28.08.2020

Föstudagsmolar forstjóra 28. ágúst 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Um starfsemi heilsuræktar í vetur
Heilsurækt Reykjalundar er mikilvæg þjónusta sem margir fyrrum þjónustuþegar Reykjalundar nýta sér og raunar hafa margir verið hjá okkur í heilsurækt í áratugi. Þar sem Reykjalundur er heilbrigðisstofnun sem sinnir daglega fjölda einstaklinga sem teljast til áhættuhóps vegna Covid-veirunnar, verðum við að sýna ítrustu varfærni í sóttvarnarmálum til að tryggja öryggi þeirra. Vegna þessa verður starfsemi heilsuræktar Reykjalundar, því miður, með töluvert breyttu sniði í vetur. Hópur starfsfólks hér hefur lagt sig fram við að skipuleggja og hnika til starfsemi þannig að starfsemi heilsuræktar geti verið eins mikil og mögulegt er innan marka sóttvarna. Vil ég færa öllum sem komið hafa að því starfi bestu þakkir.
Okkur þykir mjög leitt að þurfa að grípa til þessara ráðstafanna en við það verður ekki ráðið, frekar en víða annars staðar í samfélaginu. Starfsemin hefst mánudaginn 14. september en sala áskriftarkorta hefst 2. september. Komin er auglýsing á heimasíðu Reykjalundar með frekari upplýsingum en fyrirspurnum er best að vísa í afgreiðslu Reykjalundar þar sem kortasalan fer fram.

Einstakt fólk á Reykjalundi
Þá er ágústmánuður að líða undir lok og haustið handan við hornið. Vetur nálgast með fjölda spennandi verkefna enda er vetrarstarfið þegar komið á fullt. Ég hef áður skrifað hér hvað mér þykir mikilvægt og skemmtilegt að heimsækja allar deildir, einingar og teymin og kynnast af eigin raun starfseminni. Þrátt fyrir að mér þyki þessu verkefni miða ágætlega og ég hafi heimsótt ykkur mörg, eru samt nokkur teymi og nokkrir staðir eftir ennþá. Þó byggingar séu sannarlega mikilvægar fyrir starfsemi eins og hér fer fram hjá okkur, er það þó fólkið – það er ÞIÐ, ágæta samstarfsfólk – sem er samt algerlega hornsteinninn í velgengni og góðum árangri Reykjalundar gegnum árin. Það er ljóst að framúrskarandi starfsfólk er það sem gerir Reykjalund að jafn glæsilegri stofnun og raun ber vitni. Því meira sem ég kynnist starfseminni því betur kemur þetta í ljós.
Meðfylgjandi mynd var tekin í vikunni þegar ég fundaði með glæstum hópi hjúkrunarstjórnenda. Að sjálfsögðu var reynt að viðhalda tveggja metra reglunni á fundi og í myndatökunni.

Nýr kynningarbæklingur um Reykjalund í október
Og talandi um myndatökur. Þessa dagana er í húsi ljósmyndari sem er að fanga skemmtileg andartök úr daglegu lífi á Reykjalundi. Afraksturinn á að nýta í nýjan kynningarbækling, í A4 broti, sem verið er að gera um Reykjalund þar sem gestir, nemar og annað áhugafólk um Reykjalund, getur kynnst starfseminni með stuttum textum og fallegum myndum. Það er Sandra Ösp sem hefur umsjón með gerð bæklingsins en hún hefur undanfarna daga verið í samskiptum við ýmsa aðila hér í húsinu varðandi heppilegar staðsetningar og tímasetningar fyrir myndatökur þar sem gæta þarf að ýmsu. Allar góðar hugmyndir að myndefni eru vel þegnar og endilega komið þeim áleiðis beint til Söndru.
Þar sem nokkur kostnaður er við gerð kynningarbæklings af þessu tagi er gott að fram komi að hann er að öllu leiti fjármagnaður með auglýsingum. Áætlað er að bæklingurinn verði tilbúinn í byrjun október.

Að lokum vil ég þakka Guðrúnu Karlsdóttur lækni kærlega fyrir sín störf og sitt framlag til Reykjalundar og óska velfarnaðar í framtíðinni. Hún lætur einmitt af störfum hér nú um mánaðarmótin eftir átta ára starf en í vikunni var haldið skemmtilegt kveðjuboð henni til heiðurs.

Góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka