21.08.2020

Föstudagsmolar 21. ágúst 2020

Kæra starfsfólk á Reykjalundi.

Ég hef lesið föstudagsmola Péturs forstjóra með mikilli ánægju og mér til gleði var mér boðið að skrifa eina slíka.  Ég átti sannarlega ekki von á því þegar ég kvaddi starfið mitt á Reykjalundi í lok maí að aðalumræðuefni síðsumars og haustsins væri kórónaveiran og allt sem henni fylgir.  Það er óhætt að fullyrða að faraldrinum fylgja bæði tækifæri og ógnanir fyrir heilbrigðiskerfið og þar með talið starfið fyrir Reykjalund. Markmiðin með starfinu eru hin sömu en aðstæðurnar kalla á breytt vinnubrögð.

Það verður áhugavert að fylgjast með niðurstöðum þeirra fjölmörgu rannsókna sem þegar eru farnar af stað víða um heim um afleiðingar COVID-19 veikinnar á heilsu og líðan fólks.  Niðurstöður erlendra rannsókna benda til að einn af hverjum fjórum einstaklingum sem veikjast glími við lengri og oft erfið veikindi. Landspítali og Háskóli Íslands hafa sett af stað rannsókn á líðan og heilsu einstaklinga sem fengu Covid-19 á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Spurningalistar hafa verið sendir til 2000 einstaklinga. Niðurstöður úr þeirri rannsókn verða örugglega leiðarljós í endurhæfingu fyrir þá sem lengst glíma við eftirstöðvar veikinnar. Þar komið þið starfsfólk Reykjalundar sterk inn með ykkar víðtæku þekkingu í endurhæfingu og þar skapast einnig ótal tækifæri fyrir fjölbreytileika og nýjar leiðir. Heilbrigðisyfirvöldum verður sífellt ljósara hversu mikilvæg endurhæfing er í stóra samhenginu. Í drögum að stefnu í endurhæfingarþjónustu á Íslandi er lögð áhersla á að Reykjalundur verði endurhæfingarmiðstöð Íslands til framtíðar og er það vel. Ég veit að þið eruð tilbúið að taka þátt í þeirri uppbyggingu. Stjórn Reykjalundar endurhæfing er tilbúin að leggjast á árarnar með ykkur við að skapa skilyrði til nýsköpunar í endurhæfingu.

Stjórn Reykjalundar endurhæfing sem kynnt var í lok maí síðast liðinn hóf störf snemm sumars. Fyrsta verkefnið er að kynna sér vel starfsemina og ætlum við að gera það í haust. Hlutverk stjórnarinnar er fyrst og fremst að styðja starfsemina og standa vörð um tilgang Reykjalundar sem heilbrigðistofnunnar. Við hlökkum til að eiga þetta samstarf við ykkur starfsfólk Reykjalundar.

Anna Stefánsdóttir, formaður stjórnar

Til baka