin aftur af stað mánudaginn 28. september. Reykjalundur þjónustar viðkvæman hóp og því mikilvægt að sýna ítrustu varkárni til að tryggja sem best hag skjólstæðinga og allra annarra sem tengjast Reykjalundi.

Pétur Magnússon
Forstjóri Reykjalundar

Til baka