18.09.2020

Föstudagspistill 18. september 2020

Í vikunni vorum við rækilega minnt á hversu COVID-19 veiran er megnug sem hinn ósýnilegi og óboðni gestur sem hefur haft mikil áhrif á störf okkar allra á Reykjalundi í rúmlega hálft ár. Að undanförnu hefur þeim tilfellum fjölgað sem hafa verið í óþægilega mikilli nálægð við starfsfólk og sjúklinga Reykjalundar. Það kom því ekki beinlínis á óvart að smit skyldi koma upp á Reykjalundi, það var nánast tímaspursmál í ljósi þróunar faraldursins að undanförnu. Það sem mestu máli skipti voru viðbrögðin. Um leið og greining lá fyrir sl. miðvikudagskvöld hafði smitgreiningarteymi Almannavarna samband og þá fór af stað snörp lota símhringinga til hafa samband við alla þá einstaklinga sem þyrftu að fara í sóttkví og til að tryggja að þeir myndu ekki mæta á Reykjalund að morgni fimmtudagsins. Upplýsingum var komið til starfsfólks strax í morgunsárið með tölvupósti forstjóra, fundað með lykilfólki til frekari upplýsinga og að tryggja aukna sótthreinsun og viðbúnað í húsinu. Upplýsingum var svo komið til fjölmiðla um kl 9 í gærmorgun. Að beiðni smitrakningateymis voru teknar saman upplýsingar um alla þá sem uppfylltu skilmerki um sóttkví, í því skyni að auðvelda frekari smitrakningu ef þörf krefði. Vil ég koma á framfæri þakklæti til allra sem aðstoðuðu í þessu verkefni. Áfram þarf mikla árvekni og aðgæslu í smitvörnum. Saman munum við valda því verkefni.

Annað þessu tengt. Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu um langvinn einkenni sem komið hafa í kjölfar COCID-19 sýkingar hjá talsverðum hópi einstaklinga. Þetta gengur undir ýmsum nöfnum s.s. Post- Covid Syndrome. Einkennin eru að hluta til einkenni sem eru þekkt sem afleiðingar annarra veirusýkinga, en heildarmyndin virðist talsvert frábrugðin í fjölbreytileika og óvenju langvinnum einkennum. Síþreyta, úthaldleysi, mæði, kvíði og verkir eru þar áberandi. Reykjalundi hafa borist á fjórða tug beiðna. Óvinnufærni er þar áberandi. Þessum beiðnum hefur verið komið í farveg til lungnateymis sem tekið frumkvæði í að kalla inn sjúklinga í tveggja daga endurhæfingarmat og í framhaldinu sex vikna meðferð. Það er hins vegar ljóst að fleiri teymi munu þurfa að taka þátt í þessu verkefni. Þau verkfæri sem teymin hafa yfir að ráða eru margvísleg og áður nefnd einkenni eru starfsfólki Reykjalundar ekki framandi. Það er enginn vafi á að sú þekking og reynsla sem starfsfólkið býr yfir mun geta nýst þessum einstaklingum.  Samhliða þessu hefur verið settur á fót starfshópur sem er að kortleggja meðferðaráætlun byggða á verklagi lungnateymis. Ennfremur er starfshópurinn að setja saman áætlun um þær mælingar sem gagnlegt væri að gera til að meta ástand sjúklings og árangur meðferðar. Þessi vinna er langt komin og verður kynnt við fyrsta tækifæri. Fjölmiðlar hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga og Reykjalundur oft verið í fréttum vegna þessa. Það er vissulega jákvætt. Meðfylgjandi mynd er frá einu slíku viðtali.

Með ósk um góða helgi.
Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga

Til baka